14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

177. mál, skráning lífeyrisréttinda

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Að mínu mati er hér á ferðinni mjög mikilsvert og nauðsynlegt mál. Það er nauðsynlegt fyrir hvern og einn að geta gengið úr skugga um réttindi sín, og á þetta ekki síst við um gamalt fólk og aðstandendur þess. Það er nauðsynlegt að geta gengið úr skugga um að atvinnurekendur geri skyldu sína í þessum efnum, því að það er fullseint að uppgötva vanrækslur á þessu sviði þegar menn þurfa á lífeyrisgreiðslum að halda, en að því munu vera nokkur brögð.

Þessi skráning er líka æskileg, allt að því nauðsynleg vegna framkvæmdar laga um eftirlaun aldraðra.

Ég hef oft rekið mig á það vegna starfa minna að sveitarstjórnarmálum, að gamalt fólk og aðstandendur þess vita ekki um rétt sinn á ýmsum sviðum. Sérstaklega verður þetta áberandi þegar ætlast er til að viðkomandi sendi inn umsókn til að ná rétti sínum í hinu eða þessu málinu. Að mínu mati má það ekki vera komið undir kunnugleika gamla fólksins eða aðstandenda þess, hvort það fær notið réttinda sem það á lögum eða reglum samkvæmt. Það verður einhver opinber aðili að grípa inn í ef blessað gamla fólkið eða öryrkjar missa af löglegum rétti sínum til eins eða annars. Það er heldur engin vissa fyrir því, að þeir, sem mest þurfa á fyrirgreiðslu á einhverjum sviðum að halda, viti hvort hún er til eða hvert þeir eigi að leita hennar.

Ef þær upplýsingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að safnað verði saman, eru settar í tölvuvinnslu, sem hlýtur að verða, ætti að verða auðvelt að finna hverjir fara á mis við lífeyrisréttindi sem þeir hugsanlega eiga tilkall til. Enn fremur hljóta þessar upplýsingar að verða mjög gagnlegar við undirbúning lagasetningar um samræmt verðtryggt lífeyrisréttindakerfi fyrir landsmenn alla, sem er eitt af stærstu sanngirnis- og réttindamálum sem að hlýtur að verða unnið næstu mánuðina.

Hæstv. fjmrh. kom inn á nauðsyn þess að samþykkja lög um skylduaðild að lífeyrissjóðum eða lög um starfskjör launþega, en í þeim er skylduaðildin fólgin. Ég er honum sammála. Það nær auðvitað engri átt að menn fái réttindi og áframhaldandi og vaxandi réttindi nema þeir fái þá kvaðir um leið. Það frv. verður að ná fram að ganga á þessu þingi. Ég held líka að það sé praktískt, að það frv., sem hér er til umr., nái fram að ganga, og ég endurtek það, herra forseti, að ég styð það eindregið.