19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Samkv. 9. gr. laga um Framkvæmdastofnun ríkisins skal ríkisstj. gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi hennar. Ársskýrslu fyrir árið 1979 hafa þm. þegar fengið í hendur.

Starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur verið með sama hætti og undanfarin ár. Framangreind skýrsla er hin áttunda í röðinni og er þar að finna grg. um þá málaflokka sem stofnunin hefur haft með höndum, upptalningu allra lánveitinga og töflur til glöggvunar. Á vegum áætlanadeildar eru nú í vinnslu ýmsar skýrslur varðandi einstaka atvinnuvegi, orkumál, samgöngumál, húsnæðismál o. fl. Safnað hefur verið upplýsingum um fjármunamyndun frystihúsanna og áfram er unnið að fiskiskipaáætlun. Þá var settur á fót starfshópur um skipasmíðaiðnað á s. l. ári. Stofnunin annast aðild Íslands í norrænni nefnd um hagrænar samgöngurannsóknir. Athugun á samgöngumálum Suðurlands var samstarfsverkefni samgrn., Vegagerðar ríkisins og áætlanadeildar. Á vegum byggðadeildar var aðaláhersla lögð á gerð iðnþróunaráætlana.

Framkvæmdasjóður Íslands og Byggðasjóður eru starfræktir innan lánadeildar. Lánadeild tekur við umsóknum um lán úr sjóðunum, annast athugun þeirra og úrvinnslu og sér um afgreiðslu þeirra lána sem samþykkt eru af stjórn stofnunarinnar. Deildin hefur með höndum bókhald sjóðanna og skýrslugerð vegna þeirra, innheimtu lána og gætir hagsmuna sjóðanna í lánamálum. Lánadeild veitir ýmsum fyrirtækjum aðstoð og ráðgjöf varðandi framkvæmdir og fjármögnun og fjallað er um ýmis vandamál fyrirtækja, sem að nýframkvæmdum standa, og annarra, sem þarfnast endurskipulagningar og leita til framkvæmdastofnunar um aðstoð.

Í Byggðasjóði voru samþykkt 502 lán, samtals að fjárhæð 5959 millj. Af þeim voru tvö lán sérstaks eðlis: 1480 millj. kr. lán til Orkusjóðs til greiðslu skulda vegna byggðalína og 200 millj. kr. lán til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands vegna lausaskulda bænda. Heildarútlán Framkvæmdasjóðs voru 14 477 millj. kr. Auk þess var á vegum sjóðsins sérstök lánveiting, 1250 millj. kr. vegna verkefna í skipasmíðaiðnaði,

Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins segir, að það sé hlutverk Framkvæmdasjóðs að beina fjármagni til aðkallandi framkvæmda sem æskilegar eru taldar fyrir þjóðarbúið að dómi stjórnar Framkvæmdastofnunar. Þessu hlutverki gegnir sjóðurinn fyrst og fremst með því að veita fé til helstu fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna sem síðan veita lán til einstakra framkvæmda. Lánveitingar Framkvæmdasjóðs til fjárfestingarlánasjóða árið 1979 námu 13 654 millj. kr.

Að öðru leyti vil ég vísa til hinnar prentuðu ársskýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins.