14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2644 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það kom fram hjá frsm. félmn. áðan, hv. 5. þm. Norðurl. e., að n. hefði lagt mikla vinnu í umfjöllun frv. og að margir fundir og langir hefðu verið haldnir. Þetta er alveg rétt. T. d. vorum við s. l. laugardag á fundi frá kl. átta að morgni til kl. að verða sjö um kvöldið. Það mætti segja mér að störf nefnda þingsins brjóti um þessar mundir illilega í bága við frv. um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, sem hv. Ed. hefur afgreitt nýlega til hv. Nd. eftir svipaða umfjöllun í félmn. og húsnæðismálafrv. hefur fengið. Þau eru nefnilega svipuð að vöxtum þessi tvö frv., og ekki get ég neitað því, að mín tilfinning er sú, að tækist að stytta þetta frv. um Húsnæðismálastofnunina um t. d. helming og gera það aðgengilegra með þeim hætti væri það til mikilla bóta.

Margt í þessu frv. er þess eðlis, að það á frekar heima í reglugerð en lögum, og reyndi n. að lagfæra það nokkuð og einnig ganga brtt. í þá átt. Mín trú er sú, að því færri orð sem höfð eru þegar samin eru lög, því skýrari geti þau orðið og aðgengilegri. Ég held að gæði laga fari ekki alltaf eftir fjölda þeirra orða sem í þau er raðað.

Þar sem hv. 4. þm. Vestf. hefur í ræðu sinni hér á undan gert sjónarmiðum okkar sjálfstæðismanna í félmn. ítarleg skil ætla ég ekki að ræða frekar einstök atriði frv. eða brtt. okkar við það. Ég vil hins vegar árétta grundvallarstefnu okkar sjálfstæðismanna í þessum málum. Hún er skýr. Við viljum að sérhverri fjölskyldu verði gert kleift að eignast og búa í eigin húsnæði og með því að stuðla að frjálsu forræði eigin íbúða. Í þessu skyni viljum við leggja áherslu á að lán til íbúða verði það há prósenta af kostnaðarverði staðalíbúðar og lánstíminn það langur að viðráðanlegur sé fyrir sem flesta. Í þessu skyni höfum við lagt till. okkar um auknar tekjur til sjóðsins, þ. e. að launaskatturinn renni óskertur til þeirra verkefna sem honum voru ætluð í upphafi, og um lengingu lánstíma.

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er það staðreynd, að við Íslendingar erum fyrst og fremst einstaklingshyggjumenn og viljum fá að ráða sem mest lífi okkar, einnig í húsbyggingarmálum, án óþarfrar íhlutunar hins opinbera. Ég held að það sé mikill misskilningur að vilji almennings í landinu sé að t. d. þriðja hver íbúð skuli byggð af félagslegum ástæðum, eins og stefnt er nú að. Finnst mér sú hugsun stangast á við það að vilja tryggja sem flestum mannsæmandi kjör. Þetta segir aðeins að þriðja hver fjölskylda í landinu skuli búa við svo kröpp kjör, vera láglaunahópur, að hún þurfi aðstoðar hins opinbera við til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Stefna okkar er að tryggja beri að þeir, sem vilja og geta eignast þak yfir höfuðið, hafi tækifæri til þess með hagstæðum lánum og lánakjörum. Hins vegar viljum við tryggja hinum húsnæði, sem ekki hafa til þess möguleika, t. d. af félagslegum ástæðum, sem geta verið margvíslegar, með því að stuðla að byggingu verkamannabústaða og leiguíbúða. Við leggjum til að lánstími vegna þessara lána verði áfram 42 ár, en ekki stytt í 30 ár, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það getur ekki komið heim og saman við markmiðið að létta sem mest undir með því fólki, sem þarf á þessari fyrirgreiðslu að halda, að stytta lánstímann, þar sem hér er verið að fjalla um láglaunafólkið í þjóðfélaginu sem allir eru sammála um að hafi þörf fyrir þessa sérstöku fyrirgreiðslu.

Þannig er ástandið í þessum málum að fjölskyldur stefna oft heilsu sinni, bæði líkamlegri og andlegri, í voða vegna þess álags sem fylgir því að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Því miður er ekki sú stefna ríkjandi nú að auka rauntekjur manna miðað við þær auknu skattaálögur sem yfir þjóðina hafa dunið, en hér er þó tækifæri til að bæta úr í málum húsbyggjenda með því að bæta lánamöguleikana og lánakjörin.