13.05.1980
Sameinað þing: 57. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

164. mál, vegáætlun 1979-1982

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Þegar vegáætlun var til umfjöllunar í fjvn. létu fulltrúar sjálfstæðismanna í n., sem þar sátu þegar vegáætlun 1979–1982 var til umfjöllunar í fjvn., undirritaður, Pálmi Jónsson og Ellert Schram, bóka eftirfarandi um afstöðu sína:

„Sjálfstæðismenn, fulltrúar minni hl. í fjvn., rita undir þetta nál. með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Þeir vilja taka fram, að vegna ákvarðana ríkisstj. um stórfelldan niðurskurð á framlögum ríkissjóðs til vegamála á þessu ári.“ — þ. e. árinu 1979 „mun verða um 15% magnminnkun nýbygginga vega í landinu frá því í fyrra, þrátt fyrir gífurlega auknar skattaálögur á umferðina. Síðari ár vegáætlunarinnar er stefnt í nokkra magnaukningu vegaframkvæmda, án þess að minnsta tilraun sé gerð til þess að ríkisstj. og Alþ. móti stefnu í fjáröflun til þess á annan hátt en gera ráð fyrir nýjum lántökum.“

Það er augljóst að sú till. til þál. um breytingar á gildandi vegáætlun, sem hér er fjallað um, gengur miklu lengra í þá átt sem gagnrýnd var í bókun okkar þremenninganna í fyrra. Skattahækkun á umferðina eykst gífurlega og framkvæmdafé af skatttekjum er stórlega skert á sama tíma. Í ljósi þessa og framangreindrar grg. ákváðum við, sem ritum undir nál. sem ég mæli hér fyrir, að skila sérstöku nál. á þskj. 485, sem er næsta óvenjuleg aðferð við afgreiðslu fjvn. á vegáætlun, en við teljum svo langt gengið að við viljum hafa þennan hátt á og undirstrika þannig algera sérstöðu okkar við afgreiðslu þessarar þáltill.

Samkv. upplýsingum Vegagerðar ríkisins felur till. í sér 4.5 milljarða kr. niðurskurð á raungildi heildarfjárveitinga til vegamála miðað við gildandi vegáætlun. Samtímis því hafa skattaálögur á bensín verið auknar svo gífurlega að óvíða í heiminum má finna dæmi um slíka skattlagningu. Nokkur höfuðatriði þeirrar öfugþróunar, sem átt hefur sér stað í skattlagningu á umferðina og framlögum til vegamála síðan sjálfstæðismenn fóru með ríkisfjármálin 1978, eru þessi:

1. Engin einasta króna af 10 milljarða skattahækkun á bensín umfram verðlagsbreytingar, sem orðið hafa síðan 1978, fer til vegaframkvæmda. Þvert á móti hefur raungildi markaðra tekjustofna og beinna eða óbeinna framlaga ríkissjóðs til vegamála minnkað um nær 1 milljarð í fyrra og á þessu ári ef þessi till. verður samþ.

2. Á yfirstandandi ári kæmi 4050 millj. kr. hærri fjárhæð til vegaframkvæmda af bensínsköttum en þessi till. gerir ráð fyrir samkv. útreikningum Vegagerðar ríkisins, ef sama hlutfall þessara skatta gengi til vegaframkvæmda og raun varð á 1978.

3. Bein framlög úr ríkissjóði að meðtöldum afborgunum og vöxtum af lánum til vegagerðar væru samkv. útreikningum Vegagerðarinnar og fjárlaga- og hagsýslustofnunar 2810 millj. kr. hærri að raungildi en till. gerir ráð fyrir miðað við framlög þessi 1978.

4. Ríkisframlög af skatttekjum til vegagerðar eru því samkv. þessari till. skorin niður um hvorki meira né minna en 6860 millj. kr. samkv. útreikningum fyrrgreindra stofnana miðað við þessi framlög 1978. Þetta fjármagn er notað nú til eyðslu ríkissjóðs í stað vegaframkvæmda.

5. Á þessu tímabili hefur heildarskattlagning ríkisins á bensíni aukist á föstu verðlagi fjárlaga 1980 um 9938 millj. kr. samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar.

6. Framkvæmdamagn nýbygginga vega og brúa samkv. þessari till. er svo til það sama og meðaltal áranna 1975–1978 að báðum meðtöldum þegar skattlagning á umferðina var milljarðatug minni.

7. Þá er í till. gert ráð fyrir 3.5 milljarða kr. auknum lántökum að raungildi miðað við lántökur til vegagerðar 1978 til þess að standa straum af þeim vegaframkvæmdum í ár sem eru ekki meiri en meðaltal áranna 1975–1978.

Við Íslendingar erum vanþróuð þjóð í vegamálum og eyðum milljörðum kr. í vonlítið viðhald malarvega, viðhald og eldsneyti bifreiða, sem við gætum sparað með því að leggja sem fyrst bundið slitlag á fjölförnustu þjóðvegi. Víða kemst fólk ekki leiðar sinnar á vetrum, jafnvel í neyðartilfellum, vegna skorts á vel uppbyggðum vegum. Auknar framkvæmdir í vegamálum eru við hlið orkuframkvæmda arðbærasta og mesta félagslega verkefni þjóðarinnar sem bíður úrlausnar. Framangreind stefna, sem felst í því að slá heimsmet í skattheimtu á notkun bifreiða til eyðslu úr ríkissjóði, en skera niður vegaframkvæmdir, er því hvort tveggja í senn andfélagslegt og fjárhagslegt glapræði.

Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir 1979–1982 talaði þáv. samgrh., hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds, um „stórt stökk upp á við“ árið 1980 í vegamálum sem hann væri að undirbúa með flutningi till. sinnar. Hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds, sem þá var samgrh., sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er hins vegar sannarlega reiðubúinn að standa að því, þegar þar að kemur, að veruleg hækkun verði aftur á milli áranna 1980 og 1981, en miðað við þá þróun, sem verið hefur á þessu sviði á undanförnum árum, þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar allra flokka um nauðsyn hins gagnstæða og margvíslegar till. um stór átök í vegamálum, tel ég að hyggilegra sé að láta fyrst reyna á hvort samstaða sé um að snúa þróuninni við á árinu 1980 og taka stórt stökk upp á við í fjárveitingum til nýbyggingar vega og brúa, en gera þá frekar ráð fyrir að næsta stóra stökk verði ákveðið við endurskoðun vegáætlunar 1981.“

Ýmsir gerðu sér vonir um það, ekki síst þegar hæstv. fyrrv. samgrh. var orðinn hæstv. fjmrh. og átti að framfylgja vegáætlun sinni, að þetta stóra stökk yrði tekið á árinu 1980 og enn þá fremur, þar sem í málefnasamningnum góða stendur að „staðið verði við vegáætlun 1980–1982“, að til skarar yrði látið skríða og stóra stökkið tekið. Stóra stökkið upp á við í framlögum ríkissjóðs varð að því, að ríkissjóður leggur nú minna að raungildi til vegamála en 1978. En stóra stökkið kom. Stóra stökkið var í hækkun á sköttum á umferðina. Í ár eru sem sagt, eins og ég sagði áðan, hvorki meira né minna en 10 milljarðar kr. innheimtir af bensíni í skatta á umferðina að raungildi í hærri fjárhæð en 1978.

Niðurskurður gildandi vegáætlunar samkv. till., sem hér er til umr., bitnar mest á nýframkvæmdum vega og brúa. Þar skortir 3182 millj. kr. á að staðið sé við gildandi vegáætlun að raungildi. Mestur er niðurskurðurinn í svonefndum sérverkefnum í vegagerð, ef frá er talin Borgarfjarðarbrú og vegagerð í Önundarfirði. Síðast töldu verkefnin fá 380 millj. kr. hækkun samkv. till. frá gildandi vegáætlun í verðbætur eða rúmlega 10%. Önnur sérverkefni eru skorin niður í krónutölu um 16%, en að raungildi nálægt 45%. Hér er um að ræða Þingvallaveg, veg um Holtavörðuheiði, Héraðsvötn, Vikurskarð og Hvalnesskriður.

Almenn brúargerð er einnig samkv. till. skorin verulega niður frá vegáætlun að raungildi eða um 40%.

Mikill niðurskurður er á sumarviðhaldi vega og verður það einungis 73% af því sem Vegagerð ríkisins telur þörf á. Enn þá meiri er niðurskurður á vetrarviðhaldi eða snjómokstri. Ræddi ég það nokkuð við i. umr. og skal ekki fjölyrða um það hér. Á upphæð gildandi vegáætlunar mun skorta 608 millj. kr. til þess að raungildi fjármagns til snjómoksturs samkv. vegáætlun haldist. Það er ljóst að næsta haust þarf að vera sérstaklega snjólétt til þess að áætlunin standist, og það, sem verst er við þetta að mínu mati, er að mér sýnist útilokað að rýmka snjómokstursreglur, ef halda á þessari áætlun, þótt víða sé mjög mikil nauðsyn á að það verði gert.

Fjvn. ákvað með öllum atkv. að skipting á vegafé milli kjördæma að því er varðar almenn verkefni stofnbrauta og þjóðbrauta skuli vera óbreytt frá því sem ákveðið var við afgreiðslu vegáætlunar fyrir yfirstandandi ár á Alþ. í fyrra. Einnig var samþ. af meiri hl. n. að hækka fjárveitingu til Borgatfjarðarbrúar og vegagerðar í Önundarfirði um 380 millj. kr., en lækka önnur sérverkefni í krónutölu um 180 millj. Minni hl. n., þ. e. við undirritaðir, telur að hér sé um fráleit vinnubrögð að ræða.

Þannig stendur á að þessi verkefni, Borgarfjarðarbrú og vegagerð í Önundarfirði, eru á því framkvæmdastigi að þeim verður að ljúka í ár, en fjáröflun til þess á að okkar mati ekki að bitna á öðrum mikilvægum verkefnum.

Þegar frá eru taldir markaðir tekjustofnar Vegasjóðs, sem renna beint til vegamála, þ. e. bensíngjald, gúmmígjald og þungaskattur, má skipta framlögum ríkissjóðs til vegaframkvæmda í tvennt: 1) beint framlag ríkissjóð á fjárlögum og 2) greiðslur afborgana og vaxta af lánum til vegagerðar.

Framlög ríkissjóðs þannig skilgreind hafa lækkað um 2810 mill. kr. samkv. útreikningi Vegagerðar ríkisins og fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Á föstu verðlagi (fjárlagaverðlagi 1980) eru þessi framlög þannig, lögð saman: á árinu 1978 7978 millj. kr., 1979 5934 millj. kr., 1980 5168 millj. kr. Mismunurinn á raungildi beinna framlaga ríkissjóðs og afborgana og vaxta af lánum til vegagerðar er samkv. þessu 2810 millj. kr.

Markaðar tekjur hafa hækkað að raungildi um nálægt 1900 millj. kr. og verður því niðurstaðan sú, að fjáröflun til vegamála með samtíma skatttekjum, þ. e. markaðir tekjustofnar, og bein framlög ríkissjóðs og afborganir og vextir hafa minnkað um 900–1000 millj. kr. að raungildi síðan 1978.

Heildartekjuöflun ríkissjóðs á þessum árum af mörkuðum tekjum, beinu framlagi til vegamála og afborgunum og vöxtum eru á verðlagi ársins 1980 20 milljarðar 748 millj. kr. 1978. Þetta lækkar í 20 milljarða 94 millj. 1979 og lækkar enn í ár í 19 milljarða 843 millj. kr.

Þessi niðurskurður á fjáröflun til vegagerðar af samtíma skatttekjum hefur átt sér stað á sama tíma sem skattálögur ríkissjóðs á bensín hafa aukist að raungildi um 10 milljarða kr., eins og ég sagði áðan. Ef 50.6% af þessum bensínsköttum hefðu runnið til vegamála fengi Vegasjóður nú 4050 millj. kr. í viðbót við mörkuðu tekjustofnana.

Ég óskaði eftir því við Vegagerð ríkisins að hún gerði samanburð á því, hverjar nýframkvæmdir vega og brúa hafa verið á verðlagi ársins í ár að meðaltali árin 1975–1978. Út úr því dæmi kom að meðaltal þessara framkvæmda er 11 milljarðar 190 millj. kr. Framkvæmdaframlög til nýbygginga vega og brúa árin 1975–1978 eru að meðaltali 11 milljarðar 190 millj. kr., en á þessu ári er ætlunin að verja 11 milljörðum 570 millj. kr. eða örlitlu meira en meðaltalið 1975-1978 segir til.

Til þess að ná þessu framkvæmdamagni verður ákveðið nú, ef þessi till. verður samþ., að afla fjár með lánum upp á 3500 millj. kr. meira að raungildi en 1978. Það er ekki einungis að skattgreiðendur hafi verið látnir greiða núna 10 milljörðum meira af umferðinni í ríkissjóð, heldur verða þeir að borga síðar fyrir það framkvæmdamagn sem verður unnið í sumar. Þeir verða að borga það í hærri sköttum síðar vegna afborgana og vaxta af auknum lántökum í ár.

Ef reynt er að rýna ofan í skattálögurnar á bensín og bera saman hverjar þær voru 1978 og 1980 kemur út úr heildardæminu það sem ég sagði áðan. En það er dálítið fróðlegt að gera sér grein fyrir því hvað gerist í rauninni. Tollar af bensíni eru að raungildi í ár um 4400 millj. kr. hærri en þeir voru 1978 og söluskattur einnig 4440 millj. kr. hærri, c:n bensíngjaldið er aðeins 1.1 milljarði hærra en það var l 978. Ríkissjóður fær sem sagt bróðurpartinn af þessum sköttum beint, en notar síðan það, að markaði tekjustofninn hækkar örlítið í bensíngjaldinu, til að draga svo mjög úr beinum framlögum ríkissjóðs að heildarframlög ríkissjóðs lækka til vegamála, eins og ég hef hér marggert grein fyrir.

Það er einnig athyglisvert að gera sér grein fyrir því, hve mikill hluti af bensínsköttum rennur nú í Vegasjóð. 63% af bensínsköttum renna nú í ríkissjóð, en í Vegasjóð 37%, en hlutfallið var 49% í ríkissjóð 1978 og 51% í Vegasjóð.

Hækkun bensínskattanna stafar að sjálfsögðu bæði af hækkun á söluskattsstofninum, þ. e. hækkun innflutningsverðs á bensíni vegna olíukreppunnar, og einnig vegna þess að söluskattur hefur verið hækkaður. Hvergi hefur verið slakað á þessum sköttum þrátt fyrir hækkun innflutningsverðsins. Þannig hefur ríkissjóður aukið á vandann vegna olíukreppunnar, — þann vanda sem notendur bifreiða standa frammi fyrir.

Reynum að gera okkur grein fyrir því hvernig verð á bensínlítra sundurliðast núna. Af 430 kr., sem hver lítri kostar, fara 156.14 kr. eða 36.3% beint í ríkissjóð, í Vegasjóð fara 91.36 kr. eða 21.3% og annar kostnaður er undir helmingi; hann er 182.50 kr. eða 42.4% af verði bensínlítra.

Það er athyglisvert að söluskatturinn leggst ofan á toll og bensíngjald, þannig að síðast þegar bensín hækkaði, þá hækkaði bensín um 20.43 kr, vegna hækkunar á bensíngjaldi, en ofan á það að bensínlítrinn hækkaði um 20.43 kr. vegna bensíngjaldsins í Vegasjóð hækkaði söluskattur um 4.80 kr. Þannig leggst skattur ofan á skatt ofan á þá miklu hækkun á innflutningsverði bensíns sem orðið hefur vegna olíukreppu.

Ég sagði áðan að það væru gífurleg verkefni sem biðu úrlausnar í vegamálum hjá okkur. Mest eru þessi verkefni að sjálfsögðu í lagningu bundins slitlags og í því að byggja vegina betur upp og gera betri vetrarvegi. Það er staðreynd og það hefur margsinnis verið fullyrt, ég hygg af öllum forráðamönnum allra flokka, að vegamálin eru eitt mesta og arðbærasta félagslega átak í opinberum framkvæmdum sem þjóðin stendur frammi fyrir, og stenst þar ekkert samanburð nema ef vera kynni orkuframkvæmdir.

Talið er arðbært að leggja bundið slitlag á 2500 km af þjóðvegum landsins, en er lokið núna við 260 km. Þótt „staðið væri við“ vegáætlun, eins og stendur í stjórnarsáttmálanum, að raungildi til þess að framkvæma varanleg slitlög á þjóðvegum landsins samkvæmt þessari áætlun sýnist mér að það mundi taka um 30–40 ár að leggja varanleg slitlög á þá vegi sem talið er arðbært. Samt sem áður gerir þessi till., sem hér er til umr., ráð fyrir að skera niður þessar framkvæmdir um 29% frá gildandi vegáætlun. Ég vil því sérstaklega fagna því, sem fram kom hér frá hv. þm. Sverri Hermannssyni þegar svarað var fyrirspurn áðan, að Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gengið fram fyrir skjöldu og að ýmsum æðstu mönnum, sem ráða málum vegagerðar, fornspurðum hefur hún ákveðið að leggja til viðbótar þessari till. 700 millj. til að hraða varanlegri vegagerð í landinu. Þessi ákvörðun stjórnar Framkvæmdasjóðs, sem tekin var að tillögu hv, þm. Sverris Hermannssonar, er algjörlega í samræmi við þá stefnu sem Sjálfstfl. hefur markað í þessum efnum.

Sjálfstæðismenn hafa flutt á undanförnum þingum till. til þál. um vegamál. Í þeirri till. og í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið með þeirri till., hefur margsinnis verið undirstrikað hvað varanleg vegagerð hafi gífurlega mikla þýðingu og sé arðbært verkefni. Þar hefur m. a. komið fram að menn spara t. d. 19% í bensíneyðslu með því að aka á varanlegum vegi miðað við malarveg, 170% í viðhaldi hjólbarða og 45% í almennu viðhaldi. Er talið að það sé 63% meira slit á bifreið á malarvegum en vegum með bundnu slitlagi. Enn fremur er talið að bundið slitlag borgi sig á 6–7 árum, þ. e. að bundið slitlag, þar sem 1000 ársbíla umferð er, borgi sig á 6–7 árum í sparnaði á viðhaldi vega.

Við nm., sem stöndum að þessu nál., birtum þáltill. okkar sjálfstæðismanna sem fskj. með nál. og hún skýrir sig sjálf. Í henni er einmitt vikið að því, að Byggðasjóður leggi árlega fram verulegt fé til að hraða þessum mikilvægu og nauðsynlegu framkvæmdum, og enn fremur er gert ráð fyrir að umframtekjur af sköttum á umferðina frá og með áramótum 1978 skuli allar renna til vegaframkvæmda og að haldið verði áfram að afla fjár með happdrættislánum til vegaframkvæmda. Ef farið hefði verið eftir þessari stefnumörkun væri í ár mikið á annan tug milljarða til framkvæmda í vegamálum, sem ekki sást í till. sem hér er til umræðu um breytingar á gildandi vegáætlun.

Þessi stefnumörkun hefði að sjálfsögðu þýtt stóraukið fjármagn til uppbyggingar vega, en hún hefði krafist aðhalds á öðrum sviðum í eyðslu ríkissjóðs og framkvæmdum. Það hefur ríkt þveröfug stefna hjá vinstri stjórninni og núv. ríkisstj. Þar hefur ríkt gegndarlaus eyðslustefna í millifærslu- og rekstrarútgjöldum ríkissjóðs og með þeim afleiðingum að áfram verður um sinn að sjálfsögðu eytt stórfé í vonlítið viðhald malarvega og slit bifreiða meðan gerð góðvega bíður og verður frestað.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þessi mál. Afstaða okkar þremenninga, sem skrifum undir sérálit varðandi þessa till., er skýr í nál. Það er ótvírætt og skiptir höfuðmáli í þessu sambandi, að gert er ráð fyrir því, á sama tíma sem gífurlega hefur verið farið ofan í vasa skattborgaranna að því er varðar skattaálögur á notkun bifreiða, að framlög ríkissjóðs til vegamála, þ. e. í mörkuðum tekjustofnum, beinum og óbeinum framlögum ríkissjóðs, séu skorin niður og framkvæmdagildi í ár einungis við haldið með margra milljarða kr. aukinni lántöku sem skattgreiðendur verða síðar að borga.