14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun verða stuttorður svo að ég mun ekki hindra það að forseti geti lokið umr. Ég ræddi þetta mál nokkuð ítarlega við 1. umr. og út af fyrir sig get ég verið sæmilega ánægður með þá niðurstöðu félmn., að þetta frv., eins og það liggur fyrir, hafi ekki verið svo vel skoðað að þeir vilji láta samþykkja það frá Alþingi öðru vísi en að tryggja það að frv. fari strax í endurskoðun. Ég er búinn að vera nokkuð mörg ár hér á Alþ. og ég man ekki til að það hafi nokkurn tíma gerst, að n. hafi afgreitt mál þannig að negla það niður að lögin, sem er verið að afgreiða, fari í endurskoðun áður en þau taka gildi. Man ég ekki til þess að þetta hafi nokkurn tíma komið fyrir. (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera.

Ég ræddi þetta mál ítarlega við 2. umr. og ætla ekki að fara að taka neitt upp af því sem ég sagði annað en það, að ég gat um það, að ég mundi ekki geta greitt atkv. með frv. ef landbúnaðurinn yrði ekki tekinn út úr þessu eða það yrði tryggt að hann yrði athugaður fyrir gildistökuna, sem ég tel að sé ekki með samþykkt þessa frv., því að bráðabirgðaákvæðið, sem samþykkt var í Ed. og stendur óhaggað, er á þá leið, að það verði komin reglugerð fimm eða sex mánuðum eftir að lögin hafa tekið gildi eða um mitt ár 1981, ef ég man rétt. Ég tel að það hefði verið réttast, eins og málið stendur, að afgreiða frv. ekki á þessu þingi, þar sem lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en í ársbyrjun 1981.

Það er enginn vafi á því, að það er full þörf á því að reyna að koma í veg fyrir slys og auka eftirlit, en það er ekki sama hvernig að því er staðið. Hæstv. félmrh. gat um það, að t. d. væri nefnd að athuga málefni Brunamálastofnunar. Ég hef ekki séð það erindisbréf sem sú nefnd hefur fengið, en einhvern veginn hef ég fengið það á tilfinninguna, að nefndinni hafi ekki verið falið það í raun og veru að taka út verksvið Brunamálastofnunar og hvaða mannskap hún þyrfti til starfa. (Gripið fram í.) Ég bið þá afsökunar, enda tók ég það fram, að ég hef álitið að það væri á annan veg. En hæstv. félmrh. upplýsir að það sé misskilningur og er það vel. Hjá Brunamálastofnun eru sérfræðingar eða eiga að vera eftir anda laganna, og þeirra verkefni eiga að vera ráðleggingar og fyrirbyggjandi aðgerðir, en ekki annað, þannig að ég veit ekki og skal ekkert meta það — ég hef ekki þekkingu til þess — hvort þetta fer saman við þá stofnunin sem hér um ærðir. En það var auðvitað ekki tími til fyrir félmn. að fara ofan í þetta frv. eins og þyrfti. Þetta eru 100 greinar og þeir hafa fengið eina 3–4 daga til að starfa, enda er niðurstaða n. eins og ég hef lýst.