14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að spyrja að því, hvort hugmyndin sé að ganga hér til atkv. um 80 eða 100 brtt., sem rétt nýlega eru fram komnar, og jafnvel að leita afbrigða fyrir 3. umr. Slíkt fyndist mér algjör ósvinna. Ég er náttúrlega ekki sérlega duglegur þm., en ég hef ekki nokkra möguleika til að gera mér grein fyrir því hvað er á ferðinni í sambandi við allar þessar brtt. Og það væri fyrir neðan allar hellur að ætla nú að fara að ganga til atkv. án þess að gefa mönnum lengra ráðrúm og sérstaklega þó ef ætti að reyna að leita afbrigða. Að vísu er nú svo eins og áður, að sjálfstæðismenn hér í deildinni hafa það á valdi sínu hvort mál yfirleitt ganga fram, vegna þess að stjórnarsinnar mæta yfirleitt ekki svo vel að við verðum ekki alltaf að hjálpa til.

Þar að auki sé ég ekki annað en hér sé verið að byggja upp eitt nýtt ofboðslegt bákn í þessu þjóðfélagi, þar sem þeim peningum, sem á að verja til að byggja íbúðir fyrir fátækt fólk, eigi t. d. að verja að verulegu leyti í sukkið, í uppbyggingu á kerfinu, mörg hundruð manna bitlingalýð, í staðinn fyrir að láta einn eða tvo menn anna því starfi sem þarna er um að ræða. Það gætu vel gert einn eða tveir menn. Við sjáum það. En það er annað mál. Ég spyr að því: Á að halda þannig á málum að knýja fram atkvgr. í kvöld og jafnvel að leita afbrigða? Ég óska svars forseta áður en ég fer héðan úr stólnum. (Forseti: Það er rétt. Ég tilkynnti það í dag að við mundum freista þess að greiða atkv. við 2. umr. um frv. Ég hef jafnframt ákveðið að gefa núna stutt fundarhlé til þess að menn megi átta sig öllu betur á afgreiðslu málsins en þeir hafa þegar gert í dag, meðan þessar till. hafa legið á borðinu. En 3. umr. fer ekki fram í kvöld.) Þá óska ég eftir að fá að halda ræðu minni áfram eftir það hlé sem nú verður gefið. (Forseti: Ég vil mælast til þess við hv. þm. að hann ljúki nú máli sínu, vegna þess að hléið átti að gefa eftir umr. Beðið var um það sérstaklega að hléið yrði gefið eftir umr. Það var óskað sérstaklega eftir því, að þegar öllum umr. væri lokið og öllum fsp. svarað fengist hið umbeðna hlé. Það er sem sagt ósk mín að hv. þm. ljúki frekar máli sínu fyrir þetta hlé, sakir þess að um hitt var beðið alveg sérstaklega.

Ég hef ekki fengið fyrr en núna nema athugasemd við það út af fyrir sig að við tækjum brtt. til atkvæða. Ég vil taka það skýrt fram, að ég hef ekki fengið neina athugasemd við að við tækjum þessar brtt. til atkv. í lok þessa fundar. En af því ég lofaði hinu, að þegar allar athugasemdir væru komnar fram og það kann vel að kalla á nýjar umr. og frekari athugasemdir, óska ég eftir því hv. ræðumann að hann ljúki máli sínu fyrir þetta umbeðna hlé vegna þess að það var í því skyni um það beðið.) Eins og við vitum í þessari deild hefur verið hér betra samstarf en ég hef kynnst annars staðar — og var ég áður í Nd. — bæði í fyrravetur og í vetur. Það hefur verið fullkomlega gott samstarf á milli manna, og í stjórnarandstöðu hef ég einungis verið í þessari deild. Ég hygg að allir þeir, sem með mér hafa starfað, muni geta borið um það vitni að ég hafi fremur reynt að greiða fyrir málum stjórnarinnar en að hindra framkvæmd þeirra, og horfi ég þá sérstaklega á minn gamla formann í fjh.- og viðskn. í fyrra, en við störfuðum mikið saman og ég hygg að fáir stjórnarsinnar hafi lagt sig meira fram um að greiða fyrir málum en ég, stjórnarandstæðingurinn. Þess vegna finnst mér það ekki óeðlileg ósk af minni hálfu að ég fái tækifæri til þess og aðrir menn hér að kynna sér 80 eða 100 brtt. sem á að fara að greiða atkv. um. Finnst mér eðlilegt að við fáum tækifæri til að kynna okkur þær í nokkrar klst., þó ekki væri meira. Og ef ekki verður við þessari ósk orðið mun ég að sjálfsögðu tala hér svo lengi sem þörf krefur til þess að ekki verði af atkvgr. í kvöld. Það er ósköp einfalt mál. Ég skírskota til forseta enn og aftur: Er ekki eðlilegt að verða við sanngjarnri ósk um þetta? Ég spyr enn og aftur: Verður orðið við þeirri ósk að þessu máli verði ekki vísað til atkv. í kvöld? Ég spurði forseta að því síðdegis í dag, hvort atkvgr. yrði í kvöld. Hann sagðist halda að svo yrði ekki, a. m. k. alla vega ekki eftir miðnætti, en hugsanlega áður, og þess vegna mun ég tala fram yfir miðnætti núna úr þessum ræðustól ef á að knýja fram atkvgr. í kvöld.