14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota aðstöðu mína og flytja hér langa ræðu, en það er þó ástæða til þess að fara nokkrum orðum um málið vegna svars hæstv. ráðh.

Ég vil byrja á því að þakka honum fyrir þau svör og um leið samþm. mínum, þeim hv. 6. þm. Reykv. og 12. þm. Reykv., sem hafa lýst hér hvaða áhrif þessi stefna ríkisstj. og gjaldskrárnefndar getur haft fyrir Reykjavík og Hitaveitu Reykjavíkur.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh., að staða fyrirtækisins eða afkoma væri óvenjulega góð, og það var meginforsenda þess að ekki fékkst meiri hækkun. Þessi staða, sagði hæstv. ráðh., var góð vegna þess að sala fyrirtækisins var mikil á síðasta ári. Nú er það svo, að þetta fyrirtæki leggur fram sínar áætlanir um sölu á hverju ári miðað við meðaltalsaukningu síðustu fimm ára, og er gert ráð fyrir að söluaukningin sé að meðaltali um 4% á ári. Vegna þess að síðasta ár var kaldasta ár um langt skeið hér á þessu svæði varð söluaukningin 6% og miklu meiri en gerist í meðalári, og það seldust 41.2 millj. tonna af heitu vatni samkv. áætlun fyrir 1979. Í áætlun Hitaveitunnar um sölu 1980 er gert ráð fyrir að salan verði 39.3 millj. tonna, og það er þessi tala sem hæstv. ráðh. vefengir, eins og fram kom í upplýsingum gjaldskrárnefndar.

Það skal tekið fram, að nú stendur yfir úttekt á sölu heits vatns frá Hitaveitu Reykjavíkur fyrstu mánuði þessa árs, og allt stefnir í þá átt að salan sé um það bil 4.1% minni en hún var á síðasta ári, þrátt fyrir að um 4% rúmmálsaukningu húsnæðis var að ræða hér í borginni. Þetta lá nokkurn veginn fyrir þegar beiðnin kom frá Hitaveitu Reykjavíkur og kemur fram í bréfaskriftum Hitaveitunnar til iðnrn. Það er þetta sem ég á við þegar talað er um breyttar forsendur, og ég er feginn að heyra það af munni hæstv. ráðh., að hann er tilbúinn að efna til breytinga á gjaldskrárákvörðuninni ef slíkar forsendur hafa breyst, sem allar líkur eru fyrir að gerast muni.

Varðandi veltufé kemur fram ákaflega mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. Hann telur, að veltustaða fyrirtækisins sé góð, og nefnir í því sambandi að í sjóði fyrirtækisins hafi verið 743 millj. kr. um síðustu áramót. Þetta er rangt, þetta er alrangt. Veltufjármunir eru ekki bara sjóðir heldur líka efni. Og þetta efni er búið að reikna inn í þá áætlun sem var gerð fyrir yfirstandandi ár. Þess vegna er þarna um að ræða misskilning af hálfu gjaldskrárnefndar, sem hún gat auðvitað leiðrétt, ef hún hefði kært sig um. Hagnaður fyrirtækisins er auðvitað kominn ofan í jörðina, ef svo má að orði komast, það er búið að fjárfesta í þeim hagnaði sem kom fram á síðasta ári, og það er aðeins verið að tala um þann mun sem kemur fram þegar því hefur verið ráðstafað. Af þessu sést að það er um misskilning að ræða við þessa gjaldskrárákvörðun. Hún byggist á röngum forsendum og um það er að ræða að ríkisstj. taki málið upp þegar hið sanna kemur í ljós, sem væntanlega getur gerst innan tíðar.

Þá er það afar athyglisvert, og á það vil ég leggja áherslu, að ríkisstj. hikar ekki við að hækka heimtaugagjaldið um 58%, eins og beðið var um. Þá er engin fyrirstaða, enda er heimtaugagjaldið ekki í vísitölunni. Enn fremur er það athyglisvert, að ríkisstj. hefur ekki í hyggju að birta forsendur gjaldskrárnefndar í framtíðinni. Það segi ég vegna þess að það kemur fram í erindisbréfi til gjaldskrárnefndar, að hún eigi m. a. að byggja á þeirri stefnu sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum, og allir vita að sú stefna er ekki í öllum atriðum mjög skýr.

Að lokum — og á það vil ég leggja sérstaka áherslu — gaf hæstv. ráðh. Alþingi upplýsingar um hækkunarbeiðnir sem hafa komið frá hinum og þessum hitaveitum á landinu, og þær voru frá 10 og upp í 40%. Það, sem vekur athygli, er að engin þessara beiðna, ekki ein einasta þessara beiðna fór til gjaldskrárnefndar, en gjaldskrárnefnd tekur aðeins við málum þegar um ágreining er að ræða milli þeirra, sem biðja um hækkun, og viðkomandi fagráðuneytis. Iðnrn. féllst á þessar hækkunarbeiðnir og við þeim var orðið. Gjaldskrárnefndin fékk málið ekki til sín og á ábyrgð ríkisstj. fékkst þessi hækkun fullkomlega út í verðlagið. Síðan kemur Hitaveita Reykjavíkur. Iðnrn. leggur fram till. um að hún hækki um 40% með sama hætti og aðrar hitaveitur landsins. Hún fær 10%, fjórðung af því sem fagrn. lagði til, sjöttung af því sem fyrirtækið telur sig þurfa að nota. Á þetta legg ég áherslu því að þarna kemur fram mismunurinn. Og þarna kemur fram í raun sú stefna sem hæstv. ríkisstj., sem hér ríkir, hefur í orkumálum.