14.05.1980
Efri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

67. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þetta frv., sem hér er til umr. og hefur nú farið í gegnum Nd. Mig langar til þess að lesa upp 1. gr. frv., en hún hljóðar þannig:

„Nú telur sveitarstjórn í kauptúni með færri en 1000 íbúa nauðsyn bera til að setja reglugerð um búfjárhald í kauptúninu og skal henni það þá heimilt með samþykki ráðherra.“

Síðan koma athugasemdirnar, herra forseti, við þetta lagafrv., en þar stendur:

„Þegar svo háttar til í sveitarfélagi að engar jarðir eru í ábúð, en allt búfjárhald er á vegum íbúa í kauptúni, þykir rétt, ef sveitarstjórn telur nauðsyn bera til, að veita henni heimild til að setja reglugerð um búfjárhald í sveitarfélaginu þótt íbúar þess séu færri en 1000 að tölu.“

Það, sem ég hef einkum um þessar athugasemdir að ræða, er það, að samkv. aths. er gert ráð fyrir að slík reglugerð verði ekki sett nema allt búfjárhald í sveitarfélaginu sé á vegum íbúa í kauptúninu eða þéttbýliskjarnanum. Ég tel eðlilegt að um geti verið að ræða setningu reglugerðar, enda þótt einhverjar jarðir innan sveitarfélagsins séu í ábúð. Ég tel það mjög eðlilegt. Við vitum að það geta komið upp margvísleg óþægindi sakir búfjárhalds manna sem eru búsettir í þéttbýliskjarnanum, þannig að mér finnst aths. eða lögskýringin við frv. þrengja það. Ég vil a. m. k. leggja þann skilning í þetta, að það sé eðlilegt að sett sé reglugerð varðandi kauptún sem eru með innan við 1000 íbúa, enda þótt einhverjar jarðir séu í ábúð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég tel þörf á því að slík heimild sem þessi verði veitt.