19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2829 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Frsm. meiri hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur fjallað um samkomulagið milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál á tveim fundum sínum. Á þriðjudag í fyrri viku fjallaði n. um drög að samkomulagi sem hæstv. utanrrh. skýrði í einstökum atriðum á nefndarfundi, og fóru þá nokkrar umr. fram meðal nm. um efni þessara samkomulagsdraga. Eins og kunnugt er voru samkomulagsdrögin lögð fram í raun sem þáltill. um heimild til handa ríkisstj. að gera það samkomulag sem í drögunum fólst. Umr. um þessa þáltill. voru allítarlegar hér á fundi Sþ. á föstudaginn var og till. síðan vísað til utanrmn. eins og vera ber, en n. hélt fund á laugardagsmorgni um þessa þáltill. Það kom í ljós í umr. í n. að allir nm. mundu vilja leggja til að samkomulagsdrögin yrðu samþykkt og þar með þáltill. um heimild til handa ríkisstj. að gera það samkomulag sem í drögunum fólst, nema hvað einn nm., Ólafur Ragnar Grímsson, kvaðst vera andvígur þeirri heimild til ríkisstj., sem í þáltill. fælist, og kvaðst mundu skila séráliti sem nú er fram komið. Með tilvísun til ítarlegra umr. um þetta mál á föstudaginn og raunar áður hér í Sþ. taldi meiri hl. utanrmn., allir nm. nema Ólafur Ragnar Grímsson, fullnægjandi að skila því nál. sem er á þskj. 565 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt tillöguna og leggja undirritaðir nefndarmenn til að tillagan verði samþykkt. Einn nefndarmanna, Ólafur Ragnar Grímsson, mun skila séráliti.“

Fyrir hönd þeirra nm., sem standa að þessu nál., vil ég aðeins þessu til viðbótar láta það koma fram, að það var samdóma álit okkar allra, að á grundvelli þessa samkomulags væri auðvitað nauðsynlegt að vinna áfram að því að tryggja réttindi Íslendinga bæði til fiskveiða og landgrunns. Sjálft samkomulagið gerir ráð fyrir því, að svo sé gert hvað fiskveiðar snertir. Þótt allákveðin ákvæði séu varðandi loðnuveiðar í þessum efnum, þá er einnig ljóst að hvað þær snertir þurfa margvísleg samskipti á milli þjóðanna að eiga sér stað og tryggja þarf niðurstöðu sem sé í samræmi við þá kröfu sem við Íslendingar höfum gert um jafnrétti þjóðanna til loðnuveiða á því svæði sem um er að ræða. Það er enn frekar ljóst af ákvæðum samkomulagsins að áfram þarf að vinna að því að tryggja rétt Íslendinga til ákveðinna fiskveiða annarra fiskstofna. Og loks er í samkomulaginu gert ráð fyrir ákveðinni málsmeðferð varðandi skiptingu landsgrunnsréttinda. Af öllu þessu leiðir, að á grundvelli samkomulagsins þarf að vinna áfram að því að tryggja réttindi Íslendinga. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um það, svo augljóst sem það er af ákvæðum samkomulagsins sjálfs.

Ég vil svo aðeins þessu til viðbótar fyrir hönd okkar þm. Sjálfstfl. ítreka það, að strax á árinu 1978 var af hálfu Sjálfstfl., sem þá eins og nú var í stjórnarandstöðu, lagt til, að teknar væru upp viðræður um réttindi Íslendinga á Jan Mayen svæðinu, og haft frumkvæði að því, að málið var tekið upp á Alþingi og í landhelgisnefnd, þar sem lagðar voru til aðgerðir og ákveðin stefnumótun til að tryggja sem best íslenska hagsmuni. Sjálfstfl. telur að till. hans hafi verið tekið af fálæti og seinlæti sem hefur leitt af sér afdrifaríkan drátt í málinu. Þetta forustuleysi stjórnvalda jafnframt sundurþykkju í stjórnarherbúðunum hefur óneitanlega veikt stöðu Íslendinga í samningunum við Norðmenn. Því er ekki náð þeim árangri í samkomulaginu sem gengið var frá í Osló 10. þ. m. sem við höfðum gert okkur vonir um og efni stóðu til, bæði hvað snertir fiskveiðiréttindi og landgrunnsréttindi. En á hinn boginn er það skoðun Sjálfstfl., að það verði til að stefna hagsmunum Íslendinga í meiri tvísýnu, ef samkomulaginu yrði hafnað og við viljum ekki taka slíka áhættu.

Við sjálfstæðismenn ítrekum að við teljum nauðsynlegt að vinna áfram á grundvelli samkomulagsins að því að ná fullum rétti Íslendinga, því jafnræði á við Norðmenn sem áskilið var í yfirlýsingu Jóns Þorlákssonar, þáv. forsrh., 27. júlí 1927.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um mál þetta á þessu stigi og ítreka till. utanrmn., að till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. að staðfesta samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál hljóti samþykkt sameinaðs Alþingis.