13.05.1980
Efri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

181. mál, Iðnþróunarsjóður

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur athugað það mál sem hér er til umr. og skilað nál. á þskj. 500. Þar kemur fram að n. mælir með því að frv. þetta sé samþ. Hér er ekki um ágreiningsmál að ræða.

Þess skal getið að á einn fund n., þar sem fjallað var um frv., komu forsvarsmenn helstu iðnaðarsamtaka í landinu, svo sem frá Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna, og auk þess menn frá Iðnlánasjóði og Iðnþróunarsjóði sjálfum. Af hálfu allra aðila var lögð áhersla á að mál þetta fengi afgreiðslu á þessu þingi.

Hér er um að ræða staðfestingu á samningi sem gerður var 29. apríl s.1. um breytingar á Iðnþróunarsjóðnum, en Iðnþróunarsjóðurinn var, eins og kunnugt er, á sínum tíma stofnaður með aðild allra Norðurlandanna til að gegna sérstöku veigamiklu hlutverki í íslenskum iðnaði. Eins og reglur sjóðsins eru núna er gert ráð fyrir að sjóðurinn taki fé það, sem hann veitir í lánum, af stofnfé sínu og tekjum og að lánveitingar skuli ákveðnar í samræmi við viðurkennd bankaleg og efnahagsleg sjónarmið. Það er gert ráð fyrir að sjóðurinn stefni að því að tryggja eðlilega ávöxtun stofnfjárins og forðast ónauðsynlega áhættu.

Þá er gert ráð fyrir að í sérstökum tilvikum sé heimilt að veita lán með sérlega hagstæðum kjörum eða framlögum, m. a. til tækniaðstoðar, rannsókna og markaðsathugana, en slík lán eða framlög mega samtals ekki nema meira en 10% af stofnfé.

Í því frv., sem hér er til umr., felst sú breyting, að sjóðurinn fær heimild til lántöku til að fjármagna almenna lánastarfsemi og til þess að veita í sérstökum tilvikum lán eða framlög til viðbótar við 10% af stofnfé sjóðsins, einnig 10% af eigin fé miðað við ársbyrjun 1980, auk 10% af rekstrarafgangi hvers árs, í fyrsta skipti af rekstrarafgangi ársins 1980.

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 1. umr. var það ítarlega skýrt í hv. d. Ég hef hér drepið á meginatriði frv. og sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það.