13.05.1980
Efri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Frsm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Félmn., hefur orðið sammála um að flytja frv. til 1. um breyt. á lögum nr. 47 frá 30. maí 1979, um aðstoð við þroskahefta, 194. mál, en það er í tveimur greinum og aðalatriðið er 1. gr. er hljóðar svo:

„Aftan við 24. gr. laganna bætist ný mgr., svo hljóðandi:

Einnig skal veita úr sjóðnum styrki til framkvæmda við heimili sjálfseignarstofnana og annarra aðila, svo og vistheimili.“

Eins og fram kemur í grg. er nauðsyn á að þessi breyting verði gerð, þar sem sjálfseignarstofnanir verða annars úti miðað við fjárveitingar. Stjórnarnefnd þroskaheftra mun á næstunni úthluta og skipta fé Framkvæmdasjóðs og því er þessi breyting nauðsynleg.

Það er og brtt. sem ég og Salome Þorkelsdóttir flytum við þetta frv., en hún er svo hljóðandi:

„Á eftir 1. gr. frv. komi ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:

Við a-lið 25. gr. laganna bætist:

Til viðbótar framlagi samkv. 1. málslið skal ríkissjóður leggja sjóðnum til a. m. k. 225 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1981. Skal sú fjárhæð hækka í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar miðað við árið 1980 að grunni.“

Tilefnið að þessari brtt. er augljóst. Við flm. teljum að þegar lögin um aðstoð við þroskahefta voru samþ. á s.1. vori hafi átt að gera ráð fyrir því, að sjálfseignarstofnanir fengju fé annars staðar eða beint á fjárlögum, en ekki úr Framkvæmdasjóði. Félmn. Nd. gerði tillögur til fjárveitingavaldsins um að Styrktarsjóður vangefinna yrði áfram á fjárlögum með 210 millj. og styrkur til fatlaðra yrði 15 millj. kr. Við meðferð fjárlaga um daginn voru þessi framlög felld niður og verksvið þeirra færð undir Framkvæmdasjóð án þess að aukið framlag fengist til sjóðsins. Brtt. í þá veru, að áður nefnd framlög væru áfram á fjárlögum, var felld við afgreiðslu fjárlaga. Það er því ljóst að Framkvæmdasjóður var þar með skertur verulega frá því að Alþ. samþykkti hann í vor.

Við teljum nauðsynlegt vegna komandi tíma að tryggja sjóðnum aukið fjármagn. Mér er tjáð að nú þegar hafi borist beiðnir um nærri 2 milljarða í úthlutun á þessu ári, en til ráðstöfunar eru 1060 millj. Því flytjum við þessa tillögu.