16.05.1980
Efri deild: 90. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Við Alþfl. menn teljum stjórnarliðið hafa unnið veruleg skemmdarverk á því frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem fyrrv. félmrh., Magnús H. Magnússon, lagði fyrir Alþ. á sínum tíma. Þau skemmdarverk eru einkum í því fólgin að opna allar gáttir til lánveitinga til aðila sem síður en láglaunafólk ættu að eiga fyllsta rétt til hámarksfyrirgreiðslu. Þá eru húsbyggjendur blekktir með fyrirheitum um betri lánakjör, en stjórnarliðar þegja um að lengri lánstími og lægri vextir þýða lægra lánshlutfall, sem í raun þýðir lakari kjör til handa húsbyggjendum, en einmitt hækkun lánshlutfallsins er mikilvægast fyrir þá sem verst eru settir. Versta skemmdarverkið er þó í því fólgið að skilja veðlánakerfið eftir í uppnámi án tekjustofna, án fjármagns.

Við Alþfl.-menn höfum í störfum á Alþ. og í ríkisstj. barist fyrir meira öryggi og betri kjörum í húsnæðismálum til handa láglaunafólki. Sú barátta náði hámarki með því frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem ráðh. Alþfl. lagði fram og verkalýðshreyfingin átti stóran þátt í að móta. Þrátt fyrir þau skemmdarverk, sem stjórnarliðið — afturhaldið í landinu — hefur unnið á frv., teljum við kaflann um félagslegar íbúðir enn þess virði að rétt sé að samþykkja frv. Við vísum til brtt. okkar hér í d. er stefnir að því að tryggja fjármagn fyrir félagslegar íbúðabyggingar. Við vísum til atkvgr. okkar um framlagðar brtt. samhliða því er við samþykkjum frv.