13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

151. mál, Olíumöl

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast um það við hæstv. fjmrh. úr hverri áttinni kemur mest lágkúran í þessu máli. Það, sem stendur auðvitað skýrt og óhaggað, er að í bréfinu er óskað samþykkis fjvn., en þar er ekki óskað neinnar rannsóknar. Ég get vel fallist á að í samtali okkar hæstv. fjmrh. hafi komið fram að auðvitað ætti fjvn. að skoða þetta mál. Það er sjálfsagt alveg rétt. En það var hvergi talað um rannsókn eða úttekt, enda hygg ég að ljóst sé að fjvn. hefur ekki vald til slíks. Hún getur skoðað svona mál að vissu marki, en hún hefur ekki raunverulegt vald til að framkvæma neins konar rannasókn á slíku máli. Hafi fjmrh. ekki verið búinn að gera upp hug sinn hefði hann auðvitað ekki átt að skrifa í sínu bréfi: „Hér með er óskað samþykkis fjvn. á því að ofangreind heimild verði notuð.“ Hann hefði átt að óska eftir því að fjvn. athugaði þetta mál og hvort hún mundi geta samþykkt að þessi heimild væri notuð. En þetta bréf stefnir í allt aðra átt og ber auðvitað glögglega með sér að ráðh. hefur á þessu stigi málsins verið búinn að gera upp hug sinn. Ég ætla ekkert að lá honum það, vegna þess að svo kann vel að hafa verið um fleiri. En hins vegar hygg ég að því betur sem menn skoða þetta mál, því fleiri tölur sem menn heyra og því fleiri upplýsingar sem menn fá í hendur, þeim mun vafasamara virðist vera að ráðast í þá aðgerð sem hér er óskað eftir. Þeim mun flóknara virðist málið vera, sem það er lengur skoðað, — og ég hygg að það hafi runnið tvær grímur á fleiri menn en hæstv. ráðh. varðandi þetta mál.