14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá tækifæri til þess að ræða hér ákveðið mál utan dagskrár. Það hefur reyndar staðið til að gera það nú um nokkurt skeið og ég hafði orð á því að við þann hæstv. ráðh. sem ég átti vantalað við, ef svo má að orði komast, í síðustu viku, en þá gafst ekki færi til, og það er ekki fyrr en nú sem tækifæri er til þess að taka upp mál sem ég vil gjarnan gera hér að umtalsefni.

Eins og fram hefur komið í blöðum gerðist það fyrir stuttu að ákveðin var hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur og þrátt fyrir að beðið væri um 58% hækkun fékkst aðeins 10% hækkun, sem var tillaga gjaldskrárnefndar og kom þannig til ríkisstj. og ríkisstj. samþykkti tillögu gjaldskrárnefndar.

Það er ljóst, að allt frá árinu 1970 hefur verð á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur lækkað stöðugt miðað við almennt verðlag í landinu, og nú er svo komið að það er um 57% af því sem það var fyrir 10 árum. Á sama tíma hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið undir miklum framkvæmdum og stækkunum og þjónar nú fjórum nágrannasveitarfélögum. Til þess að ná þessum árangri í viðbót við stækkun á Reykjavíkursvæðinu var gripið til þess úrræðis að taka erlent lán til framkvæmda. En lántökur héldu áfram eftir að útvíkkun kerfisins til nágrannasveitarfélaganna átti sér stað eða allt til ársins 1978. Eftirstöðvar þessara lána eru nú um 5–6 milljarðar kr. og árlegar greiðslur afborgana og vaxta eru um 1200 millj. Ef eðlileg gjaldskrárhækkun hefði fengist á þessu framkvæmdatímabili, eins og óskað var eftir, væri búið að greiða þessi lán niður án þess að verð á heitu vatni væri hærra en það er í dag. Afborganir lána og vaxtagreiðslur eru nú nokkru lægri en fjárvöntun til framkvæmda. Þrátt fyrir erlend lán, sem tekin voru á síðasta áratug, hefur orðið að fresta ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum sem varða eðlilega þjónustu við viðskiptavinina.

Miðað við eðlilegan vöxt nemur stærð þeirra húsa, sem árlega eru tengd Hitaveitu Reykjavíkur, um 900 þús. rúmmetra. Þetta samsvarar allri byggð í Keflavík eða álíka og helmingi byggðar Akureyrar, svo að einhver samanburður sé nefndur. Þessi dæmi sýna glögglega hvað árlegar framkvæmdir eru umfangsmiklar hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Árlegur kostnaður við þessar framkvæmdir nemur um 3-4 millj. kr. og ber þar helst upp á síðkastið á framkvæmdum við Grafarholt, sem stefna að því að auka afl Hitaveitunnar til þess að mæta verstu kuldaköstum og auka þar með öryggi neytenda, svo og stækkun dreifikerfisins.

Á síðustu árum hefur orðið að skera niður nauðsynlegar framkvæmdir og er nú svo komið, að ekki má fresta lengur þeim verkum sem lagt er til að unnin verði, ef halda á því rekstraröryggi sem Hitaveitan hefur tryggt síðasta áratuginn. Það nálgast óðum sá tími sem Hitaveita Reykjavíkur getur ekki fullnægt hitunarþörf höfuðborgarsvæðisins. Að óbreyttu mun framboð á heitu vatni ekki fullnægja þörfum á komandi vetri. Það er þess vegna sem stjórn veitustofnana — en frá henni eru komnar þessar upplýsingar — telur að ekki komi til greina að taka erlend lán til að standa undir eðlilegri stækkun. Slíkt mun aðeins magna vandann á næstu árum, eins og ég sagði í upphafi máls míns.

Fyrst væri nú kannske rétt að átta sig á því, hvað hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hyggst gera í orkumálum og þá sérstaklega í þeim málum sem varða innlenda orkugjafa. Ég vil leyfa mér — ef leyfi forseta fæst — að lesa hérna örfáar setningar úr svokölluðum stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, en þar segir í kaflanum um verðlagsmál:

„Fyrir mánaðamótin maí–júní 1980 skulu afgreiddar sérstaklega hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana, sem nauðsynlegar kunna að teljast til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma, sem framangreind mörk setja.“

Það, sem hér er sagt, er að það eigi að renna úr svokölluðu uppistöðulóni, sem hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson kallaði svo, áður en til niðurtalningaraðferðarinnar verði gripið. Það verður þess vegna að skilja það svo — á meðan aðrar og betri skýringar fást ekki að sú hækkun, sem Hitaveita Reykjavíkur fékk á dögunum í síðustu viku í meðhöndlun ríkisstj., hafi verið byggð á þessum ummælum í stjórnarsáttmálanum og á öðrum sem ég vil líka gera hér grein fyrir.

Í kaflanum um fjárfestingarmál segir í tölul. 3: „Áhersla skal lögð á framkvæmdir á sviði orkumála.“ Og í kaflanum um orkumál segir orðrétt í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Sérstök áhersla verði lögð á aðgerðir í orkumálum, m. a. með það að markmiði, að innlendir orkugjafar komi sem fyrst í stað innfluttrar orku og að unnt verði með viðunandi öryggi að tryggja afhendingu orkunnar til notenda.“

Þarna er það greinilega sagt, að orkumálin eigi að hafa forgang og það eigi að ná borði fyrir báru í þessum efnum. Og það verður ekki annað skilið en hæstv. ríkisstj. telji að með 10% hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur hafi þeim markmiðum, sem eru í þessum stjórnarsáttmála, verið náð, enda skal það upplýst hér, sem öllum má ljóst vera, að í erindisbréfi gjaldskrárnefndar segir að hún eigi að starfa eins og gjaldskrárnefndir hafa starfað áður — þær hafa starfað tvær áður, allt frá árinu 1977 — og það eigi að taka tillit til þeirrar stefnu sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gjaldskrárnefnd er trúnaðarnefnd ríkisstj. Hún er sú nefnd sem ríkisstj. lætur fara yfir mál og samræma málin, og hún vinnur að öllu leyti á ábyrgð ríkisstj.

Það hefur komið í ljós í blöðum, að Hitaveita Reykjavíkur bað um 58% hækkun Iðnrn., sem er það fagráðuneyti sem tekur við till. Hitaveitunnar, sendi frá sér till. um að hækkunin yrði 40%. Gjaldskrárnefnd skar niður hækkunina í 10%. Málið fór fyrir ríkisstj. Iðnrn. bauð þá 20%, en ríkisstj. hafnaði því með öllu og við 10% sat. Þetta er í stuttu máli saga málsins. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki hvað hv. þm. — (Forseti: Það gerir ekkert til, það er ekki leyfilegt samtal.) En hann er vanur að gefa merkilegar yfirlýsingar svo að það er ástæða til þess að fá þær í þingtíðindin. (Gripið fram í.) Já, ég get upplýst það áður en hv. þm. fer út. — Það kemur að því fyrr eða síðar, að þetta gjald verða Reykvíkingar að borga með einum eða öðrum hætti, og það er um það sem þetta mál snýst. Það er spurning hvort við eigum að gera það núna eða hvort við eigum að gera það einhvern tíma síðar. Um það snýst málið og að því kem ég síðar.

Í Morgunblaðinu var fjallað um þessi mál og þar svaraði Georg Ólafsson, formaður gjaldskrárnefndar, fyrir gjaldskrárnefnd og sagði þá orðrétt, með leyfi forseta:

„Gjaldskrárnefnd byggði tillögu sína á þeim gögnum sem fyrirtækið lagði fram, auk þess sem tekið var mið af stefnumörkun ríkisstj. í verðlagsmálum á þessu ári. Nefndin telur að þótt varlega hafi verið farið í tillögugerð muni fyrirtækið hafa mun meira fjármagn til ráðstöfunar á þessu ári en það gefur í skyn í fjölmiðlum, og því lagði nefndin til að beiðni þess yrði skorin niður. Að öðru leyti tel ég það ekki vera í verkahring gjaldskrárnefndar að ræða þessi mál opinberlega, þar sem endanlegt ákvörðunarvald í þeim er í höndum ríkisstj., sagði verðlagsstjórinn að lokum.“

Hér segir formaður gjaldskrárnefndar beinlínis að farið hafi verið eftir einhverjum gögnum sem hann hafi undir höndum og séu önnur en þau sem Hitaveitan hefur lagt til grundvallar sinni tillögubeiðni. Síðan vísar hann á ríkisstj., og það er þess vegna sem ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár.

Hitaveitustjórinn í Reykjavík var síðan beðinn um að segja nokkur orð af þessu tilefni. Þá kemur það fram, að hann hefur ekki hugmynd um til hvaða gagna er þarna vitnað eða hvaða upplýsingar verðlagsstjóri hefur, sem eru aðrar en þær sem Hitaveitan veit um. — Og loks segir í Morgunblaðinu að leitað hafi verið til ýmissa ráðh., þ. á m. hæstv. ráðh. Hjörleifs Guttormssonar og Gunnars Thoroddsens, og þeir hafi báðir vísað á formann gjaldskrárnefndar og hæstv. ráðh. Tómas Árnason, en ekki hafi tekist að ná í viðskrh. Þetta mál var síðan lagt fyrir oddvita meiri hl. og minni hl. borgarstjórnarinnar í Reykjavík og Sigurjón Pétursson, forseti borgarstjórnar, sagði orðrétt í Morgunblaðinu daginn eftir að þessi frétt, sem ég vitnaði til áðan, birtist, með leyfi forseta:

„Þetta er náttúrlega allt of lítil hækkun miðað við þær framkvæmdaþarfir sem Hitaveitan hefur kynnt og nauðsynlegt er að ráðast í. Óneitanlega finnst mér þetta mjög óeðlilegt. Á sama tíma og rætt er um hve lágt verð Hitaveitu Reykjavíkur er miðað við aðra staði á landinu, þá er þessu verði haldið niðri umfram það sem eðlilegt er. Manni finnst það óneitanlega skjóta nokkuð skökku við.“ Siðar segir sami Sigurjón: „Og óneitanlega hlýtur það að draga úr áhuga Hitaveitunnar að dreifa vatni til annarra aðila, ef hætta er á því að staðið verði frammi fyrir vatnsskorti.“

Í sömu frétt er síðan viðtal við Birgi Ísl. Gunnarsson um þetta efni þar sem hann gerir grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Það er öllum ljóst, að Hitaveita Reykjavíkur býr við pólitískt verðlag. Vísitölufjölskyldan býr í Reykjavík og þess vegna er það svo, að ráðamenn í þessu þjóðfélagi reyna að draga úr hækkunum á Reykjavíkursvæðinu, en láta sig minna varða þær hækkanir sem verða á sams konar vöruverði eða þjónustu á öðrum svæðum á landinu. Það er óneitanlega einkennilegt að hlusta á hæstv. ráðh. ríkisstj. koma fram í opinberum fjölmiðli og afsaka það og réttlæta, að hækkun á framfærsluvísitölunni sé miklu meiri en ráð var fyrir gert, og nefna það eitt sem rök í málinu, að það sé aðallega hækkun á Hitaveitu Reykjavíkur sem hafi komið þarna til skjalanna. Af þessu tilefni er rétt að það komi fram, að hækkunin sem varð nú á heitu vatni í Reykjavík, er 0.18% af hækkun framfærsluvísitölunnar eða 1/70 hluti hækkunarinnar. Þetta var það sem um munaði.

Þá var það athyglisvert, að í hæstv. ríkisstj. situr hæstv. forsrh., sem því miður er ekki hér og ekki er sanngjarnt þess vegna að beina máli sínu mikið til hans, en hann er yfirlýstur andstæðingur vísitölubindingar og hefði verið gaman að heyra viðhorf hans til þessa máls, auk þess sem hann er fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík. En um það er ekki að ræða þar sem hann er ekki viðstaddur.

Nú má auðvitað spyrja sem svo, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gerði hér áðan, hvort ég sé að mælast til þess að hækka verðlag í Reykjavík. Um þetta vil ég segja — þar sem ég sé að hv. þm. er kominn í salinn aftur — að ef Hitaveita Reykjavíkur fær ekki staðið undir sér með því verði sem viðgengst á heitu vatni sem hún selur, þá verður það auðvitað til þess að bæjarfélagið verður að greiða með Hitaveitunni og sú niðurgreiðsla verður gerð með útsvörum okkar, m. a. okkar hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar sem erum búsettir hér í Reykjavík. Það er auðvitað miklu léttari leið vegna þess að útsvörin mælast ekki í vísitölunni. Þetta veit hv. þm. jafnvel og ég. Og ég rifja það upp, að nýlega lét hæstv. ríkisstj. það út ganga og náði sér í þingmeirihluta fyrir því að leyfa bæjarfélögunum hér á landi að hækka útsvörin. Má vera að þar sé komin skýringin á þessari stefnu.

En það er annað sem er athyglisvert í þessu sambandi, og það er að Hitaveita Reykjavíkur fór fram á 58% hækkun ekki eingöngu á heitu vatni, heldur einnig á öðrum kostnaðarþáttum, og þar með var talið heimtaugagjald svokallað. Hvað gætum við nú haldið að hafi gerst í því sambandi? Var ekki heimtaugagjaldið hækkað um 10% eins og heita vatnið? Nei, það gerðist ekki. Heimtaugagjaldið fékkst hækkað um 58%, og sýnir sá tvískinnungur að einhver maðkur er í þessari mysu. Auðvitað er það rétt, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hvíslaði að sessunaut sínum. Þetta stafar af því að heimtaugagjaldið er ekki í vísitölunni. Þar er skýringin.

Í þessu sambandi er ástæða til að minnast á það, að það eru fleiri hitaveitur í landinu en Hitaveita Reykjavíkur. Og það er ástæða til að spyrjast fyrir um það, hvort þær hitaveitur hafi farið fram á hækkun á sínum gjöldum og hve miklar þær hækkunarbeiðnir hafi verið og hvaða afgreiðslu þær hafi fengið á sínum hækkunarbeiðnum. Ástæðan fyrir því, að ég hef máls á þessum atriðum hér utan dagskrár, er að ég vil fá að vita og tel að alþm. eigi heimtingu á að vita, á hvaða forsendum ákvörðun gjaldskrárnefndar var tekin, og um leið, hvernig hæstv. ríkisstj. fór að því að finna það út að Hitaveita Reykjavíkur ætti að fá 10%, en ekki 20% eins og t. d. iðnrn. lagði til í síðara áliti sínu.

Mig langar til þess að minnast örlítið í lokin á það, hvað gerist ef ekki verður komið meira til móts við þarfir Hitaveitu Reykjavíkur. Það er í fyrsta lagi, að skera verður niður allar framkvæmdir aðrar en þær sem eru samningsbundnar, og samt vantar 500 millj. kr. á að Hitaveita Reykjavíkur geti staðið í skilum við verktaka þeirra framkvæmda sem þegar hafa verið gerðir samningar um. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að þetta er einsdæmi ef um ríkisrekstur væri að ræða, því að sem fjvn.-maður veit ég að þannig er alltaf hagað málum gagnvart opinberum framkvæmdum að fyrst er reynt að klára það sem þegar hafa verið gerðir samningar um við verktaka. Ef gert er ráð fyrir því að Hitaveitan framkvæmi það magn af framkvæmdum sem hún þarf að gera til að fylgja þeirri áætlun sem hún telur vera æskilega, þá er ljóst að hún þarf að taka 1500 millj. kr. lán. Þau lán fást í dag aðeins á 16–20% vöxtum auk þess sem þau eru í erlendum gjaldeyri. Dollaralán og afborganir og vextir af slíkum lánum munu nema um 350 millj. kr. á ári, en ef Hitaveitan fær ekki leiðréttingu á sinni gjaldskrá, þá kemur í ljós að söluaukningin gefur henni aðeins 270 millj. kr., þannig að það vantar nokkra tugi millj. upp á að þessar framkvæmdir standi undir sér eða séu arðsamar, miðað við það söluverð sem hún hefur í dag.

Mig langar til þess að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. viðskrh. í lokin:

Er hæstv. ríkisstj. tilbúin til þess að breyta niðurstöðum sínum, ef ný gögn koma fram sem sýna fram á að það hafi verið rangar forsendur sem lágu til grundvallar ákvörðun gjaldskrárnefndar og hæstv. ríkisstj.?

Í öðru lagi vil ég ítreka þá spurningu sem kom fram áður í mínu máli: Hvað hafa aðrar hitaveitur beðið um mikla hækkun og hvað hafa þær fengið mikla hækkun? Ég skal nefna tvær stórar hitaveitur í landinu: annars vegar Hitaveitu Suðurnesja og hins vegar Hitaveitu Akureyrar, en þær eru báðar á svæðum utan vísitölusvæðisins, ef ég má nefna Reykjavík það í þessu tilliti. Og af hverju var heimtaugagjaldið hækkað um 58%, en heita vatnið aðeins um 10%? Hver er skýringin á þessum mun? Það kemur í ljós, að heimtaugagjaldið í Reykjavík er orðið eitt alhæsta á landinu, ef ekki það hæsta, af því að það fæst yfirleitt alltaf hækkun á þessum lið. Ég vil fá haldbæra og góða skýringu hæstv. ráðh. á þeim mismun sem þarna kemur fram.

Og að síðustu: Munu forsendur gjaldskrárnefndar verða birtar, eins og óskað hefur verið eftir af forráðamönnum Hitaveitunnar og borgarstjórnarinnar í Reykjavík?

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mér tækifæri til þess að varpa fram þessum spurningum.