13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

151. mál, Olíumöl

Páll Pétursson:

Herra forseti. Svo að við rekjum söguna eins og hún gekk til voru greidd hér 2. apríl atkv. um brtt. á þskj. 270. Það var við 3. umr. fjárl. Þetta voru brtt. frá fjvn. Fyrri liður brtt. á þessu þskj. er þannig: „Við 6. gr. Nýr liður:

3.7 Að breyta kröfum ríkissjóðs á hendur Olíumöl hf. í hlutafé að fengnu samþykki fjvn. Alþingis.“

Þarna lá ljóst fyrir, að það átti nú aldeilis að koma til Teits og Siggu. Það vildi svo til, að fjórir þm. gerðu grein fyrir atkv. sínu við afgreiðslu þessa máls. Ég ætla að sleppa fyrstu grg., það er grg. Vilmundar Gylfasonar. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., sagði þetta, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Þegar við ýmsir, sem erum nýliðar hér á þingi, komum á þing fyrir tveimur árum varð það meðal okkar helstu baráttumála að þn. ættu að taka virkan þátt í að athuga og kanna mál. Hv. þm. Vilmundur Gylfason var meðal þeirra sem í þessum baráttuhópi voru. Ég harma það eindregið, að hann skuli nú hafa gengið úr liðssveit þeirra hér á þingi sem vilja ætla þn. það athugunarstarf sem hér er kveðið á um. Ég fagna því að hér er ætlunin að fjvn. Alþ. taki málefni þessa fyrirtækis, sem hefur unnið mörg merk verk þó að sumt kunni kannske að vera umdeilanlegt, til athugunar. Ég lýsi því yfir, að ég treysti fyllilega þeirri athugun og könnun sem fjvn. undir forustu Eiðs Guðnasonar, þm. Alþfl., mun framkvæma. Ég segi því já við þessari till. og vona að liðsmönnum sjálfstæðra rannsókna og athugana þn. fari ekki svo ört fækkandi eins og fram kemur í atkvgr. sumra Alþfl. manna hér nú.“

Ég sagði, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Í trausti þess að fjvn. skoði þetta mál vandlega og hafi samráð við þingflokkana segi ég já.“ Formaður þingflokks Alþfl. tók til máls og sagði: „Á mjög stuttum tíma hafa þrívegis verið gerðar sérfræðilegar úttektir á málefnum þessa fyrirtækis, fyrst á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðan á vegum sérstakrar vinnunefndar, sem fór ofan í sauma fyrirtækisins á vegum ríkisstj., og loks í þriðja lagi á vegum fjmrn. Skriflegar skýrslur eru til um allar þessar athuganir, sem eru nýjar af nálinni, og frekari skoðun mundi engu þar við bæta“ — ég endurtek: „engu þar við bæta. Ef hv. þm. hafa áhuga á að kynna sér niðurstöður þessara athugana gætu þeir gert það með einfaldri fsp. til hæstv. fjmrh. hér í þinginu því að ég er sannfærður um að hæstv. fjmrh. mundi, ef hann væri spurður, skýra þingheimi frá þeim upplýsingum sem uppi eru í hv. fjvn. um þessi mál. Vegna þess að ég hef kynnt mér efni þessara skýrslna og fylgst vel með gerð þeirra segi ég nei.“

Hér hafa sem sagt formenn þriggja þingflokkanna gert grein fyrir atkv. sínum. Formaður þingflokks Sjálfstfl. gerði það hins vegar ekki, en ég tel að það skipti ekki meginmáli. Ég held að það hafi verið gengið út frá því að fjvn. og þingflokkarnir fylgdust með þessu máli og legðu yfir það blessun sína áður en fjmrh. færi að taka lokaákvörðun í málinu.