14.05.1980
Efri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem komið hefur fram hjá tveimur síðustu ræðumönnum, að það urðu allmiklar umr. um þetta frv. Eins og kom fram rann það í gegnum Nd. Það verður að segjast eins og er, að ég varð svolítið hugsi yfir þessu fyrsta kastið og fram eftir umr. í heilbr.- og trn. þessarar hv. d. En eins og fram hefur komið er þetta frv. að sjálfsögðu flutt til að taka af öll tvímæli um það, að tannsmíði teljist iðngrein, og jafnframt til að treysta réttarstöðu tannsmiða.

Eins og væntanlega hefur komið fram er í smíðum námsskrá vegna tannsmíði. Það hefur líka verið upplýst að tannsmíði er í öllum nálægum löndum iðngrein og starfrækt sem slík. Það hefur enn fremur komið fram ótti um að tannsmiðir mundu e. t. v. fara yfir á verksvið tannlækna. Þetta er á misskilningi byggt, enda væri það gjörsamlega óheimilt samkv. lögum um tannlækningar. Það kemur aldrei til þess, að tannsmiðir fari að fara upp í sjúklinga. Þeir taka við málum. Það eru tannlæknarnir sem taka mál og tannsmiðirnir fara eftir þeim. En það, sem vafðist mest fyrir mér persónulega og ég hygg fleiri nm., var einmitt það, hvort þeir hagsmunaaðilar, sem þarna um ræðir, þ. e. tannsmiðirnir sem og þeir sem eru í námi, yrðu skildir eftir í einhverri óvissu meðan þessi breyting gengi yfir. Og ég segi það fyrir mitt leyti, að miðað við þær upplýsingar, sem nú hafa komið fram í þessu máli, er mitt mat að svo sé ekki. Í trausti þess, að það sé rétt sem hagsmunaaðilar hafa sett fram, bæði í rituðu og mæltu máli varðandi þetta, vil ég greiða með þessari breytingu og vil trúa því að þetta sé spor fram á við.