19.05.1980
Efri deild: 96. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2831)

115. mál, verðlag

Frsm. minni hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá talsmanni meiri hl. n. og fyrsta flm. þessa frv. er nú forsrh. í þessu landi sá maður sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti hér áðan sem einhverjum glæsilegasta talsmanni þeirra hugmynda sem í þessu frv. eru. (EKJ: Í áratugi.) Í áratugi. Og enn fremur hefur komið fram áður, að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur lýst því yfir, að hann treysti núv. viðskrh. betur til þess að gæta þessara mála heldur en eigin mönnum. (EKJ: Sagði ég það?) Já, það kom fram hér við 1. umr. málsins. Með sérstöku tilliti til þess, að svo ágætir menn eru nú í stóli forsrh. og viðskrh. í núv. ríkisstj., hefur minni hl. n. lagt til að þessu frv. verði vísað til þessarar sömu ríkisstj. Má þá segja út frá þeim grundvelli, sem Eyjólfur Konráð Jónsson sjálfur hefur lagt, að sé ekki í kot vísað.