13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

158. mál, nýting lifrar og hrogna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki nákvæmlega niðurstöðu nefndarinnar, enda er ljóst að viðhorf eru sem betur fer orðin töluvert önnur en þegar nefndin skilaði áliti og því ástæða til að vinna svarið upp að nýju. Það, sem ég las áðan, var unnið af mönnum sem voru í þessu einmitt þá og mönnum sem fróðastir eru um nýtingu á lifur.

Eins og kom fram í því sem ég sagði áðan varð veruleg breyting á frá 1978 til 1979 af því að markaðurinn batnaði vegna nýrra sölumöguleika sem komið hafa í ljós á lifur, en mér skilst og reyndar veit, að á árunum 1977–1978 hafi ástandið verið þannig að það, sem fékkst fyrir lifrina, borgaði ekki vinnulaunin við að hirða hana. Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki örugg ráð til að fá menn til að leggja á sig slíka vinnu, þó að þarna sé um veruleg verðmæti að ræða, þó að ég taki undir það með hv. fyrirspyrjanda að æskilegt er að lifrin sé hirt þótt lágt verð fáist. Menn verða að athuga að frá því að lifur var í góðu verði fyrr á árum og fram til 1976–1977 verður hlutfallslegt verðfall á lifur og afurðum úr lifur sem er mörg hundraðfalt. Lifur hefði átt að hækka margfalt í verði miðað við almenna verðlagsþróun, en það eru gerviefnin sem kippa grundvellinum undan. Og því miður hafa margar tilraunir á þessum árum hér til til að nýta lifur, sjóða hana niður og á annan máta koma henni á markað, reynst árangurslausar af þessum ástæðum. Sem betur fer skilst mér að sá vonleysisandi, sem var í mönnum þá, hafi nokkur breyst og nú horfi til betri vegar.

Ráðuneytið hefur óskað eftir því við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, að þar verði jafnt og þétt unnið að því að benda á betri leiðir til að nýta lifur. Eins og kom fram í svari mínu áðan hefur ráðuneytið beitt sér fyrir markaðsátaki með sölu á þorskalýsi og kom fram í svarinu að það er talið hafa leitt til nokkurs árangurs. Þessu verður vitanlega haldið áfram, en ég undirstrika það sem ég sagði áðan, að að mati þeirra manna, sem í þessu vinna og eru fyrir þeim samtökum sem þarna standa að baki, er grundvöllurinn algjörlega sá að betra markaðsverð fáist erlendis. Þeir telja það vera nauðsynlegt til að þessi þróun snúi við.

Þó að ég vilji ekki mæla með því að við tökum Færeyinga okkur til fyrirmyndar að þessu leyti, alls ekki, eru þeir þó þekktir fyrir góða nýtingu og við gætum ákaflega margt af þeim lært. Og þegar ég spurði hvernig stæði á því, að þeir nýttu ekki lifrina, var svarið það, að þeir teldu það ekki borga sig. Það finnst mér þó vera vísbending um að þarna sé um erfitt verkefni að ræða. En ég vil taka undir það, bæði hjá fyrirspyrjanda og hv. þm. Helga Seljan, að vitanlega ber að vinna markvisst að því, að nýta þessi miklu verðmæti.