13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

151. mál, Olíumöl

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í 6. gr. fjárlaga lið 3.7 er heimild veitt fjmrh. til að breyta kröfum ríkissjóðs á hendur Olíumalar hf. í hlutafé að fengnu samþykki fjvn. Alþingis.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess strax, að þegar orðalag á heimildargreininni var ákveðið með þessum hætti var það þannig hugsað af hálfu þingflokkanna og ríkisstj.fjvn. væri falið að gera sérstaka úttekt á fjárreiðum þessa fyrirtækis og lífsmöguleikum þess og að undangenginni þeirri úttekt yrðu ákvarðanir teknar. Það er því mesti misskilningur, sem fram kom í máli hv. þm. Vilmundar Gylfasonar áðan, að með því að rita fjvn. bréf það sem hann nefndi hafi ég gert endanlega upp hug minn í þessu efni og tekið ákvörðun um að nota þessa heimild. Svo er ekki. Þetta bréf er nánast formsatriði og til þess ætlað að fela fjvn. með formlegum hætti að inna það verk af hendi sem áður hafði verið gert samkomulag um að hún innti af henni, þ. e. að hún tæki sér fyrir hendur að gera úttekt á fjárreiðum og forsögu þessa fyrirtækis. Það var rætt um það, fljótlega eftir að fjárlög höfðu verið samþ., í samtali mínu og formanns fjvn., að n. liti svo á að til þess að hún gæti hafið þessa úttekt þyrfti hún að fá bréf þessa efnis. Ég ákvað því að skrifa n. þetta bréf til þess að hún gæti látið úttekt fara fram og að úttekin gæti hafist þegar í stað.

Ég held að það fari ekkert milli mála að hér er á ferðinni mjög flókið mál, margþætt og erfitt, og ég held að það hafi komið berlega fram í þeirri rannsókn, sem fjvn. hefur beitt sér fyrir, að það eru margar hliðar á þessu máli og alls ekki neitt einsýnt hvernig á því skuli tekið. Ég held að það sé margt sem bendir til þess að þrátt fyrir þá athugun, sem fram hefur farið á vegum fjvn., sé ekki fullvíst að öll kurl séu til grafar komin. Ég hef í því sambandi talið ástæðu til að rita Seðlabanka Íslands bréf og óska sérstaklega eftir að Seðlabankinn legði fram öll þau gögn í þessu máli sem tiltæk væru hjá þeirri stofnun og úttekt yrði gerð á fjármálalegum viðskiptum þessa fyrirtækis við bankakerfið. Ég á von á að skýrsla um þetta efni frá Seðlabankanum berist fjmrn. innan ekki of langs tíma. Það eru því alveg hreinar línur að ég mun ekki gera upp hug minn í þessu máli fyrr en í fyrsta lagi að fyrir liggur skýrsla frá fjvn. um rannsókn hennar á málinu, úttekt hennar á málinu, og í öðru lagi ekki fyrr en borist hefur grg. frá Seðlabankanum um þau atriði sem ég hef beðið Seðlabankann að athuga sérstaklega. Ég get því alls ekki svarað þeirri fsp. sem fram er borin hér og er á þessa leið: „Hvernig hyggst hæstv. fjmrh. framfylgja samþykkt meiri hl. Alþ. frá því við 3. umr. fjárlaga varðandi fyrirtækið Olíumöl?“ — Ég get ekki svarað þessari fsp. fyrr en ég hef fengið gögn í hendur sem ég get byggt svör mín á.

Bréfið, sem sent var fjvn., er frá mínu sjónarmiði séð einungis formleg afgreiðsla málsins í hendur fjvn. til að gera henni kleift að hefja þá úttekt sem gert var ráð fyrir að fjvn. beitti sér fyrir, enda þótt það sé ekki sérstaklega tekið fram í heimildagr. í fjárlögunum. Það var og er á vitorði allra, sem um þessi mál fjölluðu, áður en heimildin var sett inn í fjárlögin, að gert var ráð fyrir að fjvn. beitti sér fyrir úttekt af þessu tagi.

Ég vænti þess fastlega að hv. fyrirspyrjandi, sem greinilega hefur ekki vitað um þennan þátt málsins, geri ekki tilraun til að snúa þessu bréfi upp í það að heita efnisleg ákvörðun af minni hálfu því svo er alls ekki.