14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þær ræður, sem hafa verið haldnar hér að undanförnu af hv. stjórnarandstæðingum, eru um margt ákaflega athyglisverðar og í rauninni kalla þær á mjög ítarlega umr. vegna þess að hér hefur verið haldið fram fullyrðingum sem krefjast þess að skoðaðar séu ögn nánar, en eru raunar í sumum tilvikum settar fram hér af meiri ósanngirni en oft og tíðum heyrist þegar menn eru að ræða um þau alvarlegu mál sem hér eru á ferðinni.

T. d. er því haldið fram af hv. stjórnarandstæðingum, að þær tillögur stjórnarliðsins, sem hér hafa verið lagðar fram, feli í sér í rauninni stórkostlega spillingu, stórkostleg „spjöll“, eins og hv. 2. þm. Reykn. orðaði það, á því frv. sem Magnús H. Magnússon lagði fram. Í hverju eru svo þessi stórkostlegu „spjöll“ fólgin sem hæstv. ríkisstj. leyfir sér að beita sér fyrir á þessu frv.? Spjöll ríkisstj. eru fólgin í því, að það er stóraukin áhersla á framkvæmdafé verkamannabústaðanna í landinu. Í stað þess, sem verið hefur á undanförnum árum, að byggðar hafa verið 90–100 íbúðir á ári fyrir láglaunafólk í verkamannabústaðakerfinu, — með þeim afleiðingum að umsækjendur eru 100–200 um 30 íbúðir, eins og er núna í Breiðholti þar sem Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hefur auglýst nokkrar íbúðir, — þá hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um að nota það fjármagn, sem til er innan þessa kerfis, til félagslega íbúðabyggingakerfisins til að reisa 500 íbúðir á ári.

Í því frv., sem hér lá fyrir og verið er að breyta, var ekki gert ráð fyrir þessari áherslu á verkamannabústaðakerfið. Auðvitað er ekki verið að pína niður kjör fólks. Auðvitað er ekki verið að leggja á það áherslu að fólk þurfi endilega að hafa „nægilega bág kjör“, eins og hv. 2. þm. Reykn. orðaði það áðan. Auðvitað þýðir aukinn fjöldi íbúða í verkamannabústöðunum að aukinn fjöldi fólks og þar með undir hærra tekjumarki kemst inn í þetta húsnæði en verið hefur. Þannig verða menn að skoða þetta af allri sanngirni.

Ég verð að segja eins og er, að út af fyrir sig kemur mér kannske ekki ýkjamikið á óvart margt af því sem hv. talsmenn Sjálfstfl. hafa sagt hér í kvöld. Hitt vekur athygli mína, að einn af leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar í landinu skuli leyfa sér að halda því fram, enda þótt fyrir liggi að hér sé verið að koma til móts við sjónarmið hennar í verulegum mæli, að hér sé ríkisstj. í rauninni að eyðileggja frv. Ég vísa þessum ásökunum algjörlega á bug og ég gæti rökstutt það í löngu og ítarlegu máli, en til þess er ekki kostur við þær aðstæður sem nú eru hér og mjög áliðið kvölds.

Herra forseti. Ég hyggst næst svara þeim fsp. sem til mín var beint, einkum af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni.

Þær fsp. snertu í fyrsta lagi 31. brtt. stuðningsmanna ríkisstj. á því þskj. sem hefur að geyma till. þeirra. Þar er rætt um 1% launaskatt sem renni til Byggingarsjóðs verkamanna. Ég hygg að hv. þm. hafi viljað inna mig eftir því, hvaða launaskattsprósent hér væri um að ræða, hvort hérna væri um að ræða viðbót eða hvaða launaskattsprósent hér væri á ferðinni, hvort þetta yrði tekið af Byggingasjóði ríkisins o. s. frv. Þetta launaskattsprósent, sem hér er um að ræða, er hið sama launaskattsprósent og vitnað er til í yfirlýsingu ríkisstj. sem lögð var fram í viðræðum við Alþýðusambandið og dagsett er 30. apríl 1980, en í þeirri yfirlýsingu segir að frá næstu áramótum skuli tekjur ríkissjóðs af 1% launaskatti renna óskertar til Byggingarsjóðs verkamanna.

Hér er m. ö. o. verið að fjalla um þann launaskatt sem þegar er á lagður, enda felst ekki í þessu frv. ákvörðun um viðbótarskattlagningu. Það er alveg ljóst. Ákvörðun um viðbótartekjuöflun í þetta húsnæðislánakerfi verður að eiga sér stað síðar. En ég legg á það áherslu, að hérna er ríkisstj. að standa við það fyrirheit sem gefið var fyrir mörgum árum, að þetta eina prósent sé notað í félagslegu íbúðabyggingarnar. Hér erum við að standa við fyrirheit gagnvart verkalýðshreyfingunni í landinu. Ég hygg að allir sanngjarnir menn, einkum og sér í lagi þeir sem þekkja til þess ástands sem er í húsnæðismálum láglaunafólks, viðurkenni að hér sé stigið þýðingarmikið skref.

Í annan stað spurði hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, um Byggingarsjóð verkamanna, framlag til hans á árinu 1980 og frv. til lánsfjárlaga og líklega 19. gr. þess frv. Einnig las hann upp bréf sem hann hafði komist höndum yfir frá félmrn. og ég hygg að hafi verið dreift á fundi í fjh.- og viðskn. af starfsmönnum Húsnæðismálastofnunar ríkisins.

Því er til að svara, að á þessu ári verður greitt vegna Byggingarsjóðs verkamanna eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum, eða 432.5 millj. kr. Frá þessu var gengið milli starfsmanna fjmrn. og Byggingarsjóðs verkamanna í dag, þannig að ljóst er að þessi upphæð verður greidd vegna ársins 1980 og þannig ganga málin væntanlega upp.

Hvað því viðvíkur hvernig með þau mál verður farið, sem vitnað er til í bréfi félmrn. frá fyrri tíma, verður það málefni rætt á milli félmrn. og fjmrn. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það nákvæmlega hvernig með það verður farið. En ég endurtek: Þessar upphæðir, 432.5 millj. kr., verða greiddar vegna ársins 1980 eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum.

Þá spyr hv. þm. væntanlega, því mér skildist að hann vildi inna mig eftir samhenginu á milli annars vegar ákvæðanna í brtt. stjórnarliðsins og hins vegar ákvæðanna í lánsfjárfrv. og fjárlögunum, hvernig það kæmi heim og saman. Þá er því til að svara, að gert er ráð fyrir að það launaskattsprósent, sem hér er um að ræða, renni óskert til Byggingarsjóðs verkamanna frá næstu áramótum. Það snertir því ekki fjárhag hans út af fyrir sig á árinu 1980, eins og þetta hefur verið sett upp. En með þessum hætti vek ég á því athygli, að framlög ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna yrðu á ársgrundvelli um 5000 millj. kr. í staðinn fyrir um 500 millj. kr. Hér eru sem sagt á ferðinni mjög veruleg fríðindi sem launafólkið í landinu hefur metið mikils á undanförnum árum.

Ég get ekki neitað því, að sumt af því, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði áðan, er þess eðlis að ég vildi gjarnan eiga við hann orðastað lengur um þau mál. Ég vil þó ekki þreyta hv. Ed. með umr. um það frekar að sinni. Ég vænti þess að við, ég og hv. þm., fáum tækifæri til að ræða um þau mál síðar á öðrum vettvangi.

Vafalaust er margt í þessu frv. ríkisstj. og þeim brtt. stuðningsmanna stjórnarinnar, sem hér hafa verið lagðar fram, sem mætti betur fara. Hér er um að ræða ákaflega víðtæka lagasetningu, en hér er um það að ræða að verið er að taka mjög þýðingarmiklar pólitískar ákvarðanir sem ríkisstj. leggur ákaflega þunga áherslu á. Og ég minni á að jafnvel þó að frv. sé samþykkt á Alþ. og mistök kunni að koma í ljós af einhverju tagi í minni háttar atriðum er hugsanlegt að laga slíkt þótt síðar verði. Alþingi Íslendinga stendur vafalaust lengur en eftir þann dag er við slítum því hugsanlega í næstu viku og við fengjum þá tækifæri til lagfæringa.

Hér er um að ræða þýðingarmiklar og víðtækar ákvarðanir, sem auðvitað kunna í einhverjum tilvikum að orka tvímælis. En við skulum viðurkenna það, hv. alþm., að ýmislegt af því, sem hér er verið að gera, hefur mjög verulega þýðingu til að gera húsnæðislánakerfið þannig að það komi til móts við það fólk sem mesta og knýjandi þörfina hefur fyrir stuðning. Það kemur ekki til móts við alla, það er alveg ljóst. Þeir, sem hafa besta heilsu og bestar tekjur, verða að reyna að klára sig sjálfir, eins og raunin hefur orðið á á undanförnum árum. En við erum að reyna að leggja á það áherslu að þeir, sem knappasta hafa stöðuna, fái sæmilega og betri afgreiðslu í þessu kerfi en verið hefur.

Ég vænti þess, að ég hafi svarað þeim fsp., sem til mín var beint af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, svo og öðrum fsp. sem hér komu fram.