13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

151. mál, Olíumöl

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég held að þetta sé ekki mjög gagnlegt karp sem hefur gengið hér undanfarnar mínútur. Þessi fsp. er að vissu leyti úrelt vegna þess að síðan hún var borin fram, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, hefur fjvn. undir forustu flokksbróður fyrirspyrjanda haft málið til athugunar. Ég held að fjvn. hafi unnið gott starf við athugun á málinu. En því starfi er ekki lokið og heimildin, sem tekin var upp í fjárlögin, var samþykkt með þeim fyrirvara að áður en til þess kæmi að hæstv. fjmrh. notaði þessa heimild legði fjvn. blessun sína yfir að hann gerði það.

Ég man eftir því, að þegar ég gerði grein fyrir mínu atkvæði við atkvgr. um málið hér í þinginu við afgreiðslu fjárlaganna var mitt samþykki til að heimildin væri veitt bundið því, að fjvn, og þingflokkarnir fengju tækifæri til að skoða þetta mál nákvæmlega. Þingflokkur Framsfl. er ekki reiðubúinn til að taka endanlega ákvörðun í þessu máli. Það er ekki komið á það stig. Þetta er flókið mál og sífellt eru að koma nýjar og nýjar upplýsingar fram og við erum að leita að heppilegustu leiðinni til að halda hér uppi varanlegri gatnagerð og eðlilegum framkvæmdum við bundið slitlag í landinu. Mér er það persónulega ekki ljóst enn þá að réttast sé að endurreisa þetta fyrirtæki fremur en að stofna nýtt. Sumt af vélakosti Olíumalar hf. er úrelt eða óheppilegt. Ég held að það sé rétt að fjvn. vinni áfram að þessu máli með eðlilegum hraða og þingflokkum gefist tóm til að athuga það betur. Síðan er hægt að fara að ræða um framtíð þessa fyrirtækis.