13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

151. mál, Olíumöl

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er greinilega fátækt mikil ríkjandi meðal stjórnarandstæðinga, svo ekki sé meira sagt, og það er greinilegt hvert stefnir í þessum umr. Menn, sem vita betur, eins og formaður fjvn., ætla að skáka í því skjóli að það var ekki talað berum orðum um þessa rannsókn í fjárlagafrv. eða í fjárlögunum sjálfum og ekki heldur í því bréfi sem ég ritaði n., en það vita fleiri menn hér í salnum en fingur tveggja handa, að það var frá því gengið að þessi rannsókn færi fram og að hún yrði á vegum fjvn. og að ríkisstj. mundi ekki taka afstöðu til málsins fyrr en að undangenginni slíkri rannsókn. Formaður fjvn. veit nákvæmlega jafnvel og ég hvað okkur fór á milli í þessum efnum. Hann veit það vel að hann bað sjálfur um að ég ritaði þetta bréf til þess að fjvn. gæti látið rannsókn fara af stað, látið úttekt fara af stað. Og ég verð að segja að mér finnst harla furðulegt ef menn ætla að reyna að negla mig upp við vegg í þessu máli út af því að það er ekki berum orðum tekið fram í þessu bréfi, sem var hins vegar á allra vitorði að stóð til, að fjvn. gerði sérstaka úttekt á þessu máli.

Ég vil ítreka það, sem ég hef sagt hér þegar, að ég hef talið óhjákvæmilegt að láta gera ítarlega úttekt á stöðu þessa máls áður en ákvarðanir yrðu teknar. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að það liggja fyrir miklar og langar skýrslur um þetta mál í fjmrn. og í samgrn., og ég kannast vel við heilmiklar úttektir á þessu máli sem framkvæmdar voru á árinu 1979 þegar ég var samgrh. En ég tel, eins og margir aðrir, að þær upplýsingar, sem fyrir hafa legið, séu ófullnægjandi. Þess vegna hef ég ætlast til þess að fjvn. eyddi talsverðum tíma í að komast til botns í þessu máli, og einnig hef ég ritað Seðlabankanum bréf í sama tilgangi. Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst lágkúrulegt ef menn ætla nú að notfæra sér það að ekki er berum orðum tekið fram í þessu bréfi það sem um var rætt manna á milli, m. a. milli fulltrúa þingflokka.