19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun hvorki tala um sauðburð né hrúta, heldur snúa mér að því að ræða það mál sem hér er til umr. Þannig var, að á fundi, sem haldinn var á laugardaginn síðasta, þegar reyndar var komið langt fram á dag og komið fram yfir kvöldmat, þá fór fram 2. umr. um frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, sem er 184. mál Alþingis. Ég leyfði mér þá við umr. að geta þess, að ég flutti brtt. við þetta mál, sem ég dró til baka til 3. umr. meðfram vegna þess að mér fannst hæstv. forseti það kvöld vera nokkuð fljótur til að stöðva umr. sem fóru fram um þetta mál. En það er ekki oft í vetur sem okkur hefur gefist tækifæri til þess, þm. í þessari hv. d., að ræða um iðnaðarmál.

Till. mín, sem ég leyfi mér að endurflytja nú við 3. umr., er við 6. gr. frv., þar sem nú stendur í lok gr. með leyfi forseta:

„Í því sambandi skal höfð hliðsjón af svæðisbundnum áætlunum er hlotið hafa staðfestingu stjórnvalda.“

Ég þarf ekki að eyða löngu máli í það að endurtaka það sem ég sagði við 2. umr. málsins. Ég tel að þessi mgr. sé allsendis óþörf, hún gefi í skyn að það eigi að fara eftir öðrum reglum en þeim sem eðlilegar geta talist þegar um er að ræða sjóð sem lánar samkv. því hlutverki sem þessum Iðnrekstrarsjóði er ætlað að gera samkv. 1. gr. frv.

Ég minntist enn fremur á, að það væru ýmsar fleiri brtt. við þetta frv. sem væri ástæða til að nefna, og nefndi eina þeirra, en hún var flutt við umr. í Ed. og fjallaði um það, að í 3. gr. næði fram að ganga sú breyting að Samband ísl. samvinnufélaga, sem á aðild að stjórn þessa sjóðs, félli út. Ég færði fyrir því ótal rök við 2. umr. og engin mótrök komu fram í þeim umr. Kjarni málsins var sá, að þetta frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð gerir ráð fyrir að stjórnin fari með ýmis trúnaðarmal. Og það er fyllilega óeðlilegt að eitt fyrirtæki geti umfram önnur fyrirtæki í landinu haft aðgang að mjög veigamiklum upplýsingum um vöruþróun og hönnun ýmis konar sem styrkja á samkv. 1. gr. þessa frv.

Ég benti rækilega á það að það væri furðulegt þegar um Samband ísl. samvinnufélaga væri talað, að þá væri ávallt talað um samtök fólksins þegar Samband ísl. samvinnufélaga þyrfti á aðstoð og fjármunum að halda. En hins vegar ef það ætti að láta eitthvað af hendi, þá væri þetta eitt vesælt fyrirtæki sem ætti ekki að bera meiri kostnað en önnur fyrirtæki í landinu.

Mér til mikillar furðu sá reyndar enginn þeirra manna, sem sitja hér í þessari hv. d., ástæðu til þess að fetta fingur út í þessi ummæli, og verð ég að álíta að menn fallist þá á þau gildu rök sem hafa komið fram hjá mér um þetta atriði frv.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls er það ekki oft sem manni hefur gefist kostur í vetur að ræða um iðnaðarmál. Ber að fagna því þegar tækifæri gefst til þess, og vissulega gefur þetta frv. slíkt.

Í aths. við lagafrv. þetta kemur fram í kaflanum sem kallaður er. „Erlendur samanburður — Samkeppni á sviði nýsköpunar“ ýmislegt merkilegt. Með leyfi forseta vil ég lesa fáeinar línur úr grg. Þar segir:

„Slíkur stuðningur við rannsókna- og þróunarstarfsemi, markaðsviðleitni og endurskipulagningu fyrirtækja er í fullu samræmi við ábendingar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um aðlögun að breytilegum samkeppnisaðstæðum samtímans.“

Síðan er fjallað um það, hvernig þessum málum er háttað erlendis. Og loks segir, með leyfi forseta: „Rannsókna- og þróunarstarfsemi er einn af mikilvægum þáttum umbótastarfs í iðnaði. Komið hefur í ljós við athuganir Rannsóknaráðs ríkisins á fjárframlögum til rannsókna, að íslensk iðnfyrirtæki leggja langtum minna til slíkra mála en samkeppnisfyrirtæki þeirra á Norðurlöndum, svo sem sýnt er á meðfylgjandi súluriti.“ — Það er súlurit sem birtist með frv. — „Ef ætla skal íslenskum iðnaði að standast óhefta samkeppni, verða annars vegar að koma til ný viðhorf hjá fyrirtækjum og hins vegar hvatning af hálfu hins opinbera til aukinna rannsókna og til skylds umbótastarfs í fyrirtækjum. Með því að beina auknu fjármagni til rannsókna á sviði iðnaðar gegn mótframlögum frá fyrirtækjum má án efa hafa veruleg áhrif í þessa átt.“

Hér er greint frá ákaflega merkilegu máli sem ég þekki vegna setu minnar í framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs og ég veit að framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs hefur unnið talsvert að, m. a. ásamt iðnrekendum, en hann hefur starfað með þeim að ýmsum málum iðnaðarins. Samkv. bandarískum rannsóknum er talið að hagvöxtur hafi minnkað í Bandaríkjunum og reyndar víða um heim aðallega vegna þess að rannsóknastarfsemi og þróunarstarfsemi, bæði innan fyrirtækja og eins í samvinnu við opinberar stofnanir, hefur dregist verulega saman. Þess vegna hefur allt kapp verið lagt á það í þessum löndum, sér í lagi í Ameríku, bæði í Bandaríkjunum og eins í Kanada, að reyna að örva fyrirtækin til dáða í þessu efni, reyna að fá fram meira fjármagn úr hendi fyrirtækjanna og með þeim hætti að örva hagvöxtinn, sem að sjálfsögðu er skilyrði lífskjarabata.

Mig langar til þess, vegna þess að um þetta er getið í grg. þessa frv. eða í aths. með þessu frv., að spyrja hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hafi að einhverju marki unnið að þessum málum, hvort fram hafi komið einhverjar tillögur, sem gætu leitt til þess að um slíka starfsemi væri að ræða innan fyrirtækjanna sjálfra, og með hverjum hætti ríkisstj. hyggst örva fyrirtækin með þessum hætti rannsókna- og þróunarstarfseminnar. Ég spyr í og með vegna þess, að fyrir rúmu ári voru sett lög á hinu háa Alþingi, nr. 13 frá 1979, sem eru þau lög sem mest hefur verið vitnað til á hv. Alþingi, en líkast til minnst verið farið eftir. Þetta eru lög sem nefnd voru eftir forsrh. þáv. ríkisstj., Ólafi Jóhannessyni, og kallast Ólafslög í daglegu tali. (Gripið fram í: ólög.) Í styttingu Ólög er kallað hér fram í og má kannske notast við það. Í þessum lögum er tekið skýrt og skorinort fram, að efla eigi rannsókna- og þróunarstarfsemi. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvað hafi verið gert til þess að efla þessa starfsemi? Mér er kunnugt um að Rannsóknaráð ríkisins taldi að ríkisstj. hefði á sínum tíma með þessari löggjöf fallist á langtímaáætlun Rannsóknaráðs, en í aths. við fjárlagafrv. í haust, kom annað hljóð í strokkinn, því að þar stóð berum orðum að ætlast væri til þess af hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma að hún á hverju ári gerði samþykkt um langtímaáætlun í þessu skyni. Þetta kom mér dálítið spánskt fyrir sjónir, vitnandi það að á Alþ. fyrir ári var samþ. þáltill. um þessi efni, sem verður varla skilin öðruvísi en að ríkisstj. hafi nánast verið falið að staðfesta langtímaáætlun Rannsóknaráðs. Ég nefni þetta atriði hér í beinum tengslum við þetta lagafrv., þar sem sá sjóður, sem hér er verið að setja lög um, fjallar einmitt um mjög merkilegan þátt í þróunar- og rannsóknastarfseminni. Í lok almennu aths. með þessu frv. segir síðan, með leyfi forseta:

„Með frv. þessu er tekin sú stefna að Iðnrekstrarsjóður geti gegnt því hlutverki að styðja slíkt starf. Um verkefni og starfshætti sjóðsins og verkaskiptingu við aðra sjóði vísast til minnisblaðs samstarfsnefndar um iðnþróun til iðnrh., sem er dagsett 23. apríl 1980 og fylgir með frv. Frv. þetta er samið með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.“

Þessi lokamgr. rifjar það upp fyrir mér og sjálfsagt öllum öðrum hv. þm., að á þingi s. l. vor kom fram á Alþingi þáltill. um iðnaðarstefnu frá hæstv. iðnrh., þeim hinum sama og nú situr í því sæti. Svo mikið lá á að settar voru fram í heilli bók allar hugmyndir sem þessi samstarfsnefnd um iðnþróun hafði unnið að og gefið út sem fskj. með þessari þáltill. Því miður gafst ekki tækifæri þá til þess að ræða þessa iðnaðarstefnu, og biðu menn þess vegna til haustsins, ekki síst vegna þess að í þessari skýrslu er vikið að mörgum mjög mikilvægum atriðum sem iðnaðurinn bíður eftir að fá að sjá hvernig Alþingi ætlar að taka á. Beðið var til hausts, sama ríkisstj. sat, hæstv. iðnrh., sem þá sat, sá sami og nú situr, lagði fram sína iðnaðarstefnu. Tveimur eða þremur dögum seinna sprakk hæstv. ríkisstj. eins og menn muna, efnt var til kosninga og eftir kosningar var mynduð ný ríkisstj. og í sæti hæstv. iðnrh. settist sami gamli iðnrh. Og nú bjóst þingheimur allur við því að fá að sjá þessa iðnaðarstefnu sem hann lagði svo mikið kapp á að kynna. Menn biðu og menn biðu og menn biðu og enn þá bíða menn. En iðnaðarstefna hæstv. iðnrh. lætur dálítið á sér standa. Ég veit að hæstv. iðnrh. hefur verið upptekinn við ýmiss konar störf, bæði innan þings og utan. En ég hefði gjarnan viljað sjá að hann hefði lagt fram þessa iðnaðarstefnu sína og gefið þinginu tækifæri til þess að ræða um hana hér á hv. Alþingi. Hæstv. iðnrh. hefur ekki kosið að fara þá leið. Og nú spyr ég hann og ætlast til svars, því að senn líður að þingslitum: Hvernig stendur á því, að hæstv. iðnrh., sem er enn iðnrh., var það í fyrra og einnig á næstliðnu þingi, að hann hefur ekki séð sér fært að leggja fram iðnaðarstefnu sína í þetta sinn? Er það vegna þess að nýir samstarfsmenn í ríkisstj., hluti úr Sjálfstfl., hafi komið í veg fyrir það eða er það af einhverjum öðrum ástæðum? Eftir svari bíða ýmsir. Eftir svari bíða iðnrekendur og iðnverkafólk í landinu, og almenningur bíður eftir svari, vegna þess að ef litið er til framtíðar og menn reikna sér kjarabætur með einhverjum hætti, þá hlýtur það fyrst og fremst að byggjast á réttri iðnaðarstefnu.

Eitt af því almikilvægasta sem hver ríkisstj. verður auðvitað að fást við, er iðnaðarstefnan og þá ekki síst sá hluti hennar hér á landi sem við getum kallað stóriðjustefna. Stóriðjustefnan hlýtur að vera í beinum tengslum við þá orkustefnu sem rekin er á hverjum tíma. Margoft hefur verið sýnt fram á það, að með stóriðju er hægast að ná fram lífskjarabótum hér á landi. Það hefur verið sýnt fram á það af ýmsum ágætum hagfræðingum og það hefur ekki verið hrakið, að ef hagvöxtur á að aukast hér á landi og kannske tvö- til þrefaldast, ná því jafnvel, sem sumir segja að sé hægt, að vera 7% á ári og geta þannig tvöfaldað þjóðarframleiðsluna á tíu árum, þá verðum við að leita í þá atvinnuvegi sem gefa okkur mest í aðra hönd. Við verðum að beisla orkuna, finna henni það form, sem hún getur fengið á sig til útflutnings, með því að eiga samvinnu við þá aðila sem vilja nota þessa orku. Og ég spyr: Hver er stóriðjustefna þessarar ríkisstj.? Mér finnst það eðlilegt á þessu þingi, þegar þröngva á hverju málinu fram á eftir öðru, að hæstv. iðnrh. taki hér þátt í umr. um iðnaðarmál þegar honum hefur láðst á þriðja þingi, sem hann situr, að setja fram þá iðnaðarstefnu sem unnin var í samráði við ýmsa aðila iðnaðarins hér á landi.

Ég ætla mér ekki, herra forseti, að níðast mjög á tíma þingsins sem ég veit að er ekki mjög mikill fram að þingslitum. En ég kemst ekki hjá því, vegna þess hve sjaldan tækifæri hefur gefist í vetur að ræða um iðnaðarmál, að taka hér tvö eða þrjú mál úr þeirri iðnaðarstefnu sem kemur fram í áliti samstarfsnefndar um iðnþróun.

Fyrsta málið, sem ég ætla að nefna, er mér nokkuð skylt vegna þess að á næstsíðasta þingi flutti ég hér á hv. Alþ. tillögu um tollamál, sem var nánast samhljóða þeim hugmyndum sem komu fram í áliti samstarfsnefndar um iðnþróun. Talsverðar umr. urðu um þetta mál hér í þingi og hæstv. iðnrh. fannst heldur lítið til koma. Hann sagði nánast að ég hefði tekið — ég vil nú ekki orða það: ófrjálsri hendi, en ég hefði sem sagt notað gögn sem hefðu verið á borðinu hjá samstarfsnefnd um iðnþróun, tillagan hefði byggst á einum lið í þeirri stefnu sem hann ætlaði sér að fylgja fram. Sem betur fer, vegna þess að hæstv. iðnrh. er bardagamaður mikill og fylginn sér, kvaðst hann mundu fylgja þessu máli fram, það gæti bara ekki gerst á þeim tíma, það yrði að bíða til haustsins. Í samræmi við þetta féllst ég á sem 1. flm. þessarar till. að henni væri vísað til ríkisstj., og það var gert af hv. fjh.- og viðskn. Nd. með þeim orðum að þarna væri um bráðnauðsynlegt mál að ræða sem þyrfti að leysa. Mér er kunnugt um að þetta mál hefur verið á hreyfingu, og í raun ætti ég að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvernig þessu máli líði. En þar sem hann hefur nú kosið að yfirgefa salinn eins og aðrir ráðh., en sá hugaðasti situr hér, hæstv. iðnrh., þá leyfi ég mér, vegna þess að þeir eru flokksbræður, að beina þeirri spurningu til hans, hvar þetta mál sé statt í kerfinu. Til upprifjunar vil ég — með leyfi forseta — fá að lesa það sem stendur um þetta mál í skýrslu þeirri sem fylgdi tvisvar sinnum iðnaðarstefnu hæstv. ráðh., en hefur ekki komið fram á þessu þingi. Þar segir á bls. 63 og ég mun ekki lesa marga tugi bls., ég lofa því:

„Samstarfsnefnd um iðnþróun leggur til að lögum um tollskrá, nr. 120/1976, verði breytt og 12 tl. 3. gr. flytjist í 2. grein sem ber yfirskriftina: „Tollfrjáls innflutningur.“

Þarna er um það að ræða, svo ég skjóti inn í texta, að færa ákveðna grein úr heimildagrein og yfir í skilyrðislausan tollfrjálsan innflutning. Og ég held áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„13 tölul. 3. gr. hljóði svo:

Aðföng (hráefni, hjálparefni, rekstrarvörur, umbúðir, vélar, tæki, þ. m. t. flutningstæki til flutninga innan verksmiðjulóða, hlutar til véla og tækja, áhöld hvers konar og varahlutir) þeirra iðnfyrirtækja, sem stunda framleiðslu til útflutnings eða eiga í beinni samkeppni við vörur og þjónustu (viðgerðir og verktöku á sviði iðnaðar), sem heimilt er að flytja til landsins, eða óbeinni samkeppni, þegar heimill er innflutningur, sem komið getur í stað innlendrar vöru eða þjónustu. Samkv. skilningi þessa tölul. merkir orðið gjöld í tollskrá toll, söluskatt, vörugjald og jöfnunargjald, eftir því sem við á.

Fjmrn. setur nánari reglur um framkvæmd ákvæða þessa tölul. að höfðu samráði við iðnrn. og samtök iðnaðarins.“

Og í grg. segir:

„Sá þáttur aðbúnaðarmálanna, sem verið hefur hvað umdeildastur, er álagning aðflutningsgjalda af fjárfestingarvörum og rekstrarvörum iðnaðar í samkeppni við tollfrjálsan innflutning. Afnám aðflutningsgjalda af samkeppnisiðnaði hefur þótt sjálfsagt réttlætismál, en gætt hefur vaxandi íhaldssemi hjá fjmrn. og tollayfirvöldum í túlkun þeirra laga og reglna, sem þar um ræðir. Veldur framkvæmd tollalaga í þessu tilfelli stöðugum erfiðleikum og verða iðnfyrirtæki enn að greiða allháar upphæðir til hins opinbera fyrir vörur, sem ættu að vera undanþegnar slíkum gjöldum.

Á aðlögunartíma EFTA-samningsins hafa aðflutningsgjöld af aðföngum samkeppnisiðnaðar smám saman verið felld niður að mestu. Var þetta í fyrsta lagi gert með beinni niðurfellingu aðflutningsgjalda í tollskrá af þeim tollskrárnúmerum, sem aðföng iðnaðar féllu undir, og í öðru lagi með heimildarákvæðum í tollskrá og fjárlögum.

Enn eru þó of mörg dæmi um, að fyrirtækjum í útflutningssamkeppnisiðnaði er gert að greiða aðflutningsgjöld af aðföngum sínum, og veldur þar eftirfarandi mestu:

1) Aðföngin falla í svokölluð blönduð tollskrárnúmer, þ. e. aðföng iðnaðar falla í tollskrárnúmer sem að verulegu leyti innifela vörur til annarra notenda en iðnfyrirtækja. Hefur því ekki verið talið fært að fella niður toll í viðkomandi tollskrárnúmerum vegna tekjusjónarmiða ríkissjóðs.

2) Túlkun 3. gr. 12. tl. bæði hvað snertir gildissvið aðfanga og skilgreiningu samkeppnisiðnaðar er of þröng til að tölul. nái því að heimila niðurfellingu allra aðflutningsgjalda til samkeppnisiðnaðar.

3) Fjmrn. hefur nýverið farið að túlka heimildarákvæðin þannig, að einungis sé heimilt að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af aðföngum, sem beri jafnhá gjöld eða hærri en samkeppnisvaran.

Með fyrrgreindri till. næðist það endanlega markmið, sem að hefur verið stefnt, að fella niður að fullu aðflutningsgjöld af aðföngum þeirra iðnfyrirtækja sem eiga í samkeppni við innflutning, að selja vörur á erlendan markað.“

Hér lýkur tilvitnun í grg. sem birt var sem fskj. með þáltill. hæstv. núv. og um leið fyrrv. iðnrh. og ég hef lesið hér upp til þess að rifja upp fyrir honum, ef hann skyldi vera búinn að gleyma hvað í þessu fskj. stendur.

Ég vil ítreka það, að mín spurning beinist að því, hvar þetta mál stendur, sem ég veit að við sameiginlega, ég og hæstv. iðnrh., höfum barist fyrir leiðréttingu á. Er það í fjmrn. sem þetta mál strandar. Í fjmrn. situr nú hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds, sem er flokksbróðir hæstv. iðnrh., og þess vegna leyfi ég mér að beina þessari spurningu til hins síðarnefnda.

Það væri vissulega ástæða til og vonandi gefst tækifæri til þess fyrr en síðar að fjalla um fjölda annarra mála sem eru í fskj. með iðnaðarstefnu hæstv. ráðh. og ég hef nú verið að lesa úr, en það var mjög mikilvæg vinna sem iðnrekendur og iðnverkafólk ásamt fulltrúa ráðh. stóðu að á sínum tíma. Gerð þessarar skýrslu var ágætt framtak og ég fagnaði því sannarlega á sínum tíma, þegar þessi skýrsla var gefin út, því að í henni voru fjölmargar hugmyndir. Þar var snert við beinum baráttumálum iðnaðarins, svo sem þeim er varða framkvæmd samninga við EFTA og EBE. Fjallað er um gengisskráningu, skattamál, verðlagsmál auk tollamálanna, sem ég gat um fyrr, og fjölda annarra mála, eins og t. d. lánamál og þ. á m. það mál, Iðnrekstrarsjóð, sem er sérstaklega hér til umr. og snýr að ákveðnum þætti iðnaðarins. Um þessi mál öll hefði verið gaman að fjalla á þessum tíma. En ég veit að þm. verða að takmarka sitt mál því að senn líður að þingslitum. En það er eitt mál sem mig langar þó sérstaklega til þess að fjalla um öðrum fremur og er aftar í þessari sömu grg. eða áliti samstarfsnefndarinnar. Það er um stofnun nýiðnaðarfyrirtækja.

Hæstv. ráðh. veit jafnvel og allir þeir, sem fylgjast náið með iðnaði, hve erfitt hefur verið að koma á stofn nýjum iðnaðarfyrirtækjum hér á landi. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í þeim iðnaði sem við getum kallað meðalstóran iðnað. Það er sá iðnaður sem er á milli smáiðnaðarins, sem hér hefur fengið að þróast um áratugaskeið, og stóriðjunnar, sem sumir vilja ekki kalla stóriðju, heldur kannske fremur orkuiðju eða orkusölu, vegna þess að um litla innlenda tækni er að ræða og litla innlenda iðnþróun er að ræða í þeim iðnaði og jafnvel lítið um að sú stóriðja, sem hér er stunduð, gefi í aðra hönd þróunarmöguleika fyrir ýmsan smærri íslenskan iðnað. Í því sambandi hefur oftsinnis verið skrifað um það, að hægt sé að nota ýmislegt sem byggt hefur verið upp fyrir stóriðjuna, svo sem hafnaframkvæmdir, raforku, heitt vatn, vegalagningu og þess háttar, til þess að koma fyrir minni iðnfyrirtækjum við hlið stóriðjufyrirtækjanna. Um slíkt hefur því miður ekki verið að ræða, enda virðist vera hlaupin sú feimni í hæstv. iðnrh., að hér á hv. Alþ. er ekki ætlunin að ræða sérstaklega og almennt um íslenskan iðnað í vetur. Við fáum hér í smáskömmtum nokkur frumvörp sem fyrst og fremst fela í sér að það eigi að koma ákveðnum sjóðum undir hendur ákveðinna manna, eins og hvíslað var að mér úti á götu um daginn. Ég læt ráðh. eftir að gera grein fyrir því, hvort satt reynist. Það fær hann tækifæri til í verki.

Það mál, sem e. t. v. var stórfelldast að mínu mati í þessari ágætu skýrslu, var sá þáttur sem fjallaði einmitt um stofnun nýiðnaðarfyrirtækja. Ég veit að fyrrv. aðstoðarráðh. hæstv. iðnrh. hafði mikinn áhuga á þessum málum og má vera að fjarvera hans úr rn. geri það að verkum, að minni áhugi virðist nú vera á þessu máli heldur en var í upphafi ráðherraferils núv. hæstv. iðnrh.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa örlitinn kafla til þess að rifja upp fyrir hæstv. ráðh. það sem stendur í þessari skýrslu sem hann hefur gleymt að leggja fram á yfirstandandi þingi. Þar segir — með leyfi forseta — á bls. 171, þannig að ég hef hlaupið yfir 110 síður:

„Hér hafa verið gerðar till. um víðtæka eflingu nýiðnaðarstarfsemi, að hluta á grunni starfandi iðnaðar, en þó ekki síður með stofnun nýrra fyrirtækja vegna nýrra og áður óreyndra framleiðslumöguleika.“ — Ég skýt því inn hér að það er einmitt á þessu sviði sem Iðnrekstrarsjóður kemur málinu kannske mest við, þ. e. varðandi þróunarstarfsemina. Ég held áfram lestrinum: „Mörg hinna síðarnefndu verða hlutfallslega dýr í stofnkostnaði og veruleg áhætta fylgir því að hefja rekstur, sérstaklega á þeim sviðum, sem lítil reynsla er fyrir hendi hérlendis, en hagnýttar eru innlendar aðstæður. Má búast við því, að byrjunarerfiðleikar verði fremur reglan en undantekningin, ef marka má reynsluna hingað til.

Miðað við stærð fjárfestinga, sem hér hafa tíðkast í iðnaði, sýnist vafasamt, að einstaklingar eða einkafyrirtæki geti fjármagnað stærri framkvæmdir en 500–600 millj. kr. að óbreyttu.“ — Þetta er á þáverandi verðlagi að sjálfsögðu. — „Hér er greinilega mismunur á aðstöðu iðnaðar og sjávarútvegs, þar sem fjárfesting í skipum, sem kosta 1–2 milljarða, er algeng. Lán til skipakaupa nema þó oftast 85–90% og getur það, sem á vantar, fjármagnast af sölu eldri skipa og lausu eigin fé.“

Síðan segir og undirstrikað:

„Samstarfsnefndin leggur áherslu á nauðsyn þess, að greiðari aðgangur fáist að lánsfé til fjárfestinga í iðnaði og hærra hlutfall verði lánað en verið hefur, enda réttlæti arðsemi fjárfestingarinnar lánin. Verði þannig unnt að verkja frumkvæði einkaaðila og fyrirtækja til fjárfestinga í myndarlegum nýiðnaðarfyrirtækjum.

Það er skoðun Samstarfsnefndarinnar, að frumkvæði eða a. m. k. hlutdeild ríkisins verði óhjákvæmileg í stofnun margra stærri nýiðnaðarfyrirtækja. Sýnist nefndinni nauðsynlegt, að tekið sé gagngert á því máli með einhverjum hætti. Til álita gæti komið að setja allan iðnrekstur á vegum ríkisins undir eitt eignarhaldsfyrirtæki (holding company), sem m. a. hafi það markmið að fara með hlutverk hins raunverulega eiganda gagnvart fyrirtækjum, sem ríkið á aðild að.“ — Það, sem er merkilegt, og ég skýt því inn hér, herra forseti, við þetta er að þarna er nefnd hugmynd sem svifið hefur yfir vötnunum nú um skeið og fjallar um svokallað eignarhaldsfélag, eignarhaldsfyrirtæki eða „holding company,“ eins og það er kallað á erlendum tungumálum. Nú veit ég að þetta var áhugamál fyrrv. aðstoðarráðh. Hann vann mikið að þessu máli. Og mér er kunnugt um að einn af flokksbræðrum hæstv. ráðh. skrifaði um þetta merka grein í tímarit hér á landi fyrir rúmu ári. Þar gætti þessara viðhorfa og mér þykja þau svo merkileg, að ég tel fulla ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðh., áður en ég missi hann af þinginu, hvort eitthvað hafi verið unnið meira í þessum málum að undanförnu heldur en það sem ég hef hér verið að lesa upp og er aðeins í lauslegum hugmyndum. — Ég held áfram lestrinum til að rifja upp fyrir hæstv. ráðh.: „Þannig fáist eðlilegt eftirlit með rekstrinum og þess gætt að hann sé í samræmi við eðlilegar arðsemiskröfur og að ákvarðanir eigandans séu teknar með skjótum hætti og verði ekki pólitískt bitbein milli rn. Pólitískar ákvarðanir, sem hafa í för með sér skuldbindingar sem draga úr arðsemi eða auka stofnkostnað, séu aðskildar frá arðsemissjónarmiðum og þá reiknaðar sérstaklega til kostnaður sem Alþingi eða ríkisstj. taki síðan ákvörðun um. Eignarhaldsfyrirtækið þyrfti að hafa fjárhagslegt bolmagn og sjálfstæði til að stofna ný fyrirtæki, sem metin eru arðvænleg og geti látið fara fram rannsóknir og þróunarstarfsemi til undirbúnings lokaákvörðun. Gæti það þannig tekið á móti hugmyndum ýmist frá opinberum stofnunum (Iðatæknistofnun Íslands o. fl.) sem vinna að þróunarmálum, eða sveitarfélögum, fyrirtækjum eða einkaaðilum og tekið þátt í stofnun fyrirtækis með þeim hætti sem hentar hverju tilfelli.

Arður af fyrirtækjum og hlutabréfum í ríkiseign rynni til eignarhaldsfyrirtækisins svo og hugsanlegt andvirði seldra bréfa eða eignir uppleystra hlutafélaga. Væri stjórninni heimilt að ráðstafa slíkum tekjum í nýjan rekstur eða fyrirtæki, sem æskilegt og arðvænlegt sýndist að byggja upp.“

Hér geri ég aðeins hlé á lestrinum. Hér er komið að þeim þætti sem er kannske hvað merkilegastur í þessu, og það er að hreyfa til það fjármagn, sem er bundið í núverandi fyrirtækjum hins opinbera, selja hlutafé, selja fyrirtæki einstaklingum sem vilja taka yfir reksturinn, en nýta fjármagnið, sem þannig fengist, sem lið í iðnaðaráformum í iðnþróun hér á landi. Ég veit að hæstv. ráðh. var með steinullarverksmiðju á prjónunum. Það er kannske skrýtið að hafa steinull á prjónunum. Það gengur kannske illa að prjóna steinullina. En alla vega flaug þessi frétt fyrir í ekki ómerkara blaði en Þjóðviljanum. Hún er kannske betri en ullin hans Ólafs Ragnars, sem var án stálvíranna. En það er önnur saga. Þessi mál um steinullina hafa ekki birst á þessu þingi. Og það má vel vera að hæstv. ráðh. hafi verið veikur undanfarið eða lasinn eða einhver vanhöld á mannskap í rn. hjá honum. En alla vega hafa þau mál ekki komið inn á þingið sem boðuð voru í fréttum dagblaðanna. Væri fróðlegt að heyra, þegar hæstv. ráðh. kemur hér upp á eftir og gerir grein fyrir sínu máli og svarar framkomunum spurningum, hvað hann segir hv. Alþingi frá því, hvað orðið hafi af þessum málum.

Það er annað atriði, sem ég tel ástæðu til að nefna enn fremur sem innskot í þessu máli, og það er frétt sem ég sá í Þjóðviljanum ekki alls fyrir löngu og fjallar um að hafnarnefndin í Reykjavík hefði úthlutað Landssmiðjunni landrými við Vatnagarðana gömlu hér í Reykjavík, þar sem á að byggja upp iðnaðarsvæði fyrir skipasmíðaiðnað og járnsmíði sem er tengd skipaiðnaðinum. Mér var kunnugt um það sem fjvn.-manni, að Landssmiðjan fékk leyfi til þess eða öllu fremur ríkisstj. heimild til þess í 6. gr. fjárlaga að selja húsið við Sölvhólsgötu. En mér er allsendis ókunnugt um það, að sama fyrirtæki hafi fengið leyfi réttra stjórnvalda til þess að flytja starfsemi sína, og efast ég þó ekki um að slíkt leyfi hafi fengist. Og nú spyr ég hæstv. ráðh.: Er það leyfi fengið, og hvað er að frétta af þessu máli? Þetta mál tek ég upp hérna einkum vegna þess að Landssmiðjan er eitt þeirra fyrirtækja sem auðvitað er kjörið að selja, ekki síst vegna þess að Landssmiðjan er í fullri og óskoraðri samkeppni við önnur fyrirtæki á sama sviði og hefur frá 4% og kannske upp í 8% af markaðnum. Hins vegar hefur Landssmiðjan stundað starfsemi eins og innflutning sem ekki er gert ráð fyrir að hún geri í lögum um Landssmiðjuna. Má segja að fyrirtækið hafi fyrst og fremst nærst á innflutningi, þvert ofan í yfirlýst stefnumið fyrirtækisins á undanförnum árum og áratugum.

Ég tel Landssmiðjuna það gott fyrirtæki, að það sé augljóst mál að einstaklingar, þ. á m. starfsmenn Landssmiðjunnar, kynnu að hafa áhuga á að kaupa fyrirtækið. Og ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann láti kanna hvort ríkið sé ekki tilbúið að lána ágætum starfsmönnum Landssmiðjunnar nokkurt fjármagn til þess að þeir geti eignast þetta fyrirtæki að nokkru eða öllu leyti. Þetta vil ég að gerist áður en rokið er í það með fjármagni almennings að byggja upp stórt fyrirtæki fyrir Landssmiðjuna og láta hana yfirtaka jafnvel rekstur sem önnur fyrirtæki í Reykjavík, einkafyrirtæki, ráða vel við. Um þetta vil ég gjarnan heyra álit hæstv. ráðh. Ég veit að hann er málinu gjörkunnugur. Ég veit að hann lét á sínum tíma útbúa skýrslu um þetta mál af nefnd sem náskyldur ættingi hæstv. ráðh. sat í, og hann er málefnum Landssmiðjunnar mjög kunnugur. Mér finnst tími til kominn, áður en ég les slíkar fréttir í Þjóðviljanum, að hæstv. ráðh. geri Alþingi grein fyrir hvað er að ske, ekki síst vegna þess að um Landssmiðjuna eru lög. Og ef Alþingi setur lög sem eru um stefnumið ákveðins fyrirtækis, þá þýðir það að hv. Alþingi vill hafa hönd í bagga með hvað gerist í þessu fyrirtæki. Ég hef trú á Landssmiðjunni, ég hef trú á starfsmönnum Landssmiðjunnar, og ég hef þá trú að starfsmenn Landssmiðjunnar kynnu að reka þetta ágæta fyrirtæki jafnvel miklum mun betur en það er rekið í dag. Það er öllum ljóst, að Landssmiðjan er í dag fyrst og fremst þjónustufyrirtæki fyrir ýmsar ríkisstofnanir, og ég efast um að slík viðskipti séu endilega bestu viðskiptin í þessari grein. Landssmiðjan hefur fyrst og fremst notið þess og um leið goldið þess, að Landhelgisgæslan, Skipaútgerð ríkisins og Hafrannsóknastofnunin að einhverju leyti hafa sótt til Landssmiðjunnar um þjónustu. Mér er kunnugt um að þjónustan hjá Landssmiðjunni hefur fyllilega staðist samkeppni um verð, a. m. k. þegar um útboð hefur verið að ræða, þannig að um verðsamanburð er að ræða. Af þessu fyrirtæki hefur ekkert frést annað en það sem stóð í Þjóðviljanum. Nú langar mig til að ítreka þessa spurningu til hæstv. ráðh.: Er eitthvað hæft í fréttum Þjóðviljans að þessi sinni? Ég er að vísu vanur því, að þar er ýmislegt sagt sem vonlaust er að henda reiður á, en til öryggis og af því að ég veit að hæstv. ráðh. er heima- og hagvanur á skrifstofu Þjóðviljans, þá veit ég að hann getur upplýst þingheim um það, hvort hæft sé í þessari frétt. (HBl: Þótt undarlegt sé taka ýmsir mark á Þjóðviljanum enn þá.)

Þá held ég áfram lestrinum og fjalla að sjálfsögðu um iðnaðarmál og er að rifja upp nokkur atriði sem koma því máli við, sem nú er til umr. hér í hv. d., frv. um Iðnrekstrarsjóð, og snertir að sjálfsögðu þetta mál, enda unnið af sömu nefnd og samdi þá skýrslu sem hér er tíðvitnað til, með leyfi forseta:

„Lögð áhersla á nauðsyn þess, að slíku fyrirtæki yrði stjórnað með arðsemissjónarmið í fyrirrúmi, en þó með það skýrt í huga að því er ætlað að taka áhættu og vinna brautryðjendastarf, þar sem byrjunarerfiðleikar geta komið upp. Fyrirtækið yrði að ráða yfir mjög hæfu starfsliði á sviði stjórnunar, fjármála, markaðsmála og rekstrartækni og sjá til þess, að reynsla af stofnun og rekstri nýrra fyrirtækja safnist saman og komi að gagni við nýjar framkvæmdir og ný verkefni og bolmagn fáist til að leysa vandamál, sem upp koma.“

Ég hef, herra forseti, lesið hér smákafla um stofnun nýiðnaðarfyrirtækja og sé ekki ástæðu til þess að hafa þann lestur lengri, en legg á það áherslu, að alls staðar í þessum kafla kemur fyrir sama hugtakið, sama orðið, og það er að það verði að gera fyllstu arðsemiskröfur til íslensks iðnaðar. Nú spyr ég hæstv. iðnrh.: Er hann sammála þessum niðurstöðum? Er hann sammála því, að gera eigi miklar arðsemiskröfur til íslensks iðnaðar? Og ég vil enn spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða íslenskur iðnaður skilar mestri arðsemi um þessar mundir? Og ég spyr enn: Telur hæstv. iðnrh. að framtíð sé í aukinni stóriðju á Íslandi? Ég spyr hæstv. ráðh.: Hver eru næstu áform ríkisstj. um stóriðju á Íslandi í sambandi við orkuver? Og ég gæti þannig haldið áfram að spyrja hæstv. ráðh. þeirra spurninga sem ég ætlaði að spyrja hann þegar hann flutti ræðu sína um iðnaðarstefnu þá sem hann lét út ganga á síðasta og næstsíðasta þingi, en af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur ekki fengið að sjá dagsins ljós á yfirstandandi hv. Alþingi.

Ég mun, herra forseti, innan tíðar ljúka mínu máli, en kemst þó ekki hjá því í lokin að rifja það upp, að s. l. laugardagskvöld, þegar við þm. vorum staddir hér í hv. d. og ræddum um Iðnrekstrarsjóð, komu fram tillögur frá tveimur Alþfl.-mönnum. Önnur þeirra till., sem þeir báru fram, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Vilmundur Gylfason, gekk út á það að verðtryggja lán úr Iðnrekstrarsjóði. Sú till. var felld, og ég mun ekki leggja dóm á réttmæti hennar. Það sagði ég þá enn fremur. En af því tilefni var þráfaldlega um það spurt úr þessum ræðustól hér i hv. deild. Og af því að ég sé að í liðssveit hæstv. ráðh. hér á þingi hefur bæst, liðsaukinn hefur tvöfaldast og inn er kominn fyrrv. hæstv. iðnrh. og núv. hæstv. forsrh. þá víl ég spyrja annan hvorn þeirra og báða, annar þarf þó að vera til svara: Hvað hyggst ríkisstj. gera í sambandi við vaxta- og verðbótastefnu þá sem bundin er í lögum nr. 13/1979? Ætlar hæstv. ríkisstj. að halda þeirri iðju sinni áfram að svíkja þá sem í góðri trú hafa lagt inn á sparisjóðsbækur bundið fé til þriggja, sex eða tólf mánaða? Ætlar hæstv. ríkisstj. að fara að settum lögum? Má búast við því, að innan tíðar verði stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstj.?

Allir vita að það þing, sem nú situr, er senn á förum. Þinglausnir eru í nánd. Ekkert hefur komið fram af hálfu hæstv: ríkisstj. sem bendir til þess, að hún ætli að fara að þessum lögum, sem ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að eru margsinnis brotin, og nánast aldrei hefur verið farið eftir þeim. En ýmsir aðilar hafa þó notað þau sér til varnar, þegar þannig hefur staðið á, og þ. á m. trúað því sem um vaxta- og verðbætur stendur í þessum lögum. Það vakti athygli þm. hér á laugardagskvöldið þegar svar við þessari spurningu birtist í langri og eyðilegri þögn. Sú þögn var eins konar grafarþögn. Ég veit ekki hvort hún er fyrirboði, en hitt veit ég, að sú þögn varð ekki skilin á annan veg en þann, að sú hæstv. ríkisstj., sem hér situr að völdum, ætli sér ekki að fara að lögum, hún ætli að halda áfram að svíkja þá sem eru kannske almerkilegustu hreyfivélarnar í íslensku þjóðfélagi, þá aðila, þá einstaklinga, það fólk sem leggur í banka til þess að atvinnuvegirnir geti gengið, því að eins og allir vita gerir hæstv. ríkisstj. Íslands það að sinni iðju að tæma vasa skattgreiðendanna til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hikar þá ekki við að taka þá fjármuni sem annars mundu nýtast í atvinnustarfsemina í landinu. Slíkur reginmisskilningur á því, hvernig þjóðfélag vinnur, byggist upp og skapar sin auðæfi, held ég að sé vandfundinn á jarðarkringlunni. Skilningsleysi á því, að það er framleiðslustarfsemin og sala framleiðslunnar sem gildir, en ekki útþensla ríkisbáknsins, — slíkur misskilningur er með þeim hætti að það verður úr þessu húsi, frá þessari stofnun, frá hv. Alþingi að koma hljóð. Og ég mælist til þess enn einu sinni við hæstv. iðnrh. eða hæstv. forsrh. að þeir svari þjóðinni, þeir svari þeim sem lagt hafa fé til hliðar. (Forsrh.: Það er ekki hægt að biðja menn um svar þegar menn komast aldrei að.) Ég lýk máli mínu og gef hæstv. forsrh. tækifæri til að taka til máls og vonast til að hann geri það hér á eftir.