19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2853 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

Afgreiðsla þingmála

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það fer nú ekki fram hjá neinum að fundarhöld í þessari stofnun eru orðin á mjög afbrigðilegum tíma. Nú er efnt til fundar klukkan að ganga ellefu að kvöldi til eftir útvarpsumræður. Ströng fundarhöld hafa verið í allan dag og ekki liggur einu sinni fyrir eða fæst úr því skorið hver sé stefna ríkisstj. í sambandi við þinghaldið, hvað hún hyggist fyrir í þeim efnum. Það fæst ekki svar við því. Á sama tíma og þetta gerist, er legið á ýmsum málum í þingnefndum og fást ekki afgr. þaðan.

Ég vil nefna t. d. mál eins og frv. um Sinfóníuhljómsveit Íslands, en samkomulag var um það milli allra nm. þegar málið var tekið fyrir á fundi menntmn. á öndverðu þessu þingi, að frv. skyldi afgr. áður en afmæli Sinfóníuhljómsveitarinnar yrði og þetta þing tæki nú einu sinni almennilega afstöðu til menningarmálanna, eins og alltaf er verið að tala um að gera.

Í þessu sambandi vil ég einnig minna á það, að þó að hæstv. fjmrh. hafi rausnast til þess að gefa nokkuð eftir í sambandi við söluskatt af atvinnuleikhúsum og tónleikahaldi, þá liggur hér fyrir frv. um að taka á þeim bráða vanda sem atvinnuleikhúsin standa frammi fyrir, og jafnframt er innlend kvikmyndagerð tekin inn í það mál, og væri skemmtilegt ef Alþ. tæki nú afstöðu til þess.

Ég vil minna á að í Sþ. bíða ýmis mál. Utanríkismál hafa ekki fengist rædd. Fsp. um hin mikilvægustu mál er ósvarað.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að það frv., sem mest er talað um núna, húsnæðismálafrv., gerir ráð fyrir því, að enn eigi að fela Alþýðusambandi Íslands aukin völd og áhrif í þjóðfélaginu. Hins vegar er útilokað að fá það út úr félmn., hvaða álit þingið hefur á því frv. sem fyrir liggur um stéttarfélög og vinnudeilur og flutt var af Pétri Sigurðssyni og fleiri mönnum, þar sem talað er um að skylt sé að hafa hlutfallskosningu innan stéttarfélaga með 300 félagsmenn eða fleiri til stjórnar eða trúnaðarstarfa, við kosningu fulltrúa til landssambandsþinga og þinga heildarsamtaka, ef fimmtungur félagsmanna krefst þess. Virðist manni þó, eins og mál hafa atvikast og eins og ýmsir af forustumönnum launþega hafa haldið á þeim málum upp á síðkastið, að það mundi ekki veita af því að auka heldur lýðræðisleg vinnubrögð innan þeirra heildarsamtaka, þannig að nokkurn veginn yrði tryggt að svo sem helmingur þeirra, sem fara með þessi mál, eða svo væri kosinn af þeim launþegum sem ætlast til þess að launþegaforingjarnir hafi sömu skoðun á kjaramálum hvort sem flokksbræður þeirra eru í ríkisstj. eða ekki.

Ég vil einnig að gefnu tilefni minna á að það frv., sem ég ræði um nú, um stéttarfélög og vinnudeilur, var þvílíkt áhugamál hæstv. forsrh. meðan hann enn sótti þingflokksfundi í Sjálfstfl., að hann tók sig sérstaklega fram um það fyrir einu ári eða svo að færa þetta mál hér inn í Alþingi. Mætti nú á það minna. Ég veit að hann er málafylgjumaður mikill, og ef hann beitir sér hefur hann sýnt að hann getur þráast við og komið málum áleiðis — nema hann sé fallinn frá því sem hann hugsaði þá um þessi mál.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að í þeim útvarpsumr., sem fram fóru í dag, var spurt um afstöðu ríkisstj. til þess vanda sem við blasir 1. júní n. k., þar sem m. a. var varpað fram fsp. til einstakra ráðh. um það, hvort þeir hefðu þegar ákveðið eða hvort þeir hefðu í hyggju, að ríkisstj. hlypi til. strax og búið væri að senda þingið heim, og setti brbl. sem fælu í sér enn meira kauprán á verkalýðnum en orðið er og er það þó allnokkuð. Er fróðlegt fyrir þá menn, sem mest beittu sér fyrir „samningunum í gildi,“ eins og hæstv. félmrh., að skoða þá súlu sem kemur fram hjá kauplagsnefnd núna, að öll kaupmáttarskerðingin, sem orðið hefur nú síðustu misserin, hefur orðið eftir að hann kom í ríkisstj. Það breytti um þegar Geir Hallgrímsson fór frá ráðherrastörfum. (Fjmrh.: Er þetta um fundarsköp?) Þetta er um fundarsköp, herra fjmrh. Það, sem ég er að spyrja um, er sem sagt þetta: Að hverju stefnir hæstv. ríkisstj. í sambandi við þinghaldið áfram? Að hverju er stefnt í sambandi við einstök mál stjórnarandstæðinga? Og hvers er að vænta um framhaldið? Og um leið og ég spyr að þessu mótmæli ég þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð, að við skulum hér hvað eftir annað standa frammi fyrir kvöldfundum, jafnvel um helgar, jafnvel á helgum dögum, svo að helgidagalöggjöfin er þverbrotin, jafnvel í dymbilviku. Og nú á sem sé að fara eina ferðina enn og misbjóða starfsfólki Alþingis svo, að þess eru varla nokkur dæmi, þvert ofan í þá löggjöf sem nýbúið er að setja um heilbrigði og hollustuhætti á vinnustöðum.