16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Samkomulag það, sem þessi þáltill. fjallar um, fylgir till. sem fskj. Er texti samkomulagsins birtur bæði á íslensku og norsku og báðir jafnréttháir, eftir því sem venjulegt er. Texti samkomulagsins skýrir sig sjálfur. Get ég því að mestu vísað til hans. Ég tel þó rétt að láta nokkrar aths. fylgja til frekari glöggvunar, ekki hvað síst vegna missagna sem fram hafa komið.

Samkomulagið hefst með inngangi þar sem upp eru taldar viðurkenndar staðreyndir sem samkomulagið byggir á, þ. á m. 200 mílna efnahagslögsaga okkar. Þar er um fyrirvaralausa viðurkenningu að ræða á þeirri staðreynd að við höfum ákveðið 200 sjómílna efnahagslögsögu. Þetta er glögg viðurkenning. En auk þess koma auðvitað til skýringar á þessu ákvæði, hvernig það er til komið, með hvaða hætti það komst inn í formálann og viðræðurnar allar, sem taka af allan efa þessu efni. Mér þykir ólíklegt að Íslendingar vilji fara að vefengja þá viðurkenningu. Ég ætla a. m. k. ekki að gera því skóna að fyrra bragði.

1.–3. gr. samkomulagsins fjalla um stjórnun á fiskveiðum og um fiskvernd. Þar er í 1. gr. ákvæði um náið samstarf á milli þessara aðila um fiskveiðimál. Í 2. gr. er ákvæði um stofnun fiskveiðinefndar svokallaðrar. Og í 3. gr. er ákvæði um hvaða verkefni það eru sem fiskveiðinefndin á fyrst og fremst að fjalla um.

Eins og ég sagði áðan er ákvæði í 2. gr. um fiskveiðinefndina. Þar er líka ákveðið að hún geti kvatt sér til aðstoðar ráðgjafa og sérfræðinga og enn fremur að hún geti sett niður vinnuhópa sérfræðinga, sérkunnáttumanna, þar sem slíkt á við og hún telur ástæðu til.

Um verkefnin er svo kveðið á í 3. gr. eins og ég sagði. Það er reglan að þessi fiskveiðinefnd hafi aðeins tillögurétt í þeim málefnum sem hún á að fjalla um. Frá því er þó sú undantekning gerð í 3. gr., að ef um einróma samkomulag er að ræða í nefndinni og tillögur hennar byggjast á því skuli hún binda aðila meðan henni er ekki andmælt innan tveggja mánaða. Þetta ákvæði tel ég ekki hættulegt þar sem ég tel aðilum, hvorum sem væri, ekki ofætlun að mótmæla innan tveggja mánaða ef þeir ekki vilja fallast á samhljóða tillögur þessarar nefndar.

4. og raunar 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. hafa að geyma ákvæði sérstaklega varðandi loðnuveiðar.

4. gr. hefur að geyma ákvæði sem við teljum mjög mikilvæg að því er varðar loðnuna. Það skal reynt að ná samkomulagi um hámarksafla á loðnu, en takist það ekki ráða Íslendingar og ákveða einir hámarksaflamagnið.

Þetta er óvenjulegt ákvæði og vafasamt að fordæmi finnist um að ríki leyfi öðru ríki að ákveða hvað hið fyrrnefnda megi veiða innan sinnar lögsögu. Ég efast satt að segja um að hægt sé að benda á slíkt fordæmi. Þegar rætt var um þessi mál í fyrra ítarlega í landhelgisnefnd og settar fram hugmyndir kom þessi hugmynd ekki fram þar. Svo langt datt mönnum þá ekki í hug að ganga að Íslendingar ættu einir að ákveða hámarksaflann sem veiða mætti bæði á Íslandsmiðum og á Jan Mayen-miðum.

Það var mjög eðlilegt, þegar Norðmenn gengu inn á slíkt ákvæði sem þetta, að þeir teldu sér nauðsynlegt að hafa nokkur öryggisákvæði, nokkrar neyðarútgöngudyr. Þessa öryggisvent(a fyrir Norðmenn er að finna í 2. og 3. mgr. 4. gr.

Í 2. mgr. er kveðið á um að ef í ljós kemur, að leyfilegum hámarksafla loðnu á veiðitímabilinu hefur verið breytt með tilliti til þessa veiðimagns sem hlutdeild Noregs í aflanum var byggð á, skal sú hlutdeild breytast til samræmis við það á sama eða næsta veiðitímabili. M. ö. o.: Ef farið er fram úr því veiðimagni, sem ákveðið hafði verið í upphafi, eiga Norðmenn að fá uppbót á það. Þetta er sanngjarnt ákvæði. Það getur enginn verið á móti ákvæði sem þessu. Við getum ekki haldið því fram að við ætlum að snuða einn eða neinn í viðskiptum, en það værum við að gera ef við ætluðum að fara þá leið sem þarna er sett undir.

Íslendingar töldu 2. mgr. nægja og þess vegna þyrfti ekki á 3. mgr. að halda. En Norðmenn lögðu áherslu á 3. mgr. og töldu sér það nauðsynlegt til að fengist samþykki fyrir málinu í Noregi. Íslensku samninganefndarmennirnir hefðu viljað vera án þessarar mgr. Ég tel hana þó ekki hættulega. Hún kemur aðeins til greina ef ákvörðun Íslendinga er bersýnilega ósanngjörn. Mundu Norðmenn að sjálfsögðu ekki njóta hagræðis samkv. 2. mgr. ef þeir teldu sig af þessari ástæðu óbundna af samkomulaginu.

Ég tel ákaflega ólíklegt að til þess komi að 3. mgr. 4. gr. verði notuð. A. m. k. getum við ekki haldið því fram að við ætlum að taka ákvörðun í þessu efni sem er bersýnilega ósanngjörn. Það er útilokað fyrir okkur að halda því fram að við ætlum að haga okkur þannig. Það getur ekki verið ætlun okkar að fara að beita því valdi, sem okkur er falið í 1. mgr. 4. gr., á þann hátt að um misnotkun sé hægt að tala eða að því sé beitt á óheiðarlegan hátt.

5. gr. kveður á um að Norðmenn skuli fá 15% loðnunnar á Jan Mayen svæðinu. Það voru skiptar skoðanir um þetta ákvæði. Íslendingar töldu hlutfallið of hátt, en Norðmenn töldu það of lágt. Upphafleg krafa Norðmanna var 160 þús. tonn eða 25%, en Íslendingar vildu setja hámarkið við 10%. Mættust aðilar með því að ákveða það 15%. Ég bendi á í þessu sambandi að þegar rætt var um aflatölurnar í fyrra sumar — þá var raunar aðeins um að ræða það sumar og veiðar það sumar — var nálega orðið samkomulag um að Norðmenn fengju að veiða 90 þús. tonn af 600 þús. tonna heildarafla. Norðmenn viðurkenna að vísu ekki að hafa samþykkt 90 þús. tonn. En hvað um það. Íslendingar voru þá reiðubúnir að semja um 90 þús. tonn af 600 þús. og það er sama prósenttala og hér er um að tefla eða nákvæmlega 15%. Ég endurtek að þá var að vísu aðeins um þetta eina sumar að ræða.

Þá er það annað atriði í 5. gr. sem var ágreiningsefni, en það er hversu lengi þessi hlutfallsskipting skyldi standa án endurskoðunar. Hún er í samkomulaginu ákveðin fjögur ár. Norðmenn vildu aðeins binda þetta hlutfall við eitt eða tvö ár. Íslendingar vildu hins vegar halda sig við að það ætti að gilda í fimm ár. Niðurstaðan varð fjögur ár. Hlutfallið verður þá endurmetið, en tekið er fram í samkomulaginn við hvað þá skuli miða það endurmat, eins og nánar segir í 5. gr. og ég hirði ekki um að lesa upp. Það á sem sagt að reyna að ná samkomulagi um endurmat. En síðan segir:

„Náist ekki samkomulag, skulu ríkisstj. beggja landanna fjalla um stöðuna, með það markmið fyrir augum að ná fram lausn sem gætir þeirra sjónarmiða, sem báðir aðilar hafa lagt til grundvallar við gerð samkomulags þessa.“

Menn spyrja hvað verði ef ekki næst samkomulag, þ. e. eftir hvaða hlutfallstölu verði þá farið. Sumir láta sér detta í hug að þá ákveði Norðmenn sjálfir sína hlutdeild, sinn hámarksafla. Ég tel slíkt misskilning. Ef svo færi að ekki næðist samkomulag og á meðan ekki næst samkomulag gilda reglur þjóðarréttarins um hvernig eigi að leita leiða til að finna lausn á slíkum ágreiningi. En það er mín skoðun að þangað til nýtt samkomulag hafi verið gert verði menn að halda sig við gömlu skiptáregluna. Þeir, sem vilja breytingu, verða að fara þær leiðir sem til boða standa eftir reglum þjóðaréttarins til að fá þar breytingar á.

Í fyrri mgr. 6. gr. er Íslendingum heimilað að taka samsvarandi magn loðnu og fellur í hlut Noregs af leyfilegum hámarksafla á Jan Mayen svæðinu.

Í 2. mgr. sömu greinar eru ákvæði um aðra flökkustofna en loðnu. Þar var sjónarmið Íslendinga það, að þeir vildu skipta aflanum jafnt. En sú er ekki niðurstaðan. Það verður að segjast eins og er að fiskifræðingar okkar töldu vandkvæði á því að setja fram slíka helmingaskiptareglu fyrir fram. Það er að vísu ekki um margar fisktegundir þarna að ræða, einkanlega kolmunna og síld, en þeirra hættir eru þó talsvert aðrir en loðnunnar. Þar er gert ráð fyrir að koma þurfi til samninga um þessar fisktegundir og það muni þurfa að koma til samninga á milli fleiri ríkja. T. d. er það með kolmunnann, að hann kemur mikið frá Skotlandi, og síldin varðar fleiri ríki en þau tvö sem gera þetta samkomulag. Verði um að ræða kvótaskiptingu í þessum efnum verður það á milli landa, en ekki á svæði. Þá getum við fiskað það, sem í okkar hlut kemur, að vild, hvort sem við viljum á Jan Mayen svæðinu eða við Íslandsstrendur, sem oftast mundi þó vera betra og hagkvæmara.

Það fékkst sem sagt ekki helmingaskiptaregla né ákveðin skiptaregla fram í þessu samkomulagi að því er varðar aðra flökkustofna en loðnu. Að sjálfsögðu erum við óánægðir með að ekki skyldu um þá sett nánari mörk, en þó er þess að gæta að í 2. mgr. 6. gr. segir: „skal tekið sanngjarnt tillit til þess, hve Ísland er almennt háð fiskveiðum, svo og fiskveiðihagsmuna Íslands á Jan Mayen svæðinu.“ Þetta er a. m. k. ákveðin stefnuyfirlýsing. Auðvitað væri það samningsrof ef ekki væri tekið neitt tillit til stefnumiða sem sett eru fram með svo skýrum hætti sem þarna er gert.

7. gr. skýrir sig sjálf og ég þarf ekki að hafa um hana nein orð.

Í 8. gr. segir að nauðsynlegt kunni að vera að ráðgast við önnur lönd um verndun og nýtingu flökkustofna og samræma fiskveiðiráðstafanir. Ég býst við að flestir taki undir að þetta sé út af fyrir sig nauðsynlegt. Eigi að síður hefðum við viljað hafa 8. gr. öðruvísi en hún er og hafa hana í öðru formi en hún er. Hinu er ekki að leyna, að niðurlagsákvæði 8. gr. eru afar þýðingarmikil fyrir okkur Íslendinga. 8. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðilar viðurkenna að nauðsynlegt kunni að vera vegna raunhæfrar verndunar og skynsamlegrar nýtingar flökkustofna að ráðgast við önnur lönd og samræma fiskveiðiráðstafanir hlutaðeigandi landa, þ. á m. ákvörðun leyfilegs hámarksafla og skiptingu hans, í samræmi við 63. gr. texta hafréttarráðstefnunnar og ákvæði samkomulags þessa.“

Ég tel að með þessari viðbót, sem komst inn eftir nokkuð miklar þrengingar, sé hagsmunum okkar sæmilega borgið. — Reyndar kom það fram á elleftu stundu að einn samningamaður Norðmanna fékk nokkurn bakþanka af þessu orðalagi og taldi að jafnvel gæti í því falist að Norðmenn væru að fela Íslendingum umboð fyrir sína hönd til að semja við Efnahagsbandalagið og önnur ríki um þessi málefni. Ég svaraði því strax til, að Íslendingum hefði að sjálfsögðu aldrei komið í hug að þeir fengju umboð til að semja fyrir Noreg við Efnahagsbandalagið eða önnur ríki, þá yfirlýsingu gæti ég gefið þar og þá og hana mætti færa inn í fundargerð. Önnur yfirlýsing var ekki gefin og hefur ekki verið gefin og stendur greinin því algerlega óbreytt eins og frá henni var gengið og hafa ekki komið frekari andæfingar gegn henni af hálfu Norðmanna. Ég hef a. m. k. engar orðsendingar um það fengið, enda er náttúrlega ekki hægt að tala um andæfingu af hálfu Norðmanna þó að einn einstakur nm. setji fram sínar sérskoðanir, og mundum við varla vilja gangast undir það af Íslands hálfu að telja okkur bundna af því sem einn einstakur nm. kynni að setja fram sem sína skoðun, hvort heldur væri á viðræðufundi eða annars staðar.

Svo verða kaflaskipti í þessu samkomulagi. Í 9. gr. er farið að fjalla um landgrunnið. 9. gr. ákveður að fjalla skuli um afmörkun landgrunnsins á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen í framhaldsviðræðum. Við hefðum að sjálfsögðu kosið að skipta landgrunninu strax á þessum fundi. Við vorum þó — og það verður að játa — að sumu leyti ekki í stakk búnir til að fara að draga línur á kort hvar skilja skyldi á milli Íslands og Jan Mayen — auðvitað um 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Þess vegna varð að lokum samkomulag um að setja skyldi nefnd til að fjalla um þetta mál. Það, sem er að mínum dómi mikilvægasta atriðið um þessa sáttanefnd, er að henni eru settar vissar forskriftir. Í 3. mgr. 9. gr. segir:

„Hlutverk nefndarinnar skal vera að gera tillögur um skiptingu landgrunnssvæðisins milli Íslands og Jan Mayen. Við gerð slíkra tillagna skal nefndin hafa hliðsjón af hinum miklu efnahagslegu hagsmunum Íslands á þessum hafsvæðum, svo og landfræðilegum, jarðfræðilegum og öðrum sérstökum aðstæðum.“

Undir þessa upptalningu tel ég að öll þau rök falli sem við höfðum á oddi í viðræðunum, sem sagt að það mætti ekki jafna Íslandi og Jan Mayen saman vegna þess hve Ísland væri háð fiskveiðum og efnahagslegir hagsmunir þess algjörlega ósambærilegir við hagsmuni þá sem Norðmenn hefðu í sambandi við Jan Mayen að þessu leyti. Þarna kemst einnig undir það sem við lögðum mikla áherslu á, að ólíku væri saman að jafna vegna þess að fjarlægðin á milli Íslands og Jan Mayen væri um helmingi minni en á milli Jan Mayen og Noregs. Enn fremur er stærðarmunurinn á Íslandi og Jan Mayen geysilega mikill. Jan Mayen er lítil eyja sem vafasamt væri að ætti að fá lögsögu utan sinnar 12 mílna lögsögu, a. m. k. mjög takmarkaða, og enn fremur er Jan Mayen, eins og ég sagði, lítil óbyggð eyja og óbyggileg undir öllum venjulegum kringumstæðum. Byggð þar getur því ekki byggst á sjálfstæðu efnahagslífi á eyjunni. Ég tel að þau ákvæði, sem eru sett í 9. gr., rúmi öll þau rök sem við höfum haft á oddi í þessu máli. Og vissulega væri það brot ef nefndin tæki ekki tillit til þessara sjónarmiða. Tillögur nefndarinnar eru ekkí bindandi fyrir aðila, jafnvel þó að hún nái fullu samkomulagi, en nái nefndin samkomulagi tel ég allar líkur til þess að tillögur hennar yrðu samþ. af aðilum.

Miða skal að því að nefndin ljúki störfum og skili tillögum innan fimm mánaða frá því að hún var skipuð. Sá frestur er settur með það fyrir augum að hún geti skilað tillögum og málið verði þá hugsanlega leyst að fullu áður en til þess kemur að Norðmenn færa út efnahagslögsögu við Jan Mayen, en þeir ætla aðeins að færa út fiskveiðilögsögu nú. Verður lagt fram bréf frá utanrrh. Noregs ef og þegar þetta samkomulag verður staðfest, þar sem hann lýsir yfir að fiskveiðilögsögu við Jan Mayen verði ekki breytt í fulla efnahagslögsögu fyrr en eftir árslok 1980. Ekki er sagt með þessu að þeir breyti lögsögunni þarna strax eftir árslok 1980, en það er skuldbinding um, að þeir geri slíkt ekki fyrr, og þar með gefst ráðrúm til að koma sáttagerð í kring. Ef svo fer að aðilar fallast ekki á tillögur nefndarinnar heldur málið áfram og aðilar, ríkin tvö og ríkisstj. beggja landanna, halda áfram að fjalla um málið, en þá er þeim líka sett sú forskrift að taka sanngjarnt tillit til tillagna nefndarinnar og verða þá auðvitað að hafa hliðsjón af 2. mgr. 9. gr.

Þessi grein varðandi landgrunnið er ekki svo úr garði gerð sem æskilegast hefði verið að mínum dómi. Það er sem sagt ekki beint ákvæði um hvernig og hvað eigi að koma til grein ef aðilar koma sér að lokum alls ekki saman um þessa skiptingu. Þá verðum við að fara inn á þær leiðir sem okkur standa til boða samkv. reglum þjóðaréttar. Þetta hefði að mínum dómi og sjálfsagt að dómi allra nm. verið æskilegt að hafa með ákveðnari hætti. Ég vil þó taka fram, að ég hafði sett á blað tillögur um að koma skyldi til kasta gerðardóms þegar svona væri komið eða ef svona skyldi fara. Sú tillaga hlaut ekki byr hjá íslensku nefndinni.

10. gr. hefur svo að geyma ákvæði um mengun og umhverfisvernd. Þessi grein er mjög mikilvæg. Hún er auðvitað miklu mikilvægari fyrir Ísland en Noreg, vegna þess að við eigum mikið undir því að lífríki hafsins sé ekki spillt, hvorki með tilraunaborunum né vinnslu. Vissulega hefðum við viljað hafa þetta ákveðnara en þarna er. Við hefðum viljað hafa það svo, að tilraunaboranir og vinnsla náttúruauðæfa úr landgrunninu gætu ekki átt sér stað nema báðir aðilar samþykktu og nægilegar mengunar- og umhverfisvarnarráðstafanir hefðu átt sér stað, þannig að hvor aðili um sig hefði neitunarvald. En lengra varð ekki komist en raun ber vitni. Norðmenn voru ófáanlegir til þess að fallast á að hvor aðili um sig hefði slíkt neitunarvald, en samþykktu hins vegar að náið samráð og samstarf skyldi eiga sér stað. Þetta er skuldbinding af Norðmanna hálfu. Ef ekki væri tekið tillit til hennar væri um samningsrof að tefla. Ég segi, að það sé ólíkt betra að hafa þetta ákvæði í 10. gr. um mengunarvarnir, þótt ófullkomið sé, það skal játað, en að hafa ekkert slíkt ákvæði.

Ég tel samkomulagið í heild miklu betri kost en ekkert samkomulag. Það hefur fengist mikið fram af því sem Íslendingar höfðu sett á oddinn, þ. á m. viðurkenning á fullri 200 mílna efnahagslögsögu Íslands, skipting á loðnunni samkv. þeim kröfum, sem Íslendingar gerðu á s. l. ari, og loks það meginatriði, sem þá var ekki talað um svo ég viti til, að Íslendingar ákveða hámarksaflann á loðnunni einir. En þeir verða að gera það með heiðarlegum hætti. Og þó að ákvæðin um skiptingu landgrunnsins séu ekki fullkomin er ótvírætt að í ákvæðunum felst viðurkenning á því, að við eigum þó einhvern rétt á landgrunninu. Sá réttur byggist á þeim rökum sem tekin eru fram í 3. mgr. 9. gr., og það er ekki lítils virði að mínum dómi, þó að ég geti sagt að ég hefði viljað sjá þessa skiptingu áður en gengið væri frá samkomulagi. En segja má að með þessu ákvæði sé sjálfri skiptingunni, þó að rétturinn sé viðurkenndur, skotið á frest, þó um takmarkaðan tíma.

Síðast en ekki síst er í samningnum að finna mikilvægt ákvæði um mengunarvarnir, þótt ekki sé það eins fullkomið og æskilegt væri.

Í þessu samkomulagi eru engin uppsagnarákvæði. Um varanleik þess fer því eftir reglum þjóðaréttar um samninga án uppsagnarákvæðis. Þar með er auðvitað ekki sagt að slíkt samkomulag haldi gildi um alla framtíð án tillits til breyttra aðstæðna. En ekki verður betur séð en að fullnægt sé óskum, sem fram voru settar varðandi frambúðargildi, með því að það eru engin uppsagnarákvæði í samkomulaginu.

Gildistökuákvæði er svo í 11. gr. og þarf ekki að fjölyrða um það, en í samræmi við það er leitað samþykkis Alþingis á þessu samkomulagi.

Alþingi stendur hér andspænis tveimur valkostum.

Annar er sá að samþykkja það samkomulag sem hér liggur fyrir, hinn aftur á móti sá að hafna því og vera þá án allra samninga og standa andspænis útfærslu Norðmanna í 200 mílur við Jan Mayen. Alþingi er í sjálfsvald sett hvorn kostinn það velur. Samkomulagið er óundirritað, engar skuldbindingar hafa verið gefnar sem bindi hendur Alþingis. Frá mínum bæjardyrum séð getur valið ekki verið vandasamt. Annars vegar er þetta samkomulag. Þar er mjög gengið til móts við óskir og viðhorf Íslendinga, þó að við hefðum að sjálfsögðu viljað hafa það á aðra lund í ýmsum greinum ef við hefðum einir mátt ráða. En það er einu sinni eðli samninga að hvorugur aðili fær sjaldnast allt sitt fram, heldur verða aðilar að sætta sig við málamiðlun. Hins vegar er svo það, að um ágreininginn séu engir samningar gerðir og að Norðmenn færi einhliða út efnahagslögsögu við Jan Mayen í 200 mílur. Þá hefðum við ekki viðurkenningu fyrir 200 mílna efnahagslögsögu okkar. Þá væri eftir sem áður ágreiningur um hið svokallaða „gráa svæði“. Þá hefðum við ekki rétt til að ákveða hámarksafla á loðnu sem væri bindandi fyrir Norðmenn. Þá hefðum við ekki lagalegan rétt til að veiða á Jan Mayen svæðinu og Norðmenn gætu þá veitt það sem þeim sjálfum sýndist og aðstæður leyfðu. Þá höfum við heldur enga viðurkenningu fyrir því að eiga neitt tilkall til landgrunns utan efnahagslögsögu okkar. Þá höfum við ekkert ákvæði um mengunarvarnir og umhverfisvernd. Norðmenn geta þá farið sínu fram um olíuleit og olíuvinnslu, óbundnir af öðru en reglum þjóðaréttarins þar um, sem ég held að séu vægast sagt heldur ófullkomnar í því tilliti. Auðvitað mundum við þá mótmæla útfærslu Noregs. Af því mundi spretta mikil deila á milli landanna tveggja sem stæði skemmri eða lengri tíma. Ég skal engu spá um lyktir slíks ágreinings eða deilu. Ég vil ekki gera lítið úr þeim rétti sem við Íslendingar kynnum þar að eiga. Við Íslendingar yrðum þá að leita réttar okkar eftir þeim leiðum sem til boða kynnu að standa. En eitt er víst, að slík deila mundi eitra andrúmsloftið á milli landanna og spilla sambúð þessara nágranna- og frændþjóða um lengri eða skemmri tíma. Það er slæmur kostur að mínum dómi. Ég tel góða sambúð milli þeirra mikilsverða. — Þeir eru til sem tala af nokkurri lítilsvirðingu um Norðurlandasamvinnu. Ég er þeim mönnum mjög ósammála. Ég held að við höfum ekki efni á að tala af lítilsvirðingu um þá samvinnu. Það ætla ég ekki að rökræða hér nánar, en það er atriði sem ég tek tillit til þegar ég met þá valkosti sem fyrir hendi eru.

Ég vænti þess, að vel takist til um framkvæmd þessa samkomulags. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli og verður seint hægt að fullyrða um það fyrir fram. Dómur reynslunnar og sögunnar mun á sínum tíma skera úr um kosti og galla þessa samkomulags. Sá dómur verður ekki byggður á þeim orðum sem kunna að falla í þessum umræðum.

Ég leyfi mér að mæla með þessu samkomulagi og samþykkt þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir. Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað, þegar þeir hafa lokið máli sínu sem óska að taka til máls, og þáltill. verði vísað til utanrmn.