14.05.1980
Efri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er með nokkrum eindæmum hvað þetta mál hefur þvælst lengi fyrir hv. heilbr.- og trn. og við verið lengi að komast að niðurstöðu. En sannleikurinn er sá, að málið allt svífur í nokkuð lausu lofti. Þrátt fyrir allar þær upplýsingar, sem við höfum nú fengið um málið og gera það að verkum að ég stend ekki gegn þessu frv., heldur mun sitja hjá við afgreiðslu þess, — þrátt fyrir allar þær upplýsingar, sem við höfum fengið, og miðað við samtöl mín við þá ráðh. sem koma nálægt þessu máli, bæði menntmrh. og heilbr.- og trmrh., þá held ég að það hefði ekki sakað að skoða málið til hausts og íhuga það örlítið betur. Og þó ég hafi fulla og óskoraða samúð með þeirri stétt sem þarna er að reyna að ná fram betri réttarstöðu, þá er ég ekki alveg nógu sannfærður um það enn í dag að réttarstaða hennar batni svo mjög við þetta. Hér er um dýrselda þjónustu að ræða, og við skulum vona að tannsmiðirnir nái sínum hlut úr þessari dýrt seldu þjónustu betur en þeir hafa gert eftir að þessi breyting hefur náð fram að ganga. Í raun og veru er það kannske meginmálið í þessu öllu saman, þó að það sé e. t. v. heldur ljótt að segja það, að menntunarmál tannsmiða verða í nokkurri óvissu og í lausu lofti næstu 3–4 ár. Á þeim verður engin grundvallarbreyting næstu 3–4 ár, það er upplýst. Hins vegar vilja þeir halda því fram, og það vil ég ekki draga í efa, að með samþykkt frv. komist meiri skriður á það að menntunarmál þeirra komist í æskilegt horf. Kannske geta þá árin orðið tvö í staðinn fyrir þrjú eða fjögur. Það kann vel að vera.

En þegar mál svífa svo í lausu lofti sem mér finnst þau gera í sambandi við menntunarþáttinn í þessu efni, þrátt fyrir allar upplýsingarnar, treysti ég mér ekki til að greiða þessu atkvæði. Ég hefði viljað fá skýrari yfirlýsingar og betri um það, að þetta yrði þá hreinlega gert, að það stæði þá beint fyrir dyrum að gera þessa menntunarbreytingu, að við ættum að gera þetta til þess að hún næði fram að ganga á næsta hausti, eins og okkur skildist í fyrstunni að vera ætti, — eða þá a. m. k. ekki síðar en á haustinu 1981 — og þar með kæmust þeir inn í iðnfræðsluna. En nú er það ekki. Nú verður það ekki, því miður. Það er alveg ljóst og upplýst meira að segja af þeim sem þarna standa næstir. Hins vegar skil ég vel peningalega hlið málsins, hagsmunalega og kjaralega hlið málsins skulum við segja, svo við notum ekki eins ljót orð. Og við skulum vænta þess, að þegar hv. þd. hefur samþ. þetta frv. og það er orðið að lögum verði kjaraleg aðstaða tannsmiða betri. En menntunarleg aðstaða þeirra breytist ekki næstu 3–4 árin til batnaðar, því miður. En það getur vel verið að það herði á því að svo verði.