14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2685 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft um langa hríð til athugunar frv. til 1. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hér er um skatt að ræða sem var lögfestur 1979, held ég muni rétt vera, og lagður á á s. l. ári. Gert hefur verið ráð fyrir þessari skattlagningu í fjárlagaundirbúningi þriggja fjmrh., Tómasar Árnasonar, Sighvats Björgvinssonar og Ragnars Arnalds.

Það er hins vegar ljóst, að með breytingu á skattalögum nú á þessum vetri eru komin hér gerbreytt viðhorf, vegna þess að þar er gert ráð fyrir að eignarskatturinn komi til með að hækka mjög verulega. Hins vegar er ljóst að tekjuskattur félaga mun verða miklum mun minni en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Vegna óvissu þeirra mála allra treystum við okkur ekki, þeir nm. sem undirrita þetta nál., meiri hl. fjh.- og viðskn., annað en leggja til að þessi skattur verði lagður á í ár. Það er hins vegar ljóst, með tilliti til þess sem ég sagði áður um breytingu á eignarskattinum, að slíkt getur ekki haldið lengur áfram. Það verður að taka til endurskoðunar þegar fyrir liggur hvað kemur út úr nýju skattalögunum.

Við leggjum til að gerðar verði á frv. nokkrar breytingar sem eru ekki alvarlegs eðlis. Sú fyrsta er aðeins í þá átt, að gert er ráð fyrir að vitna þar ekki aðeins í lögin um tekjuskatt og eignarskatt frá 1978, heldur einnig með síðari breytingum, í öðru lagi að taka af öll tvímæli í sambandi við innheimtu þessa skatts og síðan í þriðja lagi að hann komi til frádráttar eins og hver önnur rekstrarútgjöld og dragist frá tekjum rekstrarársins 1980, þ. e. þessi skattur, sem nú er á lagður. En eins og ég hef áður getið um í sambandi við skattamál hér á Alþ. verða menn að gera sér það ljóst, að þegar lagður er á skattur sem þessi, sem kemur til frádráttar tekjum, þá leiðir hann náttúrlega til lækkunar á tekjuskatti félaga árið eftir. Þegar tekjuskattur félaga er 65% eru þetta í sjálfu sér ekki tekjur sem koma sem viðbótartekjur. Þessi skattur lækkar aðra skatta ríkisins og svo er einnig m. a. með aðstöðugjald sveitarfélaga, hækkun á því kemur til lækkunar á tekjuskatti þeim sem til ríkisins rennur.

Ég hef reynt að kanna það, hvort með einhverjum hætti mætti ákvarða betur þann stofn sem þessi skattur er á lagður. Það er alveg ljóst og borgar sig ekki að fara í neina launkofa með það, að það er ágreiningsefni hvernig skuli skilgreina það, hvað er verslunarhúsnæði, hvað er skrifstofuhúsnæði og hvað eru fasteignir sem nýttar eru til verslunarrekstrar og/eða til skrifstofuhalds. Sumir hafa jafnvel viljað segja að fasteign, sem nýtt er til verslunarrekstrar, sé m. a. olíutankur, vegna þess að inni í honum sé vara sem á að selja. Þetta er að sjálfsögðu alröng skilgreining að mínu mati. Hér er um verslunarhúsnæði að ræða og skrifstofuhúsnæði.

Það er einnig ljóst, að samkv. þessum lögum er þessi skattur ekki lagður á skipaafgreiðslur, t. d. hér við höfnina. Þessi skattur er ekki lagður á skipaafgreiðslur, sem eru hér og vörum er skipað upp í, og með sama hætti verður að telja, að hann sé ekki lagður á skipaafgreiðslur úti um land. Það skiptir að sjálfsögðu ekki máli hvort vörur koma inn í þessa afgreiðslu frá útlöndum eða hvort þær koma með bílum eða skipum. Þarna verður að gæta samræmis. Hitt er svo annað mál, að í einstökum tilvikum má vera að vörur séu afgreiddar beint til neytenda út úr þessum skipaafgreiðslum, sem ég hygg að sé sjaldgæft, en þarna verður að gæta samræmis.

Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þann stofn sem þessi skattur er á lagður. En ég veit að um hann er ágreiningur, sem alltaf hlýtur að verða varðandi svona skatt, þá skilgreiningu hvað felst í verslunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði í þessu sambandi. Nú hafa verið tekin af nokkur tvímæli með þessu nýja frv., en lögin voru með dálítið öðrum hætti á s. l. ári.

Ég vil aðeins ítreka það, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.