14.05.1980
Efri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Frsm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi einmitt komið fram í n. á síðasta fundi í morgun, að þessi mál munu ekki svífa í lausu lofti ef þessi breyting verður gerð. Við höfðum, eins og hv. 3. þm. Vesturl. minntist á, áhyggjur af því að þeir, sem nú eru við nám, yrðu afskiptir. Það gæti reyndar farið svo, að tannlæknar segðu þeim upp námi. En við höfum fengið staðfestingu á því, að skriflegan námssamning hafa þeir, þannig að því verður ekki rift. Tannlæknar þurfa á tannsmiðum að halda. Því held ég að staða tannsmiða sé tryggð að því leyti til að ekki verði efnt til ófriðar milli þessara aðila. Nú eru starfandi 20 meistarar í tannsmíði og 60–80 sveinar. 60–100 segja þeir, — það er nú ekki nákvæmara en það.

Varðandi námið skal segja, að ef þetta verður að lögum munu nemar verða teknir af tannsmíðameisturum og einnig af þeim tannlæknum sem þegar hafa réttindi. Hins vegar munu nýir tannlæknar ekki hafa eða fá þessi tannsmíðaréttindi og meistararéttindi. Ég held því að alveg sé séð fyrir því að þeir, sem nú eru við nám, muni njóta þess öryggis sem þeim er nauðsynlegt til að geta haldið áfram námi.

En aðalbreytingin er sú, að með samþykkt þessa frv. verða tannsmiðir óháðari tannlæknum kjaralega. Verður það að teljast eðlilegt nú á tímum að nemar og þeir aðrir, sem við þetta starfa, séu ekki eins háðir öðrum og verið hefur.