14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

103. mál, barnalög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. til barnalaga hefur fjórum sinnum áður legið fyrir Alþ., en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Í tvö af þessum fjórum skiptum hefur frv. þó verið lagt fram í byrjun þings. Frv. var nú lagt fram skömmu fyrir stjórnarskiptin í febr. s. I. og þá í óbreyttri mynd frá því vorið 1979. Þá höfðu verið gerðar á því allmiklar breytingar við endurskoðun af hálfu nefndar þeirrar er frv. samdi.

Eins og þingstörfum hefur verið háttað á liðnum vetri mátti heita augljóst að frv. gæti ekki hlotið efnislega meðferð á þessu þingi. Ég tel augljóst að nauðsynlegt er að svo viðamikið mál sem hér er um að tefla sé lagt fyrir þingið þegar í upphafi þings svo að það geti fengið nægilega umfjöllun til þess að lögfesta megi. Mun verða lögð á það áhersla að frv. verði lagt fyrir næsta þing þegar í þingbyrjun, annaðhvort óbreytt eða með breytingum í samráði við sifjalaganefnd.

Svo sem áður hefur verið lýst í framsögu fyrir málinu hefur framþróun löggjafar á þessu réttarsviði verið mjög ör síðasta áratug og er reyndar svo enn, svo sem sjá má m. a. á því, að í Noregi er nú verið að leggja fram frv. að samfelldum barnalögum í fyrsta sinn þar í landi eftir margra ára undirbúning og að vísu við skiptar skoðanir í ýmsum efnum.

Um efni frv. vil ég að þessu sinni vera fáorður. Því hefur í aðalatriðum verið lýst áður. Ljóst er að um margar mikilsverðar breytingar á gildandi löggjöf er að ræða í frv., og það er vart að undra ef haft er í huga að núgildandi löggjöf er að verða 60 ára. Verður ekki annað sagt en hún hafi vel gagnast og furðanlega staðist tímans tönn, en nú er meira en tímabært að nútímalegum endurbótum verði komið á. Varða þær nánast alla þætti sifjalaga, ákvæði um ákvörðun faðernis, réttarfarsákvæði í því sambandi til styrktar stöðu móður óskilgetins barns, efnisákvæði um bætta réttarstöðu föður óskilgetins barns, bætta jafnstöðu við forsjá barna, bætta stöðu við framfærslu barna og svo mætti lengi telja.

Ég vil hvetja þingheim til þess að láta á næsta þingi hendur standa fram úr ermum, þannig að endurnýjuð löggjöf á þessu sviði hafi séð dagsins ljós áður en núgildandi löggjöf nær sextugsaldri á miðju næsta ári. Þessa er beðið með vaxandi óþreyju.

Ég vil óska þess, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.