13.05.1980
Efri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. þetta og hefur í nál. á þskj. 501 lagt til að frv. verði samþ. Einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að fylgja eða flytja brtt.

Hér er um að ræða ákaflega þýðingarmikið mál fyrir íslenskan iðnað, þar sem er Iðnrekstrarsjóður. Ég ætla ekki hér að fara að ræða almennt um gildi þessa sjóðs eða þýðingu, því að þá þyrfti ég að halda ræðu um íslenskan iðnað, ástand hans og horfur og gildi hans fyrir framtíðarþróun atvinnulífs á Íslandi. Við 1. umr. þessa máls var af hæstv. iðnrh. gerð ítarleg grein fyrir þessu frv. og einnig komu þá fram gagnlegar ábendingar frá hv. 3. þm. Norðurl. e.

Það kemur öllum saman um að það varði miklu að þetta frv, nái fram að ganga á þessu þingi. Ég vil láta þess getið, að á einn fund iðnn., þar sem mál þetta var tekið til meðferðar, voru boðaðir forsvarsmenn fyrir Félag ísl. iðnrekenda, Iðnþróunarsjóð, Landssamband iðnaðarmanna, Samband ísl. samvinnufélaga og Iðnlánasjóð.

Fulltrúar frá öllum þessum aðilum komu á fundinn. Einnig voru boðaðir á fundinn fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Landssambandi iðnverkafólks, en þaðan komu ekki fulltrúar á þennan fund n. Ég hygg þó að það breyti engu um það sem ég ætlaði hér að leggja áherslu á og skýra frá, að allir fulltrúarnir, sem komu á fundinn, lögðu sérstaka áherslu á að þetta mál næði fram að ganga á þessu þingi, frv. yrði samþ. fyrir þinglok þó að skammur tími væri til stefnu.

Efni þessa frv. er ekki í neinum aðalatriðum ágreiningsefni og það lögðu fulltrúar þeirra samtaka, sem ég hef hér getið um, áherslu á. En það hafa komið fram samt hugmyndir og tillögur um að haga skipan stjórnar Iðnrekstrarsjóðs á annan veg en frv. gerir ráð fyrir.

Í fyrsta lagi mun það sjónarmið hafa komið fram við undirbúning málsins, að ekki væri rétt að fjölga í stjórn sjóðsins frá því sem verið hefur. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að stjórnina skipi sjö menn, en fimm skipa hana samkv. gildandi lögum. Með frv. er gert ráð fyrir að það komi tveir fulltrúar í viðbót, frá Landssambandi iðnverkafólks og frá Sambandi ísl. samvinnufélaga.

Það er sjálfsagt álitamál hvort réttara sé að hafa fimm eða sjö menn í stjórn sjóðsins, en n. gerir ekki tillögur eða einstakir nm. um breytingu á tölu stjórnarmanna.

Hins vegar höfum við hv. 11. landsk. þm. borið fram till. um að það verði sú breyting á skipan stjórnarinnar, að í staðinn fyrir að þar verði einn fulltrúi frá Sambandi ísl. samvinnufélaga komi að þar verði einn fulltrúi frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Þessi till. er byggð á því sjónarmiði, að ekki sé eðlilegt að í stjórn Iðnrekstrarsjóðs sé fulltrúi frá einu ákveðnu fyrirtæki. Það kynni að vekja tortryggni annarra fyrirtækja sem þurfa að leita til sjóðsins og m. a. kynna nýjungar sem þau fyrirtæki telja ekki æskilegt að samkeppnisfyrirtæki séu með nefið ofan í. Þessu sjónarmiði var lýst á fundi iðnn., en jafnframt tekið fram að það væru engar sakir í þessu efni bornar á Samband ísl. samvinnufélaga. — Við, sem berum fram brtt. varðandi þetta efni, teljum, að það sé ekki óeðlilegt að fylgt sé þeirri reglu að einstök félög eigi ekki fulltrúa í stjórn sjóðsins, og höfum því látið okkur detta í hug að hægt væri að samræma þetta sjónarmið skoðun þeirra sem leggja áherslu á að Samband ísl. samvinnufélaga sé aðili að stjórn sjóðsins. Með það í huga er lagt til að í staðinn fyrir fulltrúa frá Sambandi ísl. samvinnufélaga komi fulltrúi frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna í stjórn sjóðsins.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á einu atriði, að í grg. með frv. um Iðnrekstrarsjóð felst sú breyting að þar er ekki gert ráð fyrir neinu beinu ríkisframlagi til Iðnlánasjóðs, eins og er samkv. núgildandi lögum, en samkv. fjárlögum á framlag að vera 300 millj. kr. á ári. Það mun ekki vera neinn ágreiningur um það meðal forsvarsmanna iðnaðarins að þetta spor sé stigið í rétta átt, en bent er á að þá verði að ganga út frá því að sama regla gildi um ýmsa aðra sjóði atvinnuveganna, að þeir njóti ekki heldur beins framlags úr ríkissjóði. Það er af ýmsum lögð sérstök áhersla á að Iðnlánasjóði verði heimilað að afla fjármagns erlendis og á innlendum markaði til starfsemi sinnar milliliðalaust, og menn leggja áherslu á þetta sjónarmið um leið og Iðnlánasjóðinn á að skerða með því að taka af framlag ríkissjóðs. Ef þessa er gætt hygg ég að það sé almennt samþykki fyrir þeirri stefnu sem fram kemur að þessu leyti í frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrði frekar um þetta mál á þessu stigi, nema að gefnu tilefni.