17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég skal reyna, eins og síðasti ræðumaður, að eyða ekki mjög löngum tíma. Það væri að sjálfsögðu freistandi að gefa sér góðan tíma til að ræða í fyrsta lagi hin fögru loforð og fyrirheit, sem núv. hæstv. ríkisstj. gaf við valdatöku sína, og í framhaldi af því hvaða efndir hafa þar orðið á og þar með innifalið það sem birtist í því frv. sem hér er nú til umr., en menn verða sjálfsagt að stilla sig um það nú að taka upp umr. um það mál. Við 2. umr. um lánsfjárlagafrv. er þó augljóst að koma verður inn á nokkur atriði þessa máls.

Ég hygg að það hljóti að vera orðið svo, jafnvel með dyggustu stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj., hvað þá aðra, að mönnum sé orðið ljóst að framkvæmdir þær, sem orðið hafa eftir að hún tók við völdum, eru ekki í neinu samræmi við þau fyrirheit sem hún gaf og birtast í hinum margumtalaða stjórnarsáttmála sem almennt gengur nú undir nafninu „brandarakverið.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allmargir hæstv. ráðh. lofuðu skattalækkun. Hverjum dettur nú í hug að halda því fram í alvöru að við það loforð hafi verið staðið? Hverjum kemur til hugar nú að halda því fram, eftir að búið er að afgreiða hvert skattahækkunarfrv. hér á fætur öðru, að hæstv. ráðh. hafi ætlað sér að standa við þessi gefnu fyrirheit? Auðvitað engum. Meira að segja dyggustu stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. er svo mikið um annað slagið að þeir fara í annan landsfjórðung til að vera ekki við þegar hin hörðustu skattpíningarmál eru hér til umr. og afgreiðslu í þinginu. Þeir eira ekki í þeim landshluta þar sem löggjafinn, Alþingi, situr. Þeir verða að fara í aðra landsfjórðunga til að finna að einhverju leyti ró eða eirð í sínum beinum undir því oki skattpíningar sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir í verki. (Gripið fram í.) Já, að vísu lofaði ég því, en þetta er eitt af því nauðsynlegasta sem fram þarf að koma, þegar einhverjir dyggustu stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. treysta sér ekki einu sinni til að vera í sama landsfjórðungnum-(ÓÞÞ: Hvaða landsfjórðungur er þetta, Karvel?) og Alþ. er þó starfandi í. — Það er eðlilegt að hv. skrifari og þm. Ólafur Þórðarson spyrji í hvaða landsfjórðungi Alþingi situr. Ég held að menn, sem bjóða sig fram til Alþingis, ættu að huga að því fyrst og fremst og gera sér grein fyrir því, hvar vettvangur löggjafarvaldsins er fyrst og fremst og hvar það starfar. (Gripið fram í.) Og mér þykir það undrun sæta, þó að ég hafi ýmsu kynnst af þessum hv. þm., að hann skuli ekki enn hafa uppgötvað í hvaða landsfjórðungi Alþingi starfar og hvar Alþingishúsið er. (Gripið fram í: Hvaða landsfjórðungur er þetta, Karvel?) Ég held ég nenni ekki að elta ólar við hv. þm. um þetta atriði. Ég læt aðra hv. þm. dæma um dómgreindina sem inni fyrir býr að baki svona spurningar.

Þegar við lítum yfir það lánsfjárlagafrv. sem hér er nú til 2. umr. koma ótalmargar spurningar upp í hugann. Maður kemst alltaf í vandræði þegar tala á um stjórnarflokkana, en í þessu tilfelli stingur það mest í augu að tveir af stjórnarflokkunum virðast hafa það sammerkt að þeir hafa kastað fyrir róða mörgum af þeim meginatriðum sem þeir hafa grundvallað starfsemi sína á um langt árabil.

Í því frv., sem hér er nú til umr., vil ég fyrst staldra við 3. gr. Það er öllum kunnugt að sú grein, eins og hún er nú og hefur raunar verið oft og tíðum af hálfu löggjafarvaldsins, hefur verið hinn mesti þyrnir í augum lífeyrissjóða í landinu. Það var fyrst árið 1977 sem ríkisvaldið, þáv. ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl., seildist með krumlu sinni í sjóði lífeyrissjóðanna í landinu. Þá var því harðlega mótmælt af öllum lífeyrissjóðum í landinu og ekki bara það, því var þá einnig harðlega mótmælt af þeim stjórnmálaflokki sem Alþb. heitir. Hver postulinn úr þeim flokki á fætur öðrum talaði hér á Alþ. harkalega gegn þessari ásælni ríkisvaldsins í almannasjóði.

Hæstv. ríkisstj. ætlar ekki einvörðungu að eiga það sem minnisvarða að vera einhver mesta skattpíningarstjórn sem um getur um langan aldur á einstaklinginn, heldur ætlar hún líka að eiga þann minnisvarða að seilast með hvað mestri græðgi í þá sjóði launafólks í landinu sem ótvírætt eru lífeyrissjóðirnir og enginn vefengir að eru í eigu þeirra aðila sem hafa lagt þar til fjármagnið.

Í nál. á þskj. 541 hef ég leyft mér að vekja athygli á og draga fram í dagsljósið ýmis ummæli forustumanna Alþb. árið 1977, þegar þessi mál voru hér fyrst til umr. í þinginu og þegar þáv. ríkisstj., sem vissulega var íhaldsstjórn, var fyrst að seilast eftir fjármunum úr sjóðum launþega. En nú er önnur íhaldsstjórn í landinu. Alþb. var þá undir forustu hæstv. fjmrh., formanns Alþb. um tíma, formanns þingflokks þess um tíma, sem nú ryður brautina og berst manna harðast fyrir því að fram sé haldið þeirri stefnu sem stjórn Geirs Hallgrímssonar og Ólafs Jóhannessonar tók upp 1977 með það fyrir augum að taka traustataki stóran hluta af lífeyrissjóðum landsmanna til ráðstöfunar, ekki bara í hina ýmsu framkvæmdasjóði, heldur og í ríkissjóð. Það er ástæða til að rifja þetta upp þegar flokkur á borð við Alþb. fer slíkum hamförum í því að skipta um skoðun eftir því hvort flokkurinn er aðili að ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu. Það virðist skipta meginmáli í þeim herbúðum.

Ég held að það sé afskaplega óhyggilegt af ríkisvaldinu, burtséð frá hvaða ríkisstj. á í hlut, að ætla að setja fram lögþvingun eins og gert er í þessu frv. Það hefur sýnt sig að lífeyrissjóðirnir almennt, ekki hvað síst lífeyrissjóðir sem flokka má innan Alþýðusambandsins eða þeirra félaga sem þar eiga hlut að máli, hafa í langflestum tilfellum staðið við það samkomulag sem gert var á sínum tíma, og þeir hafa sýnt í verki að þeir eru mjög hlynntir því af frjálsum vilja að ráðstafa því fjármagni sem þeir mögulega geta til verkefna eins og samkomulagið um að kaupa ákveðinn hluta til uppbyggingar Byggingarsjóði ríkisins hefur stefnt að. Það er því ástæðulaust og óhyggilegt í alla staði af ríkisvaldinu að setja fram lögþvingun eins og hér er gert. Auk þess er það auðvitað augljóst mál, að mjög margir lífeyrissjóðir eiga sér vart viðreisnar von ef svo er á málum haldið að þvinga þá til að leggja 40% af ráðstöfunarfé sínu til þessara kaupa, því að ört vaxandi kvöð og skylda hvílir á lífeyrissjóðunum vegna bótagreiðslna. Það er augljóst mál, ef halda á svona á málum, að það verður til þess að fjöldi lífeyrissjóða í landinu getur ekki sinnt þeirri frumskyldu sinni að standa undir greiðslu á bótum til sjóðfélaga sinna. Auðvitað er óæskilegt að þannig sé á málum haldið.

Ég sé að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hristir höfuðið yfir þessu. Hann ætti að kynna sér ýmsa sjóði félaga innan Verkamannasambandsins t. d. og auk þess marga hina minni sjóði sem eru þann veg settir að það er allt sem bendir til þess að þeir geti ekki sinnt þeim skyldum sem fyrst og fremst á þeim hvíla, að sinna þörfum sjóðfélaganna sjálfra. (Gripið fram í.) Mér er alveg sama hvað hv. þm. Guðrún Helgadóttir segir um að sameina. Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd sem er. Menn geta ekki alltaf litið undan. Þeir verða að hafa kjark til þess að horfast í augu við staðreyndir. Og ég spyr: Var þetta bara privat og persónuleg skoðun þeirra þm., t. d. Eðvarðs Sigurðssonar, Lúðvíks Jósepssonar og hæstv. núv. fjmrh., — var það þeirra prívatskoðun, hin hörðu mótmæli og gagnrýni á gjörðir íhaldsstjórnarinnar 1977? Var það ekki stefna Alþb.? Hafi svo verið, að hér sé um stefnu Alþb. að ræða, hefur sú stefna breyst frá þeim tíma frá því að vera vörn í þessu máli fyrir lífeyrissjóðina og verkalýðshreyfinguna í það að sækja hvað harðast í að stór hluti af þessum sjóðum launafólks fari í ríkishítina. En auðvitað — auðvitað segi ég — er við því að búast að hér hafi Alþb. kúvent í þessu sem mörgu öðru. Auðvitað verður að skilja það svo.

Það eru einkum í framhaldi af þessu kannske fjögur atriði sem ég vildi gera að umræðuefni við 2. umr.

Alþfl. hefur lengi verið gagnrýndur fyrir að sýna ekki byggðastefnu í landinu mikla vinsemd. Nú skal ég ekki taka upp hanskann í þessu efni fyrir stefnu Alþfl. á undanförnum árum. Þeir, sem hafa sótt hvað harðast að Alþfl. í þessum efnum, eru Framsfl. og Alþb. Þess vegna verður mönnum á að spyrja, þegar þeir lesa lánsfjárlagafrv. hæstv. ríkisstj., sem einn af höfuðpaurum Alþb., hæstv. fjmrh., ber höfuðábyrgð á: Hvert er nú innlegg þessara flokka í hina margumtöluðu byggðastefnu? Jú, í 13. gr. þessa frv. er lagt til af sjálfum hæstv. fjmrh. og framsóknarmönnum öllum að skerða tekjur Byggðasjóðs um 50% frá því sem lög gera ráð fyrir. Og mér kemur í hug hvað hv. þm. Alþb. og Framsfl. hefðu sagt, ef þeir hefðu séð slíka tillögu frá þm. Alþfl., og hvaða orð þeir hefðu haft um hversu velviljaður Alþfl. væri byggðastefnunni í landinu. En þeir leyfa sér að leggja til 50% niðurskurð á tekjum Byggðasjóðs eins og þær eiga að vera samkv. lögum. Ég er ekki að segja að þetta sé af illgirni þessara hv. þm., eða a. m. k. vænti ég að svo sé ekki. En það er augljóst mál að hér er allt annað lagt til en þessir hv. þm. og flokkar hafa látið í veðri vaka á undanförnum árum og áratugum. Þeir framsóknarmenn, sem sjálfir telja sig guðfeður byggðastefnu í landinu, leyfa sér nú að leggja til 50% niðurskurð á tekjum Byggðasjóðs eins og þær eiga að vera. Ég held að þeir þm. hv. þessara tveggja flokka, sem slíkt leggja til, geti a. m. k. hér eftir sparað sér öll gífuryrðin í garð Alþfl. um að hann sé andvígur byggðastefnu í landinu. Þeir hafa sýnt það og sannað með þeim gjörðum, sem þeir leggja hér blessun sína yfir, að þeir eru margfalt verri en Alþfl. hefur verið. (EH: Og var þó langt til jafnað.) Og var þó langt til jafnað, segir hv. þm. Eggert Haukdal, en hann hefur lagt blessun sína yfir að ganga miklu lengra þó honum hafi fundist nóg um Alþfl. En það eru auðvitað sérstakar ástæður sem liggja því til grundvallar að hv. þm. telur sig nauðbeygðan til að ganga lengra en nokkur hefur gert hingað til, enda utan flokka á sínum tíma.

Til viðbótar þessu stendur í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj., á bls. 14, að sérstök áhersla skuli lögð á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á félagslegum grundvelli og draga þannig úr húsnæðiskostnaði. Er nú ekki þetta lágkúrulega frv., sem hér er til umr., einmitt í anda þessarar stefnu? Maður skyldi ætla það.

Í 18. gr. frv. er lagt til að skerða tekjur Húsnæðismálastofnunar og þar með Byggingarsjóðs um tæpa 4 milljarða frá því sem þær eiga að vera samkv. gildandi lögum. Þetta er auðvitað í samræmi við það að auka stórkostlega félagslega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, a. m. k. hlýtur það að vera í munni hæstv. fjmrh. Og ekki nóg með það, heldur er í frv. einnig að finna ákvæði þess efnis, ef fram verður fylgt, að kippt er gjörsamlega undan allri starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna nú þegar, ef þetta frv. verður samþykkt eins og það var lagt fram. Og eins og hæstv. félmrh. Alþb., Svavar Gestsson, hefur krafist með bréfi, dags., að mig minnir 7. maí, um endurgreiðslu af hálfu Byggingarsjóðs verkamanna til ríkisins, þá er með þessu frv. hæstv. fjmrh. plús kröfu Svavars Gestssonar, hæstv. félmrh., um endurgreiðslu verið að kippa grundvellinum undan starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna nú þegar. Auðvitað er þetta í samræmi við fyrirheitin í stjórnarsáttmálanum. Það á að auka byggingu íbúðarhúsnæðis á félagslegum grundvelli með því að stöðva strax allar framkvæmdir á vegum Byggingarsjóðs verkamanna!

Svona mætti halda áfram að telja upp grein fyrir grein í þessu frv. Margar greinarnar í frv. eru þess eðlis, að þar sem sveitarfélögin og ríkið eiga að fjármagna viðkomandi málaflokka er ríkið að skjóta sér undan að fjármagna þann hluta sem því ber samkv. gildandi lögum, en krefst þess jafnframt að sveitarsjóðirnir og sveitarfélögin standi að fullu við sína fjármögnun. Þetta á við í sambandi við verkamannabústaðina, það á líka við í sambandi við Erfðafjársjóðinn og svo mætti lengi telja: Bjargráðasjóðinn og fleiri og fleiri.

Hér er núv. hæstv. ríkisstj., sem gaf hin mörgu fyrirheit og fögru, að ganga á það lagið að undanskilja ríkissjóð þeim kvöðum sem honum ber skylda til að sinna samkv. gildandi lögum, en heldur jafnframt áfram að halda stíft við að aðrir standi í fullum skilum í ríkishítina, eins og lög gera ráð fyrir. Verður að teljast merkilegt að þetta skuli gerast undir forustu hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds. En þetta er eigi að síður staðreynd.

Það stendur líka í stjórnarsáttmálanum á bls. 14 að það eigi að vinna sérstaklega að úrbótum í atvinnumálum aldraðra og öryrkja og bæta aðstöðu þeirra sem eru líkamlega eða andlega fatlaðir. Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera í framhaldi af þessu loforði? Jú, við skulum líta á það. Það er í 21. gr. frv. ákvæði um Erfðafjársjóðinn. Samkv. áætlun, sem fyrir liggur og gerð er af Þjóðhagsstofnun, er gert ráð fyrir að tekjur Erfðafjársjóðs á árinu 1980 muni nema um 700 millj. kr. og samkv. gildandi lögum þessu aðlútandi á þetta fjármagn að fara til uppbyggingar hans. En hvað ætlar Alþb.-ráðh. Ragnar Arnalds að gera? Hann ætlar ekki að skila þessum 700 millj. Hann ætlar að skila 327 millj. Hitt ætlar hann að hirða í ríkissjóð á kostnað öryrkja og annarra, en fögur fyrirheit voru gefin í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. um að rétta þeim kannske hvað frekast höndina.

Svona eru efndir hæstv. ráðh. á hinum fögru fyrirheitum. Og það er furðulegt til þess að vita — það er verst að hæstv. félmrh. er ekki hér viðstaddur — og furðuleg óskammfeilni af ráðh. að vera að gefa fjálglegar yfirlýsingar um stórkostlegar úrbætur á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á félagslegum grundvelli, sem ekkert eru nema sýndarorð, ef horft er til þeirra verka og gjörða sem þessir sömu ráðh. ætla sér samkv. því frv. sem hér er. En auðvitað þarf engum að koma þetta á óvart. Það þarf engum að koma þetta á óvart þegar í hlut eiga þeir sem nú ráða ferðinni í Alþb., en það vita allir hverjir eru. Það eru auðvitað gáfumannabroddarnir í flokknum sem hafa yfirtekið öll völd í þeim flokki og stefna í þveröfuga átt við það sem það launafólk í landinu, sem hefur veitt þeim traust og stuðning, ætlast til. Þetta kemur auðvitað engum á óvart. Satt að segja held ég að það geti í raun og veru ekkert gerst, úr því sem komið er, sem kemur mönnum á óvart úr þeirri átt.

En hvað þá með garminn hann Ketil, Framsfl.? Er hann eitthvað betri í þessum efnum? Það er lítinn mun að sjá. Ég hefði a. m. k. aldrei trúað því, og ég hygg að það hefði aldrei gerst, að undir forustu þeirra manna, sem Framsfl. stýrðu og voru í raun og veru byggðastefnumenn, hefðu sést hér á Alþ. tillögur þess efnis, studdar af þm. Framsfl., að skera tekjur Byggðasjóðs niður um 50% frá því sem þær eiga að vera. Það er a. m. k. öruggt mál, að úr því sem komið er verður ekki mark á því takandi sem núv. framsóknarmenn segja í þessum efnum.

Það mætti margt fleira um þetta segja og tína til grein eftir grein í þessu frv. sem stangast gjörsamlega á við það sem ríkisstj. hefur lofað.

Ég sagði áðan að ég teldi það hreint hneyksli hvernig ríkisstj. ætlar sér að seilast í lífeyrissjóði landsmanna. Í meðförum málsins í fjh.- og viðskn. fengum við ýmsar upplýsingar í hendur, m. a. hversu mikið lífeyrissjóðirnir í landinu hafa keypt af þessum margumtöluðu verðtryggðu skuldabréfum. Og það er auðvitað furðulegt að sjá, að þeir lífeyrissjóðir, sem ríkið sjálft hefur ítök í, eins og Lífeyrissjóður barnakennara og Lífeyrissjóður BSRB, skuli nánast vera „stikkfrí“ í þessum efnum, en ríkið sjálft seilist í hina sjóðina og virðist, að því er best verður séð, beita þar fyllstu hörku. Þeir sjóðir, sem það hefur sjálft ítök í, eru látnir um að ákveða kaup sín sjálfir, þó að þeir kaupi aðeins fyrir brot af þeirri upphæð sem þeir eiga að kaupa fyrir samkv. gildandi lögum. Ég veit ekki betur en að einn af ráðuneytisstjórunum, núv. ráðuneytisstjóri í fjmrn., sitji í sjóðsstjórn BSRB-sjóðsins, þannig að heimatökin væru hæg. Eigi að síður er þetta staðreynd sem blasir við.

Það er svo alveg sérstakur kapítuli þegar menn tala um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, að að ég held tæpum 7 milljörðum, ég man ekki nákvæmlega töluna, tæpum 7 milljörðum kr. af skattpeningum skattþegna þessa lands er á fjárlögum ársins í ár varið til að verðtryggja þennan sjóð, — tæpum 7 milljörðum kr., á sama tíma og sú ákvörðun hefur verið tekin að hann er sjálfur farinn að verðtryggja öll útlán. Sem sagt: tvöföld verðtrygging er í gangi að því er þennan lífeyrissjóð varðar. Er furðulegt að slíkt skuli vera látið líðast. Og það er ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hyggst viðhalda óbreyttu ástandi, að svo milljörðum skipti sé varið af skattpeningum launafólks til að verðtryggja þennan sjóð tvöfalt miðað við alla aðra.

En hæstv. fjmrh. ætlar ekki að láta við þetta sitja í sambandi við lífeyrissjóðina. Hann ætlar líka að seilast til aukinna áhrifa hjá sparisjóðum landsins. Þar skal líka ríkiskrumlunni beitt til að heimta meira en verið hefur í sameiginlegu hítina. Ef menn skoða þetta mál af raunsæi bendir allt til þess, að núv. hæstv. ríkisstj. undir forustu Alþb.-ráðh. Ragnars Arnalds ætli sér á öllum sviðum að teygja ríkiskrumluna alls staðar þar sem við verður komið, kannske miklu lengra en það, til að hrifsa til sín miklu meira en eðlilegt getur talist. Það er ekki á einu sviði, það er á öllum.

Ég skal nú, herra forseti, fara að stytta mál mitt, en ég vil undir lokin víkja örfáum orðum að tveimur til þremur atriðum.

Það er í fyrsta lagi í sambandi við Orkubú Vestfjarða. Samkv. því lánsfjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er augljóst mál að Orkubú Vestfjarða verður allharkalega fyrir barðinu á gerðum núv. hæstv. ríkisstj. (Gripið fram í.) Og það er til marks um það og það er hryggilegast í þessu máli, að einmitt vegna svika stjórnvalda er málefnum Orkubúsins komið eins og raun ber vitni. Vegna svika þriggja ríkisstj. stendur Orkubúið frammi fyrir þeim vanda sem það nú er í. Þar á hæstv. forsrh. ekki hvað minnst í og núv. hæstv. iðnrh. og fyrrv. hæstv. iðnrh. Meginhluti þess vanda, sem Orkubúið nú stendur frammi fyrir, er vegna svika á því sem lofað var statt og stöðugt, en svikið, að Vesturlínan kæmist í gagnið haustið 1979. Þessi svik kosta íbúa á þessu svæði, sem þarna er um að ræða, svo hundruðum milljóna skiptir. Muni ég rétt er það á annan milljarð á þessu ári sem þessi svik hæstv. iðnrh. og hæstv. núv. forsrh. kosta íbúa á Vestfjörðum. (Forsrh.: Er þetta nú sanngjarnt, Karvel.) Já, það er sanngjarnt.

Því var lofað, og það veit núv. hæstv. forsrh. hvað best því hann var iðnaðar- og orkuráðherra þegar Orkubúið tók til starfa, að Vesturlína skyldi komast í gagnið haustið 1979. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. mæli ekki á móti þessu, en það fer eftir hvort hann vill skella skuldinni að hluta til eða alfarið á þann sem á eftir kom. Það má vera. En þetta var loforðið sem gefið var og hæstv. núv. forsrh. gaf. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þessir aðilar geta ráðið því að skellurinn verði ekki eins mikill og hann bersýnilega verður haldi svo fram sem horfir, að menn skuli ekki taka meira af þessum skelli en raun ber vitni að eigi að gera.

Í framhaldi af þessu er ástæða til að spyrja. Það kom fram í Morgunblaðinu 10. maí s. l. og er haft eftir Kristjáni Jónssyni rafmagnsstjóra, að bersýnilega vanti meira fjármagn, ef eigi að vera hægt að ljúka Vesturlínu, en lánsfjárlagafrv. gerir ráð fyrir og lánsfjáráætlunin. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., því það má hann eiga, þó að ég hafi sagt þetta áðan, að ég ber meira traust til hans en sumra hverra annarra hæstv. ráðh., ekki síst með hliðsjón af því að honum er málið skylt og hann getur bætt hér úr. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort ekki megi treysta því, að það verði séð fyrir nægu fjármagni til þess að tenging Vesturlínu verði á komandi hausti. Ef það á enn einu sinni að bregðast og tenging á sér ekki stað fyrr en 1981 er að ég hygg, þó að ekki hafi verið á bætandi, miklu verr með Vestfirðinga farið en nokkur dæmi eru til í sambandi við rafmagnsmálin. Ég vænti þess meira að segja af hæstv. forsrh. að hann beiti áhrifum sínum til þess að Orkubúið geti haldið áfram og farið út í lágmarksframkvæmdir sem það þarf til að standa straum af þeim verkefnum sem nú eru og til að tryggja að ef Vesturlínan kemst í gagnið að hausti sé hægt að taka við því rafmagni sem eftir þeirri línu á að fara.

Ég held að það sé nauðsynlegt að núv. ráðamenn þjóðfélagsins geri sér ljóst að hér er stórmál á ferðinni. Hér er stóralvarlegt mál á ferðinni ef það á að halda áfram eins og það virðist stefna í nú. Auk þess er auðvitað ýmislegt annað sem er þess valdandi að hagur Orkubúsins er ekki sem skyldi, m. a. að þetta fyrirtæki býr við verstu lánskjör sem til eru á lánamarkaðnum.

Ég vil sem sagt ítreka það, að ég vænti þess, að hæstv. forsrh. beiti áhrifum sínum til þess, að í fyrsta lagi verði svo fyrir séð og tryggt, að Vesturlína komist í gagnið á komandi hausti, og í öðru lagi, að hann beiti áhrifum sínum til að létta þær geysilegu byrðar og þann vanda, sem Orkubúið stendur frammi fyrir vegna vanefnda á gefnum loforðum, og að hann sjái sér fært að beita sér fyrir rýmkun að því er varðar lántökuheimildir Orkubúinu til handa.

Herra forseti. Út af þeim brtt., sem eru á þskj. 535 og fluttar eru af 1. minni hl. fjh.- og viðskn., vil ég aðeins segja það, að sú breyting sem gerð er á 3. gr. frv. fullnægir ekki viðhorfum mínum til þessara mála. Ég hef lýst því hér, hver þau eru, og ég tel alfarið rangt af ríkisvaldinu að seilast með lögþvingan í þessa sjóði. (Fjmrh.: En hver er afstaða Alþfl.?) Ég tala hér sem fulltrúi Alþfl. Ef hæstv. ráðh. hefur ekki gert sér það ljóst er tími til þess kominn að hann fari að gera það. En það virðist með það eins og fleira sem ekki kemst inn fyrir hans hörðu skel, að honum er ekki ljóst hvað er um að vera hér í þinginu eða hvað er um að ræða hverju sinni. (Fjmrh.: Hver var afstaða Alþfl. í fyrra?) Veit hæstv. ráðh. það ekki sjálfur? (Fjmrh.: Jú.) Þá þarf hann ekki að spyrja. Það er ástæðulaust. (Fjmrh.: En veit þm. það?) Já, þm. veit það svo sannarlega.

Í öðru lagi vil ég segja um brtt. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. við 18. gr. að hún tryggir það ekki að hæstv. félmrh. gangi ekki ríkt eftir þeirri fyrirskipan, sem hann hefur gefið sínu ráðuneyti, að Byggingarsjóður verkamanna endurgreiði 298 millj. sem hann telur að honum hafi verið ofgreitt á árinu 1979. (Forseti: Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?) Nei, hann er alveg að ljúka máli sínu, herra forseti. — Þessi brtt. tryggir það ekki að hæstv. félmrh. gangi ekki ríkt eftir þessari endurgreiðslu samkv. því bréfi sem hann hefur látið skrifa í ráðuneyti sinn til Byggingarsjóðs verkamanna. Þess vegna er ég andvígur þessu. Ég tel að það verði að sjá svo um að hæstv. félmrh. komist ekki upp með að standa þannig að málum að kippa fótunum undan starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári. Það virðist vera hans ætlan og verður að koma í veg fyrir það.

Að síðustu — herra forseti, nú er ég alveg að ljúka — flyt ég brtt. við 3. gr. frv. á þskj. 542, þess eðlis að 3. gr., þ. e. greinin um lífeyrissjóðina, skyldu þeirra til skuldabréfakaupa, verði felld út úr frv. Ég tel hana óþarfa. Reynslan sýnir að lífeyrissjóðirnir eru þannig þenkjandi að þeir kaupa fyrir það fé sem þeir mögulega geta ráðstafað til þessa, og það er ástæðulaust af löggjafanum að vera með þvingunaraðgerðir í þessa átt.

Vissulega hefði verið ástæða til að segja hér miklu fleira um þessi mál, frammistaða og framkoma hæstv. ríkisstj. hefur gefið tilefni til þess, en ég skal láta máli mínu lokið.