13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

158. mál, nýting lifrar og hrogna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda hve mikið stórmál hér er á ferðinni. Það er auðvitað ljóst að það þarf að tryggja með einhverjum hætti að sjómenn fáist til að hirða þessi dýrmætu hráefni. Ég veit að til þess þarf átak og það þarf vissar breytingar, en það átak og þær breytingar þurfa að koma fram. Það þarf einnig að skipuleggja betur af stjórnvalda hálfu aðgerðir til nýtingar á þessu hráefni. Í sambandi við það vildi ég minnast á það, vegna þess að það snertir mig beint í tengslum við þetta mál, að í minni heimabyggð, Reyðarfirði, eru núna uppi áætlanir um hvernig þar megi koma á einhvers konar nýtingu hráefna af þessu tagi, reisa lýsishersluverksmiðju eða eitthvað í þá áttina og gera fleira í tengslum þar við. Það verður sannarlega fróðlegt að fylgjast með því, hvernig viðbrögð verða við þessari málaleitan og þeirri athugun sem þar fer fram á því hver hagkvæmni þar er að. Ég tel að þar sé vel að verki staðið og ekki í neinu rasað um ráð fram, en þar vilja menn reyna til hins ýtrasta að átta sig á því, hvort fyrir þessu sé grundvöllur. En mér er ljóst að þungur verður róðurinn, ef ekki verður frekar að gert en þegar er í þessum málum, og vonlítið að þessi verksmiðja eða annar iðnaður í tengslum við nýtingu hráefnanna þróist nema með enn frekara átaki í þessum efnum.