13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

94. mál, sjómannalög

Frsm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 468 er brtt. frá samgn. Nd. við frv. til l. um breyt. á sjómannalögum nr. 67 frá 31. des. 1963, sbr. lög nr. 53 frá 20. maí 1969. Í nál. með þessari brtt. segir að n. hafi rætt málið á átta fundum og leitað álits hagsmunaaðila. Sex nm. leggja til að frv. verði samþ. með brtt., sem flutt er á sérstöku þskj. og þegar hefur verið getið. Valdimar Indriðason var ósamþykkur afgreiðslu n. og skrifar ekki undir nál., en hefur ekki aðstöðu til að gera grein fyrir afstöðu sinni þar eð hann hverfur nú af þingi. Steinþór Gestsson skrifar undir með fyrirvara. — Það skal strax tekið fram, að hér liggur nú frammi brtt. frá hv. þm. Steinþóri Gestssyni sem hann mun væntanlega gera grein fyrir.

Hér er á ferðinni mjög flókið og viðámikið mál. N. leitaði umsagnar Landssambands ísl. útvegsmanna, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaga, sem komu fram fyrir hönd Skipadeildar SÍS annars vegar og Eimskipafélags Íslands og annarra farskipafélaga hins vegar. Einnig bárust umsagnir frá Sjómannasambandi Íslands. Fulltrúi Alþýðusambands Íslands sat fund n. og leitað var umsagnar sérfræðings í tryggingamálum, svo að nokkuð sé nefnt af því sem n. gerði til þess að komast til botns í þessu erfiða máli.

Það verður að segjast eins og er, að lögð var höfuðáhersla á að ná samkomulagi í n. um frv. þetta. Það tókst á endanum, þó með þeim undantekningum sem ég hef hér nefnt.

Ég hét Valdimar Indriðasyni því, að ég mundi gera nokkra grein í framsögu minni fyrir nál. og brtt. fyrir áliti hans á þessu máli. Hann var þeirrar skoðunar, að frv. hefði átt að samþykkja óbreytt eins og það var lagt fram á þinginu, en á tímabili hefði hann getað fellt sig við nokkrar minni háttar brtt. sem fram komu. Hann taldi að í brtt. samgn. væri gengið of langt til móts við kröfur Sjómannasambands Íslands og þar með hefði sjómönnum verið tryggð betri kjör en landverkafólki. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í álit hans á þessu, en mér ber skylda til að geta þess, að Landssamband ísl. útvegsmanna hefur, eftir að brtt. voru lagðar fram á þingi, mótmælt þeim mjög harðlega og látið að því liggja að það kynni að torvelda mjög þá kjarasamninga sem fram undan eru við sjómenn ef till. næðu fram að ganga eins og þær eru í brtt. frá samgn.

Það et rétt að fara nokkrum orðum um aðdraganda þess frv. sem hér liggur fyrir.

Eins og hv. þm. rekur vafalaust minni til var ákveðið með lögum í nóv. 1978 að draga úr hækkun verðbóta á laun frá 1. des. 1978 með sérstökum aðgerðum, einkum á sviði verðlags- og félagsmála. Samráð var haft um þessar aðgerðir við heildarsamtök launafólks, m. a. um að 3% lækkun verðbóta skyldi mætt með úrbótum í félagslegum réttindamálum. Af hálfu sjómannasamtakanna var samþ. ályktun eða kröfugerð á kjaramálaráðstefnu, sem haldin var dagana 8. og 9. des. 1978, og efni þetta kynnt forsrh. á gamlársdag það ár. Málið mun síðan hafa verið tekið fyrir á fundi í ríkisstj. 4. jan. 1979 og þá samþ. að hlutaðeigandi fagráðuneyti skyldi vinna að athugun og framkvæmd einstakra þátta þess. Kröfugerð sjómanna var ákaflega margþætt og málsþættir mjög misjafnlega vaxnir. Það féll í hlut þáv. samgrh., Magnúsar H. Magnússonar, að fjalla um þessi mál, og það var fyrir hans forgöngu að frv. þessa efnis var samið.

Þess ber að geta, að sum atriði í þessu frv. eru eða voru ágreiningslaus og tiltölulega kostnaðarlítil framkvæmdaatriði, önnur voru útgjaldasöm fyrir ríkissjóð og nokkur vörðuðu gömul ágreinings- og deiluefni útvegsmanna og sjómanna, þ. e. sá þáttur sem vék að kjaramálum sjómanna áður en þetta frv. kom fram.

Það er ástæðulaust að rekja þá þætti félagsmálapakka sjómanna sem þegar eru orðnir að lögum og þeir hafa fengið, en það atriði í brtt., sem kannske á eftir að valda mestum deilum, er sú regla sem þar er og kemur fram í 3. gr. frv. og ég mun koma að síðar. Þetta er svokölluð staðgengisregla.

Ég mun ekki hirða um að hafa langt mál um aðdragandann að þessu frv., enda er það fremur í verkahring hæstv. ráðh., sem um þetta mál fjallar, að gera grein fyrir því, hverju sjómannasamtökunum hefur verið lofað og hvernig sá þáttur snýr að útgerðarmönnum. En ég vil geta þess, að samgn. Nd. gerir þær helstar breytingar á frv. að í 2. mgr. er felld úr síðasta setningin þar sem segir: „Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrirfram.“

Þessari niðurfellingu hefur verið mjög harðlega mótmælt af LÍÚ og bent á frá þeirri hlið að hún kunni að valda því að útgerðarmenn verði að gera sérstaka ráðningarsamninga við sjómenn hverju sinni, fyrir hvert einasta tímabil sem þeir eru ráðnir á skip. Sjómannasamband Íslands gerði hins vegar kröfu um að þetta atriði yrði fellt niður úr frv. Ég verð að segja það persónulega, að ég er ekki mjög skilningsríkur á þá kröfu og hefði talið að þessi setning ætti að vera í lögunum. Um það náðist ekki samkomulag og þar við sat.

Þá vil ég víkja að 3. mgr. frv., þar sem gerð er mjög umtalsverð breyting. Um miðja 3. mgr. er talað um raunveruleg misskipti yfirmanna og undirmanna á skipum, þ. e. að samkv. staðgengisreglunni eiga yfirmenn, sem eru launahærri menn en undirmennirnir, að njóta tveggja mánaða samkv. staðgengisreglunni á meðan undirmennirnir fá ekki nema einn mánuð. Þetta tel ég vera atriði sem þarf að leiðrétta í frv., enda voru flestir nm. sammála um að strika út þá setningu þar sem segir: „ef um er að ræða stýrimann, vélstjóra, bryta eða loftskeytamann, en einn mánuð, ef skipverji gegnir annarri stöðu á skipinu.“

Með því að strika þessa setningu út gilda sömu reglur um undirmenn og yfirmenn og þar er ekki farið í neitt manngreinarálit. Ég tel eðlilegt að nokkur launamismunur sé á undir- og yfirmönnum, en þegar kemur að tryggingaþáttum, þar sem allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum, tekur það ekki nokkru tali að mínu mati að yfirmenn njóti betri kjara en undirmenn á skipum. Það kann svo að vera ágreiningsatriði hvort þarna ætti að vera einn eða tveir mánuðir. Það skal játað að með breytingunni og brtt., eins og hún liggur nú fyrir, fá sjómenn mánuði lengra veikindafrí en landverkafólk. Það felst m. a. í staðgengisreglunni, sem er kannske eitthver mestu mistök sem orðið hafa í samningagerð hér á landi, þar sem sjómenn njóta fulls hlutar þó að þeir séu veikir í landi, sem m. a. kemur fram í því að togaraskipstjóri á Vestfjörðum eða hvar sem er fær fullan hlut þó að veikur sé í landi og þar með verður útgerðin að borga tvöfaldan launakostnað. Þetta getur náttúrlega komið afskaplega illa við ef um er að ræða rækjubát sem á eru tveir menn. Þessi regla getur riðið útgerðinni að fullu. Þessi breyting hefur verið gerð, en ósk Sjómannasambands Íslands um að tvær síðustu setningar 3. mgr. yrðu felldar niður var ekki tekin til greina.

Þá er í 4. mgr. breytt orðunum „þrjú ár“ síðast í fyrstu setningu í: tvö ár, og í síðustu setningu: „fimm ár“ í: fjögur ár. Þarna er stytt það tímabil sem sjómenn þurfa að vinna til að njóta þeirra kjara sem þessi lög eiga að tryggja þeim. Þetta jafngildir því að sjómaður, sem búinn er að vera í fjögurra ára starfi, á rétt á sjö mánaða veikindafríi.

Í 5. mgr. er fellt niður orð. Í fyrstu línu stendur aftast: „á beinni leið“ Orðið „beinni“ er fellt út. Þetta orð er hálfgerður hortittur í frv. og þjónar þar engum tilgangi.

6. mgr. frv. er í brtt. felld niður. Þetta er gert samkv. ósk Sjómannasambands Íslands. Persónulega var mér nokkur ami að því að fella þá grein niður, en get fallist á þær röksemdafærslur sem hafðar hafa verið í frammi um að hún sé ekki réttlætanleg í frv.

7. mgr. er óbreytt eins og í frv., en 8. mgr. er breytt til samræmis við lög um landverkafólk. Tel ég það mjög eðlilegt vegna þess að þar er um samræmingaratriði að ræða, en ekki annað.

Að öðru leyti hefur n. ekki gert breytingar á lögunum fram yfir það sem ég hef nú talið upp. Ég legg áherslu á að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, eins og sjómönnum hefur margoft verið lofað, en þeir ávallt verið sviknir um. Ég vil geta þess, að slysatíðni er óvenjulega mikil í þessari atvinnugrein og því er mjög mikils virði að öll tryggingamál sjómannastéttarinnar séu í góðu horfi. Slysatíðnin er þó samkv. skýrslum meiri hjá undirmönnum. Það er m. a. af þeirri ástæðu að n. þótti eðlilegt að gera ekkert úr þeim mun sem gerður hefur verið á undir- og yfirmönnum í samningum á undanförnum árum. Athuganir, sem voru gerðar á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, benda til þess, að þótt aðeins 8% starfandi manna stundi sjómennsku verði þeir fyrir um 20% allra vinnuslysa. Auk þess er talið að 80% þeirra sjómanna, sem slasast við vinnu sína, séu undirmenn. Það er því sannarlega tímabært að löggjafinn láti þetta mál til sín taka og tryggi réttindi sjómanna í veikindum og slysum þannig að þjóðinni sé ekki vansi að.

Þótt meginefni þessa frv. og tilgangur þess sé að bæta réttarstöðu sjómanna í slysa- og veikindatilfellum til jafns við slík réttindi landverkafólks er þar þó tekið á ýmsum málum öðrum, þar sem úrbóta var talin þörf, og þar byggt nokkuð jöfnum höndum á ábendingum samtaka sjómanna og útvegsmanna.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa orð mín fleiri um þetta mál, en vil endurtaka það, að sex nm. voru sammála um þá brtt. sem hér er til umr., einn með fyrirvara, sem flutt hefur brtt., og einn nm. skrifaði ekki undir álitið.