16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2738 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. hefur raunar lýst í ræðu sinni og verið ítrekað af hv. þm. Geir Hallgrímssyni og hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni er ýmislegt í þessum samkomulagstexta sem við Íslendingar hefðum kosið með öðru orðalagi og ákveðnara en þar er. Hins vegar er það einnig ljóst, sem hæstv. utanrrh. sagði, að nú stöndum við á þeim tímamótum, að annaðhvort verðum við að samþykkja það samkomulag, sem fyrir liggur, ellegar afgreiða málið án samkomulags, þannig að útfærsla Norðmanna við Jan Mayen komi til framkvæmda án þess að samningar hafi verið gerðir milli Íslendinga og Norðmanna.

Þingflokkur Alþfl. er þeirrar skoðunar, að hann hefði kosið margt í þessum samningstexta með öðrum hætti en þar er, einkum og sér í lagi varðandi fiskveiðarnar. Hann telur hins vegar að það sé okkur mun hagstæðara, þegar útfærslan við Jan Mayen kemur til framkvæmda, að hafa náð samningum við Norðmenn, eins og í textanum er lýst, og því hefur þingflokkur Alþfl. tekið þá ákvörðun að styðja þetta samkomulag hér á Alþ., þó svo að það sé rétt sem hefur komið fram í máli manna hér, að ýmis atriði í þessu samkomulagi hefðu gjarnan mátt vera með öðrum hætti.

Ég ætla ekki að eyða ýkjalöngu máli í að ræða efnisatriði samningstextans, því það hefur þegar verið gert. Samningurinn hefur verið birtur í öllum blöðum. Hann hefur verið vandlega skýrður, m. a. af hæstv. utanrrh. og öðrum sem hér hafa talað, og verið sagðir á honum bæði kostir og lestir.

Það er að sjálfsögðu rétt, að ýmislegt í þessum samningi er ekki ótvírætt, enda verður seint hægt að gera samning sem er ótvíræður í öllum efnum. Hitt er hins vegar ljóst, og vildi ég láta koma fram að það lá 1jóst fyrir úti í Noregi, hver væri skilningur okkar Íslendinga á þeim atriðum sem eru tvíræðust í þessum samningi. Norðmönnum gafst kostur á að bera fram kröfu um breytingar á texta samningsins þegar skoðun Íslendinga á túlkun hans lá fyrir með yfirlýsingum hæstv. utanrrh. Þeir hurfu frá því að krefjast slíkrar breytingar. Þeir hurfu frá því að krefjast, eins og þeir upphaflega höfðu ráðgert, að Íslendingar gæfu skriflegar yfirlýsingar sem gengju þvert á túlkun íslensku samninganefndarinnar. Þessa afstöðu Norðmanna tel ég vera ákaflega þýðingarmikla fyrir okkur Íslendinga. Við getum þá haldið því fram, að þeim hafi verið ljóst, áður en viðræðunum var lokið, hver var túlkun okkar á ýmsum atriðum samningsins, sem m. a. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur gagnrýnt. Þeim gafst tækifæri til þess að krefjast breytinga á samningstextanum og hætta við samkomulagið ef slíkar breytingar yrðu ekki gerðar. Þeir gerðu það ekki og með því tel ég að við höfum mjög sterk rök til að halda því fram, ef ágreiningur verður síðar um þessi atriði, að Norðmönnum hafi verið skilningur Íslendinga ljós frá upphafi og þeir hafi ekki þegar á átti að herða krafist breytinga á samkomulaginu og með þeim hætti raunverulega tekið undir og staðfest skilning Íslendinga sem réttan.

Þetta vil ég láta koma fram, því það hefur auðvitað mikið að segja í þessu sambandi. Staða okkar er miklu sterkari vitandi það og hafandi í höndunum að þessi ólíki skilningur á ákveðnum atriðum sáttmálans kom fram í dagsljósið áður en viðræðunum lauk. Öllum tilraunum af hálfu Norðmanna til að gera breytingar á samkomulaginu til að staðfesta skilning þeirra var vísað á bug og ekki haldið til streitu af Norðmönnum. Tilraunir Norðmanna til þess að fá utanrrh. Íslanda til að gefa skriflegar yfirlýsingar gagnstæðar túlkun Íslendinga á samkomulaginu runnu út í sandinn. Að Norðmenn skyldu ekki fylgja þeirri afstöðu sinni eftir er tvímælalaust styrkur fyrir okkur og við getum tvímælalaust túlkað það þannig, að þeim hafi verið ljóst hver afstaða Íslendinga var til þessara umdeildu atriða, þeim hafi gefist tækifæri til að mótmæla þeirri túlkun með því að hætta við samkomulagið ef breyting yrði ekki gerð á textanum, þeir hafi ekki tekið það ráð og því fallist á að túlkun Íslendinga á þessum umdeildu atriðum væri rétt.

Ég vil fara í nokkrum orðum út í þær aðstæður sem við blöstu þegar samningaviðræðurnar fóru fram í Osló. Lengi vel var það skoðun íslensku samninganefndarinnar, og menn höfðu talsverð rök fyrir sínu máli, að Norðmenn mundu ekki grípa til útfærslu við Jan Mayen í andstöðu við Íslendinga, m. ö. o.: Íslendingar þyrftu ekki að flýta sér í gerð neins samkomulags við Norðmenn, við værum þar ekki í neinu tímahraki þar sem Norðmenn mundu ekki færa út lögsögu við Jan Mayen nema að gerðu samkomulagi við Ísland. Þessar aðstæður breyttust mjög mikið þegar Danir tóku þá ákvörðun að færa út landhelgi við Austur-Grænland.

Okkur var tilkynnt ákvörðun Dana nú í vetur, síðla vetrar, og jafnframt var okkur tilkynnt, að útfærslan við Austur-Grænland mundi koma til framkvæmda 1. júní n. k. Ýmsir í íslensku samninganefndinni sögðu þá, eins og menn muna, að það væri ekkert að marka ráðagerðir Dana, þetta væru aðeins hótanir sem ekki mundu verða framkvæmdar og við þyrftum engar áhyggjur af þeim að hafa. Ég held að ferð íslenskra embættismanna nýlega til viðræðna við Dani úti í Kaupmannahöfn, þar sem Danir raunverulega hafna því með öllu að ræða sérstaklega við Íslendinga um þessi mál, hafi sannfært menn um að hér var ekki um að ræða neina innantóma yfirlýsingu af Dana hálfu, þeir ætluðu sér og væru staðráðnir í því að láta útfærsluna við Austur-Grænland koma til framkvæmda eftir nokkra daga.

Þessi staðreynd breytti allri stöðu málsins, því að norska ríkisstj. tjáði þeirri íslensku að hún væri nauðbeygð til að framkvæma útfærslu við Jan Mayen ekki síðar en Danir færðu út við Austur-Grænland til að geta haldið fram kröfu sinni um skiptingu á fiskveiðalandhelgi og efnahagslandhelgi milli Jan Mayen svæðisins og Austur-Grænlands svæðisins.

Það voru ýmsir menn, sem gjarnan þola ekki að heyra óþægilegar staðreyndir, sem heldur því statt og stöðugt fram að þetta væri ekkert að marka, sem vildu stinga höfðinu í sandinn eins og strúturinn og láta eins og þessar yfirlýsingar Norðmanna og Dana væru marklaust hjóm, við þyrftum ekki að taka þær alvarlega, þegar á reyndi mundi slík útfærsla ekki koma til framkvæmda. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir eftir þær könnunarviðræður sem nú hafa farið fram, að þessi skoðun er út í hött. Það er órökrétt að búast alltaf við því að þær ákvarðanir erlendra ríkja, sem koma Íslendingum illa, séu aðeins innantómar hótanir. Það er aðferð strútsins að stinga höfðinu í sandinn, en sams konar aðferð er að loka ávallt eyrunum fyrir illum tíðindum. Það hefur ekki verið háttur okkar Íslendinga að gera slíkt, enda mundum við ekki hafa náð þeim árangri, sem við höfum þó náð í landhelgismálum og í öðrum málum í samskiptum við erlendar þjóðir, ef við hefðum ekki ávallt reynt að meta atburði á alþjóðavettvangi af raunsæi og stöðu okkar í samræmi við afstöðu annarra ríkja og þá atburði sem uppi eru og við vitum að eru í vændum.

Þess vegna var það, að eftir að tilkynningin barst frá dönsku ríkisstj. um útfærslu við Austur-Grænland mátti okkur ljóst vera — öllum skynsömum mönnum — að Norðmenn mundu grípa til þess ráðs að færa út við Jan Mayen ekki síðar en útfærsla Dana við Austur-Grænland kæmi til framkvæmda. Auðvitað verða Íslendingar sem skynsamir menn að taka tilliti til nýrra aðstæðna, hvort sem þær nýju aðstæður eru þeim að skapi eða ekki. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir atburðum sem mönnum eru ekki að skapi.

Það er satt og rétt, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan, að fyrsta dag viðræðnanna í Osló fyrir nokkrum dögum, sem mun hafa verið fimmtudagur, stóð allt fast, m. a. vegna þess að þeir, sem þá tóku aðallega þátt í viðræðunum af hálfu Norðmanna, voru þjóðréttarfræðingar þeirra, sérfræðingar í þjónustu utanrrn. og ýmsir hagsmunaaðilar. Það er ekkert leyndarmál, ég held að ekki sé verið að rjúfa neinn trúnað þó að það sé látið koma fram, að þessir aðilar, þ. e. sérfræðingar Norðmanna og ráðunautar í hafréttarmálum annars vegar og hagsmunaaðilar hins vegar, voru á móti því að samið yrði við Íslendinga á svipuðum grundvelli og gert hefur verið. Vil ég í því sambandi leyfa mér að benda á þær fregnir, sem m. a. hafa komið í íslenskum blöðum, að fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna í Noregi, sem klufu sig út úr norsku samninganefndinni og tóku afstöðu gegn gerðum ráðh. sinna, lýsa því nú yfir í viðtölum við blöð í Noregi að þeirra helsta von stefni nú hingað til Alþingis Íslendinga, nú treysti þeir, hagsmunaaðilarnir í Noregi, norskir sjómenn og útvegsmenn, sem tóku afstöðu gegn þessum samningum, á að Alþingi Íslendinga taki þá afstöðu, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að lýsa áðan, og felli þetta samkomulag. Sú furðulega staða er sem sé komin upp, að það er orðið sameiginlegt kappsmál hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og þeirra aðila í Noregi sem vilja sýna okkur Íslendingum mesta ósanngirni, að Alþingi Íslendinga neiti að staðfesta þennan samning. Ég er ekki að gera hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og flokki hans upp neinar illar hvatir í þessu sambandi, síður en svo. En þessi staðreynd sýnir okkur að sjálfsögðu svart á hvítu hvaða augum þeir aðilar í Noregi, sem eru ósanngjarnastir í garð okkar, líta þetta samkomulag. Þeirra von er sú, að Íslendingar felli það.

Það er rétt, eins og ég sagði áðan, að fyrsta dag viðræðnanna í Osló var allt strandað vegna þess að það voru sérfræðingar og hagsmunaaðilar sem fyrst og fremst réðu ferðinni í þeim samningaviðræðum sem þá stóðu yfir. Það var fyrst og fremst ræðst við um fiskiveiðimál milli undirnefnda sem í sátu fulltrúar hagsmunaaðila og þjóðréttarfræðingar beggja landa. Og það er líka rétt sem hefur komið fram hér, að við í íslensku viðræðunefndinni ræddum þá í fullri alvöru um að þessar viðræður væru tilgangslausar og rétt væri af okkur að halda heim að óbreyttu. Ég vil einnig geta þess, sem raunar hefur komið fram annars staðar, að á sama tíma og þetta var voru viðræður um launamál og launasamninga á milli fulltrúa Alþýðusambands Íslands annars vegar og norska alþýðusambandsins hins vegar og í þessum viðræðum bar Jan Mayen málin m. a. á góma. Ég vil einnig láta það koma fram, að hjá hinum norsku og íslensku fulltrúum alþýðusambandanna, sem ræddust þar við, en það voru æðstu menn þessara sambanda hvorra um sig, forseti Alþýðusambands Íslands og forseti norska alþýðusambandsins, ásamt ýmsum helstu forustumönnum beggja sambandanna, var mikill áhugi á því og gagnkvæmur að Jan Mayen deilan yrði leyst með samningum. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að áhrif íslensku verkalýðsleiðtoganna og þeirra norsku, þegar málin stóðu svona að loknum fyrsta degi viðræðnanna, áhrif þessara aðila á afstöðu norsku ríkisstj. höfðu talsvert að segja um þá breyttu afstöðu sem kom fram hjá norsku ríkisstj. og norsku viðræðunefndinni þegar daginn eftir. Þetta er mér mætavel kunnugt um og þetta veit ég t. d. að þeir fjórir aðilar frá Alþýðusambandi Íslands, sem voru staddir úti í Osló og tóku þátt í þessum viðræðum, væru fúsir til að staðfesta ef eftir því væri leitað. Það var þannig fyrst eftir þennan dag og eftir að hæstv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson hafði látið afstöðu íslensku samninganefndarinnar koma fram við kollega sinn í Noregi að breyting varð á afstöðu norsku viðræðunefndarinnar, sem leiddi síðan til þess að sá samningur var gerður sem hér greinir frá.

Ég vil að lokum í þessu sambandi rifja það upp, að meginatriði málsins, eins og það er nú vaxið og eins og það var lagt fyrir okkur og eins og það er lagt fyrir Alþ., er ekki hvort eigi að halda áfram viðræðum í þeim tilgangi að reyna að ná samningum fyrir útfærslu Norðmanna við Jan Mayen, sem verður ekki síðar en 1. júní n. k. Meginatriði málsins er að um miðjan dag á laugardag, síðasta daginn sem viðræður fóru fram í Osló milli íslensku og norsku nefndanna, komu utanrrh. Íslands og utanrrh. Noregs að máli hvor við sína sendinefnd með texta þess samkomulags sem hér liggur fyrir. Báðir ráðh. lögðu málið þannig fyrir, hvor í sinni sendinefnd og sameiginlega á fundum nefndanna, að þeir sögðu: Við teljum að þetta sé það samkomulag sem fáanlegt er, sem hér liggur á borðinu fyrir framan okkur. Okkar álit er að tilgangslaust sé að reyna að halda samningaviðræðum áfram ef samningar verða ekki gerðir á þessum grundvelli, og við óskum eftir viðbrögðum viðræðunefndarmanna við því, hvort þeir eru þess fýsandi að veita þessu samkomulagi, eins og það stendur nú, atfylgi sitt eða hvort þeir telja réttara að hætta viðræðunum og þá verði ekki samningar gerðir áður en útfærslan kemur til framkvæmda. — Þannig var málið lagt fyrir af hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni og af norska utanrrh. Það var álit þeirra, að málið væri komið á það stig að samningur lægi fyrir sem menn yrðu að taka afstöðu til játandi eða neitandi.

Ég vil taka það fram, að ég er sammála hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni í þessu mati hans. Ég tel að eins og málin stóðu um miðjan dag á laugardag hafi ekki verið von til þess að frekari viðræður skiluðu árangri, m. a. vegna þeirrar staðreyndar, sem var þá orðin augljós, að norska samninganefndin hafði þá þegar klofnað og fulltrúar hagsmunaaðila í norsku samninganefndinni, fulltrúar Norges fiskerlag, voru komnir í andstöðu við sína eigin ráðh. um þann texta sem fyrir lá. Við vissum það líka, þó að það færi ekki hátt, að helstu ráðgjafar norsku ríkisstj. í þjóðréttarmálum, a. m. k. annar af tveimur sem í viðræðunefndinni sat, voru vægast sagt neikvæðir í garð þessa samkomulags. Þess vegna tel ég að það hafi verið rétt mat hjá hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni, sem var staðfest af starfsbróður hans, norska utanrrh., að málin væru komin á það stig sem mál komast ávallt á fyrr eða síðar í samningaviðræðum, að menn yrðu að taka afstöðu til þeirra samningsdraga sem fyrir liggja. Annaðhvort fallast menn á að gera þá samninga, sem fyrir liggja, eða til samninga kemur ekki. Þetta kemur ávallt upp í öllum samningum, hvað svo sem samningarnir eru kallaðir, hvort það eru samningar á milli ríkja, samningar á milli einstaklinga, samningar á vinnumarkaði eða aðrir slíkir samningar. Það kemur ávallt sú stund að menn verða að taka afstöðu til eða frá, með eða móti. Það kemur ávallt sú stund sem frekari viðræður eru ekki taldar skila árangri. Þannig lagði hæstv. utanrrh. málið fyrir okkur. Það var hans skoðun að sú stund væri upp runnin. Ég tek það fram, að ég tel að sú skoðun hans sé rétt.

Þetta finnst mér vera meginkjarni málsins í sambandi við þessa samningagerð. Meginkjarninn er ekki sá, hvort eitthvað í samningnum sé þess eðlis að við Íslendingar hefðum kosið að hafa það öðruvísi. Meginkjarninn er sá, að forustumenn beggja viðræðunefndanna voru sammála um að nú væri komið á það stig í samningaviðræðunum að menn yrðu að taka afstöðu og frekari tilraunir væru tilgangslausar. Þetta vil ég biðja þm. að hafa sérstaklega'í huga. Málið er lagt með þessum hætti fyrir okkur, ekki bara af hæstv. utanrrh., ekki bara af meiri hl. íslensku viðræðunefndarinnar, heldur er þessi skoðun studd af yfirlýsingu Norðmanna, bæði í viðræðunefnd og á hinum sameiginlegu fundum.

Við töluðum um það í upphafi samningaviðræðnanna, að einkum bæri að hafa þrjú meginatriði í huga í sambandi við viðræðurnar við Norðmenn. Fyrst af þessum meginatriðum var að það yrði að fást skilyrðislaus viðurkenning af hálfu Norðmanna á óskertri 200 mílna efnahagslögsögu Íslands í átt til Jan Mayen. Það er ekkert launungarmál að norsku þjóðréttarfræðingarnir töldu að þeir hefðu lagaleg rök fyrir því að krefjast þess að miðlína milli landanna yrði látin ráða. Við Íslendingar kröfðumst þess hins vegar, að ef Norðmenn teldu sig hafa slík lagaleg rök legðu þeir þau til hliðar og viðurkenndu að fullu 200 mílna útfærsluna í átt til Jan Mayen. Þetta gera Norðmenn í aðfaraorðum samningsins sjálfs.

Í öðru lagi lögðum við Íslendingar mikla áherslu á að Norðmenn féllust á að við fengjum réttindi til yfirráða og umsvifa á landgrunninu milli 200 mílnanna íslensku og Jan Mayen. Við lögðum mikla áherslu á að þetta mál yrði leyst í þessari samningalotu og fundin sú regla sem nota ætti til að framkvæma þessa skiptingu. Það tókst ekki, en hins vegar liggur það fyrir í þessu samkomulagi að Norðmenn viðurkenna, og það er okkur mikils virði, að við eigum rétt til þess að krefjast íslenskra yfirráða á þessu landgrunnssvæði. Þetta er viðurkennt í samningunum af hálfu Norðmanna. Réttur Íslendinga í þessum efnum er viðurkenndur. Það er hins vegar eftir að ákveða hann nákvæmlega með samningum á milli ríkjanna. Í textanum eru til þess ætlaðir fimm mánuðir og norski utanrrh. skuldbindur sig til að færa ekki út efnahagslögsögu við Jan Mayen, a. m. k. ekki á árinu 1980. Nægur tími ætti því að gefast til að ganga frá þessu samkomulagi. En meginatriði málsins er þó að í samkomulaginu er tvímælalaust viðurkenndur réttur Íslendinga til að gera kröfu til yfirráða á landgrunninu utan 200 mílna marka Íslands. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði og í raun réttri lykilatriði í þessu sambandi að fá viðurkenningu með þessum hætti afdráttarlaust.

Þriðja atriðið, sem einkum og sér í lagi hefur verið rætt um og er í þessu samkomulagi, er varðandi fiskveiðarnar. Ég skal fúslega viðurkenna að sá þáttur samkomulagsins er sá þáttur sem við Íslendingar megum vera minnst ánægðir með. En ég vil þó ekki líkja því saman að hafa í samkomulagi þau atriði, sem í þessu samkomulagi eru, t. d. um loðnuveiðarnar, eða hafa enga samninga þegar að því kemur að útfærslan kemur til framkvæmda við Jan Mayen og síðar við Grænland. Ég líki því ekki saman hvað aðstaða okkar í væntanlegum viðræðum við Efnahagsbandalag Evrópu og Dani — eða ég ætti öllu heldur að segja við Dani og Efnahagsbandalag Evrópu — er miklu sterkari, hafandi það í höndunum í fyrsta lagi, að Norðmenn viðurkenna í samningi að sanngjarnt sé að Íslendingar ákveði heildarmagnið á loðnu. Við getum sagt við Efnahagsbandalag Evrópu: Hér er þjóð sem hefur yfirráðarétt á þessu hafssvæði og hefur mikilla hagsmuna að gæta, Norðmenn. Hún hefur viðurkennt í samningum við okkur að Íslendingar eigi að ákveða heildaraflamagnið á loðnu. Hún telur það vera sanngjarnt. — Telja menn slíka stöðu ekki miklu sterkari fyrir okkur Íslendinga í viðræðum við Efnahagsbandalag Evrópu en ef við hefðum ekki slíka viðurkenningu? Og svo er annað. Menn gera mikið veður út af því, að við séum að viðurkenna að Norðmenn eigi 15% af heildarafla loðnu eins og hann verður ákveðinn hverju sinni, — en gleyma menn því ekki þá, að við höfum það líka í höndunum gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu í væntanlegum viðræðum við þá, að Norðmenn viðurkenna í þessu samkomulagi að sanngjarnt sé að Íslendingar hafi 85% af heildaraflanum? Það skiptir okkur hreint ekki litlu máli að hafa slíka viðurkenningu í höndunum í væntanlegum samningaviðræðum okkar við Efnahagsbandalag Evrópu og Dani, að hafa viðurkenningu í höndunum frá þjóð sem á gríðarlega mikilla hagsmuna að gæta og hefur þarna tiltekin yfirráð. Þessi þjóð hefur, þegar við göngum til samningaviðræðna við Efnahagsbandalag Evrópu, í fyrsta lagi viðurkennt, að sanngjarnt sé að Íslendingar eigi að ákveða heildaraflamagn loðnu, og í öðru lagi viðurkennt, að sanngjarnt sé að Íslendingar eigi kröfu á allt að 85% af heildaraflamagninu sem tekið er á þessu hafsvæði.

Við skulum gæta mjög vel að því í þeim umræðum, sem fara fram um þetta mál á Íslandi, að hamra ekki svo á hinum veiku atriðum í þessu samkomulagi að við gleymum þeim sem okkur skipta mestu máli og okkur eru hagfelldastir. Það er ekki jákvætt fyrir okkur Íslendinga í væntanlegum viðræðum við Efnahagsbandalag Evrópu og í hugsanlegum deilum við Norðmenn út af atriðum sem við fáum ekki enn þá séð í þessu samkomulagi, en kunna að orka tvímælis. Það er ekki hentugt fyrir okkur í slíkri stöðu, að flestar þær fréttir, sem berast af umræðum héðan, séu fréttir af umræðum um neikvæð atriði. Það er ekkert siður okkar styrkur að hafa viðurkenningu í höndunum frá Norðmönnum um að sanngjarnt sé að Íslendingar veiði 85% af heildaraflamagni loðnunnar sem tekin er af þessu svæði. Það er ekki síður styrkur fyrir okkur að hafa slíkt í höndunum en fyrir Norðmenn, þegar þeir fara að tala við þessa sömu aðila, að hafa í höndunum viðurkenningu frá okkur um að við teljum sanngjarnt að Norðmenn geti tekið allt að 15% af aflamagninu — vel að merkja: ef þeir geta tekið það utan fiskveiðilögsögu Íslands, því að þeir fá ekki leyfi til að sækja svo mikið sem eina loðnu inn fyrir fiskveiðilögsögu Íslands þó að við fáum leyfi til að veiða jafnmikið af loðnu og þeir innan fiskveiðilögsögu Jan Mayen.

Ég vil í þessu sambandi leiðrétta tvennt sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. áðan þegar hann rakti aðdraganda að þessum samningum.

Í fyrsta lagi mátti marka af máli hans, að í viðræðum, sem fram fóru s. l. vor, þar sem rætt var við Norðmenn um að þeim væri heimilað að veiða á því ári 90 þús. lestir af loðnu við Jan Mayen, hafi verið gefin skuldbindandi yfirlýsing af Íslands hálfu um að heildaraflamagnið yrði ekki yfir 600 þús. lestir. Það var ítrekað farið fram á það af hálfu Norðmanna, að Íslendingar gæfu slíka yfirlýsingu, en slík yfirlýsing var aldrei gefin af hálfu Íslendinga. Þetta vildi ég láta koma fram því að það mátti leggja annan skilning í orð hæstv. utanrrh. áðan.

Í öðru lagi lét hæstv. utanrrh. svo um mælt, að sú krafa hafi aldrei verið sett fram af opinberri hálfu á Íslandi, að Íslendingar ættu að hafa í sínum höndum alfarið ákvörðunarréttinn um heildaraflamagn loðnu. Þetta er ekki rétt heldur, því að fyrrv, sjútvrh. Kjartan Jóhannsson setti þessa kröfu hvað eftir annað fram, m. a. í viðtölum við norsk blöð.

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að íslensku stjórnmálaflokkarnir og fulltrúar þeirra, bæði í ríkisstj. og í landhelgisnefnd, hafa á umliðnum mánuðum iðulega sett fram hugmyndir sínar á prenti í tillögubúningi, eins og hv. síðasti ræðumaður Ólafur Ragnar Grímsson gat um. Þetta gerði hv. þm. Matthías Bjarnason á sínum tíma í nafni síns flokks, þetta gerði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson líka, og hæstv. núv. utanrrh., þáv. forsrh., gaf ýmsar yfirlýsingar í blöðum í þessu sambandi. Hv. þm., þáv. hæstv. utanrrh., Benedikt Gröndal gerði þetta líka. Hann lagði einnig fram skriflegar hugmyndir á fundi landhelgisnefndar. En þessum hugmyndum og skriflegu tillögum mega menn ekki alfarið jafna saman. Það er ekki mitt hlutverk að skýra afstöðu Sjálfstfl., síður en svo, sjálfstæðismenn geta gert það sjálfir, en menn skulu hafa í huga hvað verið var að gera með þessum tillöguflutningi.

Tillögur hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, sem hann lagði fram á fundi landhelgisnefndar á sínum tíma, voru ekki um hvernig hugsanlegur samningur ætti að líta út. Tillögur Matthíasar Bjarnasonar voru um hvaða mál við ættum að taka upp í fyrstu lotu við Norðmenn. Hann rakti það í einstökum efnisatriðum og raðaði því upp, hvaða tillögur og hvaða lausnir við ættum upphaflega að fara fram á á fyrsta viðræðufundi við Norðmenn að fengist afstaða til. Við ættum að gera tilraun til þess að fá þeim framgengt, taldi hann, hverju atriðinu á eftir öðru, leggja þau fyrir Norðmenn og fá afstöðu til þeirra. Þetta voru tillögur Matthíasar Bjarnasonar. Tillögur Matthíasar Bjarnasonar voru um það, hvað íslenska samninganefndin ætti að leggja fram í upphafi viðræðnanna. Um það var aldrei neinn ágreiningur. Það var aldrei og hefur aldrei verið neinn ágreiningur um það. Það er illt verk að gera meira úr ágreiningi milli Íslendinga í þessu máli en efni standa til. Um þessar upphaflegu hugmyndir um kröfur okkar Íslendinga í upphafi viðræðna hefur aldrei verið ágreiningur. Það, sem hæstv. þáv. utanrrh., Benedikt Gröndal, var hins vegar að gera, var að hann var að reyna að setja á blað, ekki upphaflegu kröfurnar sem við ættum að leggja fram, það lá ljóst fyrir hverjar þær ættu að vera, heldur var hann að reyna að setja á blað það sem hann hélt að væri raunhæf hugmynd um það, til hvaða niðurstöðu samningaviðræðurnar gætu hugsanlega leitt. Síðan lagði hann það álit sitt fyrir fulltrúa flokkanna í landhelgisnefndinni og spurði:

Ef viðræðurnar enda hugsanlega svona, gætuð þið þá átt hlut að því að gera slíkan samning?

Hv. þm. Matthías Bjarnason var að vinna að upphaflegri kröfugerð okkar Íslendinga á hendur Norðmönnum og tók sérstaklega fram að hann vildi að við legðum þessar kröfur fram, hvert atriðið á eftir öðru, og fengjum viðbrögð við hverju atriði um sig hjá Norðmönnum. Hv. þm. Benedikt Gröndal, hæstv. þáv. utanrrh., var hins vegar að reyna að fá fram mat manna á því, hver væri líkleg niðurstaða í þessum viðræðum og hvort íslensku fulltrúarnir í landhelgisnefndinni gætu sæst á þá niðurstöðu sem hann taldi vera líklega miðað við þá þekkingu, sem hann hafði yfir að ráða, og þær upplýsingar, sem hann hafði í höndunum.

Öll þau gögn, sem fram voru lögð á fundum landhelgisnefndar, eru trúnaðarmál. Þannig tel ég mig ekki þess umkominn að lesa upp úr plöggum, sem aðrir hafa lagt fram og árituð voru trúnaðarmál, nema með þeirra leyfi eða leyfi viðkomandi ráðh. Hins vegar hef ég fengið leyfi hv. þm. Benedikts Gröndals til að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem hann lagði fram í landhelgisnefndinni 6. ágúst í haust. Og ég minni enn á að þetta var mat hæstv. þáv. utanrrh. Benedikts Gröndals á því, hvaða niðurstaða gæti e. t. v. orðið líkleg af viðræðum Íslendinga og Norðmanna í þessu sambandi. — Ég hef fengið leyfi hv. þm. til að skýra frá inntaki þessa plaggs. Og hvert er inntak þess? Því er lýst í fimm töluliðum.

Í fyrsta lagi veiði Norðmenn ekki meira en 90 þús. lestir af loðnu utan íslenskrar lögsögu til áramóta 1979–1980. Þetta var mat hæstv. þáv. utanrrh. á líklegri niðurstöðu af ströngum samningaviðræðum. Og hvað þýðir þetta, ekki fyrir árin 1979–1980, heldur fyrir loðnuveiðarnar í heild? Þetta þýðir, miðað við þær forsendur sem menn þá voru að ræða um, að það var mat hæstv. utanrrh. að það kynni að vera endanleg niðurstaða að loðnukvóti til Norðmanna yrði eitthvað nálægt 15%, eins og samið var um síðar.

Í öðru lagi var það niðurstaða hæstv. utanrrh. Benedikts Gröndals þá, að e. t. v. gætu viðræðurnar endað á ákvæði um að fiskveiðihagsmunir Íslendinga á Jan Mayen svæðinu yrðu tryggðir til frambúðar með viðurkenningu á helmingsrétti þeirra til veiða á flökkustofnum. Þetta er niðurstaðan, hæstv. forseti. Niðurstaðan er sú, að það var samið um helmingsrétt Íslendinga til veiða á loðnu. Að vísu ekki helmingsrétt til veiða á öðrum flökkustofnum, en eins og segir í samkomulaginu, að Íslendingar geti tekið á Jan Mayen svæðinu sanngjarnan hluta af veiðum þeirra flökkustofna, auk loðnu, sem um semst að Íslendingar hafi á þessu svæði.

Þriðja hugmynd þáv. hæstv. utanrrh. var að e. t. v. yrði sett í samning að stofnuð yrði íslensk-norsk fiskveiðinefnd er gerði tillögur til ríkisstj. um aflamagn, kvóta fisktegunda svo og annað er við kemur fiskveiðum á svæðinu. Um þetta var samið.

Fjórða hugmynd hæstv. þáv. utanrrh. var að Norðmenn fengjust til að fallast á núverandi efnahagslögsögu Íslands andspænis Jan Mayen af sanngirnisástæðum. Þetta er í samkomulaginu.

Fimmta atriðið í hugmyndum hæstv. þáv. utanrrh., þegar hann var að reyna að leggja raunsætt mat á það sem hann taldi að gæti orðið niðurstaða af samningaviðræðum, var að samið yrði um að Íslendingar áskildu sér allan rétt varðandi hafsbotn á Jan Mayen svæðinu, enda yrði um það samið í samræmi við niðurstöðu hafréttarráðstefnu um þau mál o. s. frv. Þetta var svo samið um. Það er jafnvel gengið heldur lengra í samkomulaginu en þarna er hreyft, vegna þess að umfram það, sem þarna segir, viðurkenna Norðmenn í samkomulagsuppkastinu að Íslendingar eigi þarna kröfu.

Ég vil leyfa mér að skýra frá þessu til að varpa nokkru ljósi á að það, sem hæstv. þáv. utanrrh., Benedikt Gröndal, var að gera 6. ágúst í haust, var að reyna að leggja fyrir fulltrúa í landhelgisnefnd — ekki hugmyndir sínar um þær kröfur sem Íslendingar ættu að leggja fram eða um hvaða stefnu Íslendingar ættu að hafa í þessum málum, heldur hugmyndir sínar byggðar á hans mati um hvað væri líklegt að endanlegur texti mundi líta út, svo að menn hefðu það í huga frá upphafi. Hæstv. þáv. utanrrh. vildi fá að vita hver væri afstaða fulltrúa Íslands í landhelgisnefnd til þessara óskuldbindandi hugmynda sinna. Fyrir þetta var hæstv. utanrrh. legið mjög á hálsi í blöðum og málflutningur hans og hugmyndir mjög rangtúlkaðar. Ég segi núna, nokkrum mánuðum síðar: Leyfum atburðarásinni að dæma. Niðurstaðan hefur orðið sú, að sá samningur, sem lagður er hér fram af hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni, fyrrum form. Framsfl., og studdur er af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, fulltrúa Sjálfstfl. og Sjálfstfl. væntanlega öllum, er samningur sem er byggður á þeim hugmyndum sem lýst er í skjali Benedikts Gröndals frá 6. ágúst 1979. Það hefur sýnt sig að mat hæstv. þáv. utanrrh., sem hann lagði fyrir landhelgisnefnd 6. ágúst s. l. var raunhæft. Og þegar menn voru búnir að kynna sér málið, eins og þáv. hæstv. utanrrh. hafði gert, búnir að skoða það frá öllum hliðum, búnir að taka þátt í mörgum viðræðum um málið o. s. frv. reyndust menn reiðubúnir til að ganga að samkomulagi sem byggist að öllu leyti á því mati sem hæstv. þáv. utanrrh. Benedikt Gröndal lagði fram óskuldbindandi af sinni hálfu 6. ágúst í haust — enda var það nú svo, að minn ágæti vinur, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur þetta mat í plöggum sínum, þóttist ekki þurfa að ræða ýkjamikið við okkur Alþfl.-menn í þessu sambandi. Hann gerir það e. t. v. síðar.

Um afstöðu Alþb. til þessara samninga þarf ekki að hafa mörg orð. Við skulum gera okkur það fyllilega ljóst, sem flestöllum þm. a. m, k. er orðið ljóst, að Alþb. hefur aldrei viljað fallast á neinar samkomulagslausnir í landhelgismálum eða í viðkvæmum deilumálum við nálæg ríki. Alþb. hefur aldrei, allt frá því að þessar deilur uppvöktust, viljað samþykkja neina samkomulagslausn á þeim. Alþb. hefur þá sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálaflokka, að það hefur alltaf verið á móti öllum samningum sem gerðir hafa verið í landhelgismálunum. Nú eru samningar misgóðir. Enginn maður með fullu viti mundi halda því fram núna að allir samningar, sem Íslendingar hafi gert frá upphafi í landhelgismálum, séu vondir. Einhverjir af þeim samningum hljóta þó að hafa verið a. m. k. skikkanlegir. En Alþb. hefur alltaf verið á móti. Sérstaða Alþb. er sú, að það er flokkur sem getur ekki undir neinum kringumstæðum fallist á það sjónarmið að menn semji til sigurs í viðkvæmum deilumálum við nálæg ríki. Alþb. hefur alltaf verið á móti slíku samkomulagi, alltaf verið á móti slíkum samningum, ávallt þegar þeir hafa verið gerðir, og það verður alltaf að vera á móti slíkum samningum, hvenær svo sem þeir verða gerðir, og mun verða það. A. m. k. verð ég þeirrar skoðunar þangað til ég sannreyni annað.

En það er líka annað sem er alveg ljóst. Þó svo að Alþb. hafi þessa afstöðu er í rauninni ekkert að marka hana vegna þess að Alþb. lætur þessa afstöðu sína aldrei hafa áhrif á afstöðu til þjóðmála. Alþb. hefur verið í ríkisstj. þegar gerðir hafa verið svokallaðir landráðasamningar í landhelgismálinu. Alþb.-menn hafa flutt langar ræður á Alþ. um landsölur o. fl. Þetta var óvanalega hógvær ræða hjá hv. þm. Ólafi Ragnar Grímssyni, en þeir hafa sagt þeim mun meira í blöðum. En þeir hafa alltaf tekið það fram, ef þeir hafa setið í ríkisstj., að jafnvel þó að þeir séu þessarar skoðunar og allir samstarfsmenn þeirra í ríkisstj. séu hinir verstu menn muni skoðun Alþb. að sjálfsögðu ekki hafa nein áhrif á afstöðu þeirra til samstarfsflokka sinna í ríkisstj. eða til setu Alþb. í ríkisstj. Þess vegna má segja að það sé þegjandi samkomulag milli flokka þingsins um að ganga út frá því, ávallt þegar samkomulag er gert um svona mál, að Alþb. sé á móti og það verði að gefa góðan tíma í sambandi við skipulagningu þingsins í umræðum um þessi mál svo að Alþb. geti fengið nógan tíma til að blása út. En það er líka þegjandi samkomulag allra flokka þingsins um það, að þó svo að hvessi svona hjá þeim Alþb.-mönnum og bylji svona hátt í þeim verði að virða leikreglurnar. Samt er ekkert að marka þetta, vegna þess að það hefur engin áhrif á afstöðu Alþb. til samstarfsflokka sinna eða ríkisstj. ef þeir sitja í ríkisstj., enda þurfa menn ekki nema líta upp í ráðherrastólana. Skoðið þið einhvern tíma, hv. alþm., Hjörleif Guttormsson þar sem hann situr þarna í sæti sínu. Láta menn sér detta í hug að Hjörleifur Guttormsson fari að hlaupa úr ríkisstj. fyrir eitthvað svona? Ekki aldeilis! Ég sé á hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni að hann er mér hjartanlega sammála. Auðvitað vitum við þetta allir saman. Hann Hjörleifur á eftir að virkja Bessastaðaá, hann á eftir að byggja sykurverksmiðju, hann á eftir að byggja saltverksmiðju, hann á eftir að byggja aðra sykurverksmiðju. Haldið þið að hann Hjörleifur Guttormsson fari að hlaupa úr ríkisstj. vegna þessa máls? Nei, það gerir ekki Hjörleifur Guttormsson. Hann tekur fram, eins og Alþb. gerir, að auðvitað séu þeir menn, sem Alþb. er í samstarfi við, hinir verstu menn á allan hátt: þeir hafi fórnað hagsmunum Íslands, þeir hafi selt land, þeir hafi brugðist sjálfum sér, þeir hafi svikið stjórnarsáttmálann að sjálfsögðu, þeir hafi svikið kjósendur sína og landið. Þetta er afdráttarlaus skoðun Alþb. En auðvitað taka þeir það jafnframt fram, að þó svo að þeir séu þessarar skoðunar um samstarfsmenn sína og ríkisstj. hafi það að sjálfsögðu ekki nokkur áhrif á afstöðu þeirra til samvinnu við þessa sömu landsölumenn eða á afstöðu til setu Alþb. í ríkisstj.

Mér datt í hug áðan mönnum til gamans, því að menn verða að létta sér þessar umr. svolítið, því að það er eitt af því slæma sem verður yfir okkur að ganga á Alþingi Íslendinga þegar svona mál eru til umr. að þurfa að hlusta mikið á Alþb.-menn, — mér datt í hug ein lítil vísa. Það er orðinn siður hér á Alþ. upp á síðkastið að hafa yfir vísur þegar svona umr. standa yfir. Ein lítil vísa getur lýst afstöðu Alþb. til samstarfsmanna sinna í þessu máli. Alþb. hefur þessa afstöðu til samstarfsmanna sinna, sbr. yfirlýsingar þeirra fyrr og síðar. Vísan er svona:

Þeir hafa sem hrukkur og blettir

á heiður vors þings verið settir.

Þessir landráðamenn

stunda landsölu enn,

og við elskum þá heitar á eftir.

Þetta er dæmigerð afstaða þeirra Alþb.-manna í svona málum. Þeir taka skýrt og skorinort fram að auðvitað séu samstarfsmenn þeirra svikarar við land og þjóð, stjórnarsáttmálann, kjósendur sína, fortíð og framtíð sína, en að sjálfsögðu muni sú staðreynd engin áhrif hafa á sambúðina í ríkisstj.

Herra forseti. Ég held að ég hafi þessi orð ekki miklu fleiri. Ég tel að það sé ákaflega mikilsvert fyrir okkur þrátt fyrir allt að geta gert þennan samning við þessar aðstæður, ekki bara til þess að binda Norðmenn í sambandi við útfærslu þeirra á Jan Mayen slóðinni, til að fá viðurkenningu á okkar rétti í sambandi við landgrunn og fiskveiðar við Jan Mayen, heldur jafnvel miklu fremur vegna þess að slíkar viðurkenningar af hálfu Norðmanna, eins og ótvírætt eru í þeim samningi, eru ómetanlegt vopn fyrir okkur í þeim viðræðum sem fram undan eru við Efnahagsbandalag Evrópu vegna útfærslunnar við Austur-Grænland, en það útfærslumál er okkur miklu stærra og þýðingarmeira hagsmunamál en þetta Jan Mayen mál. Og það er mikið atriði fyrir okkur og getur ráðið algjörum úrslitum að geta í þeim viðræðum bent á ýmis lykilatriði í þessu samkomulagi, svo sem að Norðmenn telja sanngjarnt og viðurkenna að sanngjarnt sé að Íslendingar ákveði heildarkvóta loðnuveiðanna. Norðmenn viðurkenna að sanngjarnt sé að taka sérstakt tillit til séraðstæðna Íslendinga þannig að Íslendingar fái meiri rétt til yfirráða, bæði á auðlindum hafs og hafsbotns á þessu svæði, en nokkur önnur þjóð.

Ég tel að þær yfirlýsingar, sem þó voru fólgnar þrátt fyrir allt af hálfu Norðmanna í þessu plaggi, séu okkur Íslendingum mjög þýðingarmikið og mikilvægt vopn í þeim viðræðum sem fyrir dyrum standa við Efnahagsbandalag Evrópu um útfærslu við Austur-Grænland, vegna þess að þó svo að norskir stjórnmálamenn hafi verið okkur erfiðir í þessum viðræðum held ég að íslensku nefndarmennirnir séu allir sammála um að þakka sínum sæla fyrir að hafa ekki þurft að semja um þessi mál við norsku embættismennina og fulltrúa hagsmunaaðilanna í Noregi. Þeir menn, sem við eigum eftir að mæta hjá Efnahagsbandalagi Evrópu, verða ekki fyrst og fremst stjórnmálamenn. Það verða ekki menn sem láta sig einhverju skipta, hvar Ísland skipar sér í félagi þjóða, eða taka sanngjarnt tillit til íslenskra hagsmuna. Þeir menn, sem koma til með að mæta okkur ef við förum til Brüssel, eru menn eins og Evensen og Amlie. Það eru menn sem hugsa ekki, eins og stjórnmálamenn, um sanngirni og pólitík. Það eru menn sem hugsa í beinhörðum peningum. Og þá er okkur styrkur að því að hafa þær viðurkenningar sem ótvírætt felast í þessum samningi. Þess vegna, e. t. v. framar öðru, mun ég greiða samningnum atkvæði mitt.