13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

151. mál, Olíumöl

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram til upplýsinga, að þegar hafa verið gerðar allmiklar úttektir á hag Olíumalar hf. og framtíðarrekstrarmöguleikum fyrirtækisins, þannig að ekki er rétt að það hafi þurft að biðja fjvn. um sérstaka athugun á því máli vegna þess að gögn um það hafi ekki verið til. Slík gögn eru til og athugun var gerð áður en Alþ. samþykkti þá heimild í fjárlögum sem um var rætt. Ég gat þess í grg. fyrir atkv. mínu og í umr. um fjárlögin og þetta tiltekna mál að slík gögn lægju fyrir og ef þm. hefðu áhuga á að kynna sér þau væri ég sannfærður um að hæstv. fjmrh. mundi beita sér fyrir því að þm. fengju þessi gögn.

Ég vil minna á að í þeirri heimild, sem Alþ. veitir, heimilar Alþ. hæstv. fjmrh. að breyta söluskattsskuld fyrirtækisins við ríkissjóð í hlutafé að fengnu samþykki fjvn. Hæstv. fjmrh. óskar síðan eftir því í bréfi til fjvn., ekki að hún rannsaki málið, hann minnist ekki einu orði á það, heldur að hún veiti sér þessa heimild. Láta menn sér það til hugar koma að hæstv. ráðh. óski eftir því að fá heimildina frá fjvn. ef hann hefur ekki gert upp hug sinn til málsins? Það er bókstaflega rangt að hæstv. ráðh. hafi beðið fjvn. um að rannsaka þetta mál. Það er ekki minnst á það einu orði, heldur óskar hæstv. ráðh. eftir því að sér verði veitt heimild til að ganga frá málinu. Það er furðulegt að óska eftir slíkri heimild ef maður hefur ekki gert upp hug sinn. Þá er ekki tímabært að óska eftir heimildinni.

En það er ekki nýtt að menn hafi við nánari athugun breytt um skoðun á því hvað gera eigi til að hægt verði áfram að leggja varanlegt slitlag á götur og vegi hér á Íslandi án þess að þetta fyrirtæki þurfi að flosna upp. Ég minni á að Framkvæmdastofnun ríkisins fékk á sínum tíma tvö bréf frá hæstv. þáv. ríkisstj., undirrituð af forsrh., fyrst um að Framkvæmdastofnunin beitti sér fyrir tilteknum aðgerðum og fjárútvegun til lausnar málinu, en síðar, þegar hæstv. ríkisstj. hafði fjallað betur um málið og kynnt sér það betur, snerist henni hugur. Ég held að sama hafi komið fyrir hæstv. fjmrh. núna. Hann er að reyna að krafla sig með einhverjum hætti út úr þessu máli vegna þess að að fengnum nýjum upplýsingum hefur hæstv. ráðh. snúist hugur. Þetta á hann að segja afdráttar- og umbúðalaust, en vera ekki að reyna að fela hina raunverulegu ástæðu með svo ómerkilegum hætti sem hæstv. ráðh. var að gera áðan.