19.05.1980
Efri deild: 96. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. hefur skilað séráliti í þessu máli á þskj. 580 og leggur til að frv. verði fellt. Í nál. segir:

„Þessi skattur var lagður á upphaflega í tíð vinstri stjórnar fyrir áramótin 1978–1979. Allir þm. Sjálfstfl. hafa lýst andstöðu sinni við þetta mál frá upphafi. Við undirritaðir nm. leggjum til að frv. verði fellt.“

Ég þarf í rauninni ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég get getið þess, að þessi skattur er mjög sérstaks eðlis, og ég held að ég fari rétt með það, að hliðstæð skattlagning muni ekki vera til annars staðar á byggðu bóli, svo að mér sé kunnugt um, að það sé lagður sérstakur eignarskattur á ákveðnar eignir einhverrar ákveðinnar atvinnugreinar. Það hefur verið rökstutt af hálfu þeirra, sem greiða þennan skatt, að eignarskattur á þessi atvinnufyrirtæki í heild sé það hár, að allar eignir þeirra, sem nota þetta húsnæði, greiðist til ríkis og bæja á 25 árum. Þetta er eitt dæmi um það, hvað við Íslendingar erum frumstæð þjóð að mörgu leyti að því er varðar aðbúnað, sem við bjóðum okkar atvinnuvegum, sem er langt frá því að vera í átt við það, sem gerist með öðrum þjóðum, og gerir okkar atvinnulíf ósamkeppnishæfara á frjálsum grundvelli en ella væri.