19.05.1980
Efri deild: 97. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2848 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

182. mál, starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda

Frsm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. fékk til meðferðar frv. til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í framsöguræðu félmrh. fyrir þessu frv. kom fram hver tilgangur þess var, en í athugasemdum segir svo, með leyfi forseta:

„Með frv. þessu um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda er stefnt að því að koma á almennri aðild allra starfandi manna að lífeyrissjóðum. Frv. felur þannig í sér öll efnisatriði laganna um starfskjör launþega, en gerir ráð fyrir að við þau verði aukið ákvæði um rétt og skyldur fyrir alla starfandi menn að eiga aðild að lífeyrissjóðum og greiða iðgjöld til þeirra. Með þessum hætti er verið að árétta og skilgreina nánar lífeyrisákvæði laganna nr. 9/1974, en þau munu ekki hafa verið mótuð til fulls né hefur verið unnt að framkvæma þau með fullnægjandi hætti. Jafnframt þykir rétt að athygli sé vakin á skylduaðild að málinu með sjálfstæðri löggjöf fremur en með breyt. á einstökum greinum laganna um starfskjör launþega, enda er hér verið að gæða lögin fyllri tilgangi en þau hafa haft til þessa.“

Heilbr.- og trn. Ed. Alþingis fékk bréf frá endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins. 17 manna nefnd hefur unnið að þessum málum og um þetta mál var þar fullt samkomulag nema eins og í bréfinu stendur. Hins vegar eru allir nefndarmenn nema fulltrúi BSRB á því, að frv. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé þannig, að æskilegt sé að það verði afgreitt af Alþ. nú fyrir þinglok, þar sem það sé nauðsynlegt framhald af setningu laga nr. 97/1979, um eftirlaun aldraðra.

Í bréfi þessu er því aðeins lögð áhersla á að eitt af þremur frv. verði endanlega afgreitt frá Alþ. nú í vor, þ. e. það frv. sem við erum nú með til meðferðar, en einnig voru lögð fram frv. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og frv. um skráningu lífeyrisréttinda, en þá þyrfti að breyta eilítið lagafrv. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda vegna tengsla þess frv. við hin tvö. Till. um þessar breyt. fylgir með bréfi þessu.

Fulltrúi BSRB gerði hins vegar sérstaka bókun á síðasta fundi 17 manna nefndar og mun ég víkja að henni á eftir. Hins vegar segir svo í lok þessa bréfs, með leyfi forseta:

„Niðurstaða þessa máls er því sú, að allir nefndarmenn 17 manna nefndarinnar að undanskildum fulltrúa BSRB leggja eindregið til að frv. um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði afgreitt fyrir þinglok nú í vor með þeim breytingum sem fram koma á meðfylgjandi blaði.

Fyrir hönd endurskoðunarnefndar

lífeyriskerfisins,

Jóhannes Nordal, formaður.“

Í sambandi við áthugasemdir BSRB vil ég aðeins taka það fram, að þeir gera að vísu fyrst og fremst athugasemdir við hin frv., en þeir vilja nú koma á framfæri athugasemdum af því tagi, að stjórn BSRB telur rétt — með leyfi forseta: „að allir landsmenn eigi þess kost að vera sjóðfélagar í lífeyrissjóði. Bandalagsstjórnin bendir um leið á, að svo verður ekki þótt frv. 8 manna nefndarinnar yrði að lögum. Er sérstaklega vakin athygli á að allur sá fjöldi húsmæðra, sem ekki vinnur utan heimilis, yrði áfram án annars lífeyrisréttar en réttar til makalífeyris. Að dómi stjórnar bandalagsins þarf að athuga rækilega hvernig best verði fyrir komið sambærilegri lífeyristryggingu húsmæðra vegna eigin starfs og öðrum starfshópum er gert kleift að kaupa sér.“ Síðan er vakin athygli á því, — og úr því er bætt með brtt. okkar, sem við höfum tekið upp beint frá lífeyrisnefndinni, — að ekki er fullnægjandi ákvæði 2. gr. frv. um starfskjör launþega um umsögn vegna úrskurðar varðandi ágreining, þar sem lögin eiga að taka til fjölmargra annarra en félagsmanna í Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands.

Hins vegar tóku þeir, sem voru í 8 manna nefndinni, fram í ákveðinni bókun, sem ég vil einnig að hér komi fram, undirskrifað: Jón Sigurðsson, Eðvarð Sigurðsson, Guðmundur H. Garðarsson, Jóhannes Siggeirsson, Ingólfur S. Ingólfsson, Gunnar J. Friðriksson, Páll Sigurjónsson og Skúli J. Pálmason, — þá vilja þeir taka fram, með leyfi forseta: „Brýnt er að frv. til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði afgreitt sem lög frá Alþingi á þessu vori. Vegna þess, sem fram hefur komið frá stjórn BSRB, að með samþykkt frv. til laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, eins og það er nú, sé hlutast til um samningamál BSRB og ríkisins, sem nú séu á viðkvæmu stigi, getum við fallist á að frv. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda verði breytt á þann veg sem lagt er til í áliti meiri hl. 17 manna nefndar, enda verði tíminn til hausts notaður til að sætta þau ólíku sjónarmið sem uppi eru um frv. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og frv. um skráningu lífeyrisréttinda. Hvað snertir lífeyristryggingu húsmæðra, sem vikið er að í framlagðri samþykkt stjórnar BSRB, vill 8 manna nefndin taka fram, að sá áfangi í lífeyrismálum, sem hér er til umr., felur fyrst og fremst í sér skylduaðild að lífeyrissjóðum fyrir alla launamenn og þá sem stunda atvinnurekstur, þ. e. sömu aðila og laun um eftirlaun til aldraðra eiga að tryggja lífeyrisgreiðslur.

Verkefni nefndarinnar að þessu sinni var ekki að fjalla um aðild húsmæðra að lífeyrissjóðunum, og teljum við óheppilegt að umr. um það efni tefji nú framgang málsins, en í samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, sem að er stefnt, verður að taka á því máli.“

Þetta var bókun þeirra fulltrúa sem ég las upp áðan og allir þeir eru sammála um. Í samræmi við þetta hefur heilbr.- og trn. orðið einróma sammála um að leggja til að síðasti málsl. 2. gr. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda breytist þannig, að þar verði bætt við mgr.: „Og/eða þeirra aðila annarra, sem hlut eiga að máli“ í staðinn fyrir, að aðeins verði fengin umsögn Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands.

2. brtt. skýrir sig sjálf að því leyti til, að þar er beinlínis vísað til þess, að lögin um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda verða ekki í framkvæmd. Þau ná ekki fram að ganga og þar af leiðandi þarf að breyta orðalagi á þann hátt sem þar er: „Sé tryggingarskyldu ekki fullnægt með þessum hætti skal henni fullnægt með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs, er úrskurðaraðili samkv. 2. gr. vísar til, og með samkomulagi við viðkomandi lífeyrissjóð.“ En áður var gert ráð fyrir Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda í þessum efnum.

Síðan eru orðalagsbreytingar í sambandi við 4. gr. sem stafa fyrst og fremst af því, að gert er ráð fyrir að þetta frv. eitt verði lögfest vegna ágreiningsins sem er mikill varðandi hin atriðin. Þar er önnur breyting einnig. Þar eru felld niður í setningunni: „sé ekki greitt iðgjald vegna einhvers starfandi manns í samningsbundinn eða lögbundinn lífeyrissjóð“ — orðin „samningsbundinn“ og „lögbundinn,“ en segir aðeins: „einhvers starfandi manns í lífeyrissjóð sem viðurkenndur er af fjmrn.“

Við í heilbr.- og trn. höfum sem sagt farið yfir þetta frv. Við fengum á sinum tíma á okkar fund Jón Sigurðsson þjóðhagsstjóra, sem útskýrði þær brtt. sem nefndin hefur tekið upp sem sínar og flytur á sérstöku þskj. og ég hef þegar gert grein fyrir. Nefndin hefur sem sagt orðið einróma sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeim breytingum sem á því þskj. eru.