13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

151. mál, Olíumöl

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta eru orðnar ærið einkennilegar umr. Hér stendur upp einn ágætur talsmaður Sjálfstfl. og segir t. d. að fyrirtækið Olíumöl hafi haft svo lélega forsvarsmenn að það ætti að fara þráðbeint á hausinn. Ég er hræddur um að nærri sé höggvið ýmsum trúnaðarmönnum í Sjálfstfl. Síðan gefur sami þm. þá yfirlýsingu að auðvitað megi fyrirtækið ekki fara á hausinn.

Annar þm. stóð upp og hélt því fram að fsp. væri úrelt úr því að ráðh. hefði þegar ákveðið að nýta heimildina. Nú hefur það hins vegar gerst að ráðh. hefur gefið yfirlýsingu um að hann hafi ekkert ákveðið um hvort hann muni nýta heimildina. Þá get ég varla séð að fsp. sé mjög úrelt.

Sama gildir um yfirlýsingar ráðh. Hann lætur það ganga út í bréfi að hann óski eftir að nýta þessa heimild, en í umr. upplýsist að það sé ómark, í þessu bréfi felist alls ekki það sem í því stendur, heldur eigi það að þýða eitthvað allt annað. Það gæti verið athyglisvert fyrir Alþ. að átta sig á því, hvort það gildi almennt hjá ráðh., ef hann lætur eitthvað eftir sér hafa, að þá þýði það einmitt hið gagnstæða, ekki það, sem hefur gengið út á þrykk, eða þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið, heldur eitthvað allt annað. Þegar hann biður um heimild til að gera eitthvað meinar hann að það eigi að framkvæma úttekt t. d., og þegar hann biður um úttekt er hann í rauninni að óska eftir heimild.

Ég held að þessi umr. sanni að menn hafi í raun og sannleika komist að því eftir nánari íhugun — þeir sem voru þeirrar skoðunar að hér skyldi láta til skarar skríða og bjarga þessu fyrirtæki á kostnað almennings — að slíkt væri kannske ekki svo einfalt. Ég held að alveg liggi ljóst fyrir að þetta fyrirtæki verður ekki rekið með eðlilegum hætti á grundvelli þeirra björgunaraðgerða sem ýmsir hafa verið að tala fyrir og sem heimildin er byggð á. Sannleikurinn er sá, að þau verkefni, sem hér þarf að sinna, eru ekki það umfangsmikil að þau standi undir öllu því sukki sem átt hefur sér stað í þessu fyrirtæki áður, og þess vegna þarf að gera á því uppskurð. Auðvitað er okkur öllum í mun að haldið verði áfram að sinna þeim verkefnum, sem vinna þarf á sviði vegalagningar, og það þarf að tryggja. En það verður ekki gert með eðlilegum hætti með því að spýtt verði almannafé inn í fyrirtækið.