17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. iðnn. þessarar d. — og raunar einnig hv. Ed. — fyrir skjóta og góða afgreiðslu á frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, og ég vil raunar einnig bæta við varðandi það mál, sem var hér næst á undan á dagskránni, varðandi Iðnþróunarsjóð, sem þessar nefndir fjölluðu um og hafa mælt með að samþykkt verði án breytinga, ef frá er talin sú brtt. sem einn nm., hv. þm. Friðrik Sophusson, stendur hér fyrir og hefur kynnt varðandi 6. gr. frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð. En það er út af fyrir sig ekki stórvægilegt atriði, sem þar er gerð till. um, og skiptir ekki sköpum. Ég tel þó að sú till. sé ekki til bóta.

Ég hygg að það gæti nokkurs misskilnings hjá hv. flm. að því leyti, að þarna sé verið að leggja til að stuðningur verði veittur til þróunaraðgerða sem tengjast byggðaviðhorfum sérstaklega. Það er talað um að í sambandi við viðbótarlán vegna fjárfestinga og áhættulán í því sambandi skuli höfð hliðsjón af svæðisbundnum áætlunum er hlotið hafa staðfestingu stjórnvalda. Þessar svæðisbundnu áætlanir um iðnþróun geta að sjálfsögðu varðað alla landshluta, þ. á m. það kjördæmi sem við erum staddir í, og þetta er aðeins til áherðingar á að það verði tekið mið af þeirri áætlunargerð sem að er unnið í landinu varðandi iðnþróun og mikill áhugi ríkir á hér á hv. Alþ., eins og till., sem fluttar hafa verið þar að lútandi á liðnum vetri, bera ljósan vott um. Ég held því að það þurfi ekki að meta þetta eins og mér fannst koma fram hjá hv. flm. þessarar brtt.

Varðandi brtt., sem fluttar eru á þskj. 567 við það frv. sem hér liggur fyrir, vil ég geta þess, að ég tel að það skipti miklu máli að það verði ekki hróflað við frv. eins og það liggur fyrir og hv. iðnn. hefur mælt með varðandi stofnfé sjóðsins. Ég vil skýra það aðeins nánar, því að ég mælti ekki sérstaklega fyrir þessu frv. hér í hv. d., en ég var ekki á þinginu þegar þetta mál kom til 1. umr. í hv. deild.

Við undirbúning þessa frv. var við það miðað að Iðnrekstrarsjóður yrði efldur. Það tengist stefnumiðum núv. ríkisstj. að svo verði, og það tengist þeim áformum sem uppi eru um að styðja við þróunarstarf í iðnaði hér á næstu árum. Ég held að flestir ef ekki allir hv. þm. séu því samþykkir og þeirrar skoðunar að það þurfi að efla iðnað í landinu og styðja við undirstöðustarfsemi þar að lútandi. Með þeim till., sem varða tekjuöflun til Iðnrekstrarsjóðs, sem eru gerðar till. um samkv. frv., er verið að tryggja tímabundið að um nokkurra ára bil verði varið ákveðinni lágmarksupphæð frá ríkissjóði til þessa sjóðs þannig að öruggt sé að staðið verði við að vissu lágmarki þau markmið sem sjóðnum er ætlað að vinna að og tryggja. Það er hins vegar ekki um að ræða, eins og virðast má af lestri frv., að það sé verið að auka við framlög til sjóða iðnaðarins sem þessu nemur, því að gert er ráð fyrir að frá árinu 1982, sem á mundi reyna þá viðmiðun sem felst í a-lið 2. mgr. 5. gr., falli ríkisframlög til Iðnlánasjóðs niður, en þau framlög nema samkv. gildandi fjárlögum 300 millj. kr. Þeir aðilar, sem að þessum málum hafa unnið, meta það meira að fá þarna tímabundna tryggingu um lágmarksframlag til þessa þróunarsjóðs iðnaðarins en að viðhalda beinum framlögum úr ríkissjóði til Iðnlánasjóðs. Um þetta er getið í aths. með þessari grein og um þetta var rætt við fjmrn. við undirbúning frv., og raunar má segja að þetta hafi verið forsenda fyrir því að samþykki þess fékkst við þeirri tillögu sem hér er um tekjur til sjóðsins. Ég vek athygli á því, að það er ekki binding nema til nokkurra ára, áranna 1982–1985, sem hér er um að ræða, og sett fram sem viðmiðun um lágmarksframlag til þessa sjóðs.

Ég þarf ekki að eyða orðum að því hér, að þessi sjóður er nokkuð sérstaks eðlis. Honum er ætlað að styðja við undirstöðustarfsemi í iðnaði, vera eins konar fjörefnisgjafi iðnþróunar í landinu, og hann er ekki hugsaður sem stofnlánasjóður í þeim skilningi. Þar höfum við Iðnlánasjóð sem hefur sérstaka tekjustofna og sérstök lög, sem hann byggir á, og er aðalstofnlánasjóður iðnaðarins. Ég treysti því, að það sé skilningur á nauðsyn þessa máls og að þarna verði tryggt tímabundið lágmarksframlag til þessa sjóðs iðnaðarins, sem er m. a. til komið vegna þess að gert er ráð fyrir að ríkisframlag til Iðnlánasjóðs falli niður frá sama tíma, þó að ekki sé verið að lögfesta það.

Í sambandi við verðtryggingarákvæði eða vaxtakjör sjóðsins er gert ráð fyrir að hann geti veitt áhættulán og í vissum tilvikum, að mati sjóðsstjórnar, geti þau lán breyst í styrki ef viðkomandi þróunarverkefni skila ekki þeim árangri sem um er að ræða. Að þessu leyti hefur sjóðurinn að vissu marki örvunarhlutverk, eins og felst í markmiðum sem fram eru tekin í þessu lagafrv. Ég vil vekja athygli hv. flm., sem flytja brtt. við 7. gr., á því, að ekki er sérstakur akkur í því með núgildandi skattalögum að njóta hagstæðra lánskjara eða vaxtakjara, ef ég hef skilið ákvæði nýsettra skattalaga rétt, heldur er það fyrst og fremst í gegnum lánstíma sem hægt er að hafa einhvern teljandi hagnað af því að njóta lána. Þarna hefur orðið veruleg breyting á frá því sem áður var. En þó að vaxtakjör Iðnrekstrarsjóðs væru hagstæðari en annarra sjóða væri það aðeins í samræmi við þetta örvunarhlutverk sjóðsins til iðnþróunar, þannig að ég tel að það sé engin ástæða til að vera að hrófla við þeim ákvæðum sem að þessu lúta.

Ég vil svo ítreka þakkir til hv. iðnn. fyrir afgreiðslu á þessu máli og stuðning við þetta mál og treysti því, að það fái framgang hér á þinginu fyrir þinglausnir.