16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

186. mál, hafsbotnsréttindi Íslands og samvinna við Færeyinga

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann nú á síðkvöldi til að ræða þetta mál mikið. Menn þekkja það.

Þessi till. er í fimm liðum. Í fyrsta lagi að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að fylgja eftir kröfum samkv. ályktun Alþ. frá 22. des. 1978. Í öðru lagi að mótmælt sé öllum tilraunum Breta og Íra til að teygja hafsbotnsréttindi sín til vesturs út fyrir 200 mílur.

Mönnum finnst kannske skrýtið að Írar og Bretar megi ekki fara út fyrir 200 mílur þegar við ætlum okkur það. En það er álit margra jarðfræðinga — kannske flestra — að þarna sé ekki um eðlilega framlengingu að ræða. Eins og áður hefur margsinnis komið fram, bæði hér og annars staðar, er hin upphaflega klofnun við myndun Atlantshafsins einmitt á milli Rockall-hásléttunnar og Írlands og Bretlands, en það land, sem nú er sokkið, var áður áfast Grænlandi og er þess vegna miklu frekar jarðfræðilega á okkar svæði en þeirra og þá líka á Færeyjasvæðinu.

Síðan er getið um að lýsa því yfir, að við teljum engin vandkvæði á að leysa mál okkar með samningum við Færeyinga, og er ríkisstj. heimilað að ákveða að setja gerðardóm til að skipta þessu svæði milli Færeyinga og Íslendinga ef Færeyingar vildu það frekar, en reynt verði áður að tala við Íra og Breta og leitast við að ná allsherjarsamkomulagi þessara fjögurra þjóða um málið.

Ég vil geta þess, að á fundum, sem haldnir voru í New York, bæði með breskum samningamönnum og írskum, voru þeir, — eins og við var að búast, ekki reiðubúnir að ræða málið efnislega, en ég hygg að þegar slík samþykkt liggur fyrir frá Alþingi muni komast hreyfing á þetta mál.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til utanrmn.