19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar ríkisstj. var mynduð 8. febr. höfðu árangurslausar tilraunir til stjórnarmyndunar staðið yfir í tvo mánuði. Myndun núv. stjórnar var þá orðin eini möguleikinn til þess að landið fengi þingræðisstjórn. Og hvað hefur stjórnin aðhafst þessa þrjá mánuði?

Hún þurfti fyrst að fást við það verkefni að semja fjárlög, en til þess eru að jafnaði ætlaðir 4–5 mánuðir. Hún lauk því verki á einum mánuði. Fjárlagafrv. var lagt fram á Alþingi 10. mars. Fjárlög voru afgreidd frá þingi þrem vikum síðar, 2. apríl, en venjulega tekur meðferð fjárlaga á Alþingi rúma tvo mánuði.

Að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var unnið bæði jafnhliða og siðar. Hún var ásamt frv. til lánsfjárlaga lögð fram 3. maí.

Um miðjan apríl tók ríkisstj. saman skrá um þau frv. og till. sem hún óskaði að næðu fram að ganga á þessu þingi. Þessi þingmál eru 37 að tölu. Listinn var afhentur þingforsetum og formönnum þingflokka og 1. maí hélt ég fund með þeim til þess að ræða þessa skrá og störf Alþingis. Þar var ágæt samstaða um þinghaldið og menn sammála um að stefna að þinglausnum 20. maí. Af hálfu ráðh. hefur málum verið fylgt eftir í samræmi við þessa verkefnaskrá. Þessi vinnubrögð af hálfu ríkisstj. hafa borið árangur. Af þessum 37 málum hafa nær 30 þegar verið afgreidd. Þau, sem eftir eru, verða væntanlega afgreidd næstu daga, en nauðsynlegt getur orðið að halda þingi áfram eitthvað fram eftir vikunni vegna þessara mála. Þegar þinglausnir fara fram í þessari viku ættu því öll þessi 37 stjfrv. og till. að hafa náð fram að ganga. Ég ætla að þess séu ekki dæmi áður að mál ríkisstj. hafi hlotið þennan framgang.

Þetta er um þingmálin. En utan þeirra hafa ótalmörg mál verið tekin til meðferðar á þeim 40 ríkisstjórnarfundum sem haldnir hafa verið síðan stjórnin var mynduð. Þótt þingstörf og lagasetning sé grundvallaratriði og undirstaða í mörgum greinum veltur margt það, sem mikilvægt er, á framkvæmdinni sjálfri. Ekki á það síst við um viðnám gegn verðbólgunni, þar sem reynslan sýnir að löngum hafa lítt stoðað hyggileg lagaboð, frómar óskir og fögur fyrirheit. Það varðar mestu jafnan, nú sem áður, hvernig til tekst í framkvæmd.

Við úrlausn þeirra fjölmörgu viðfangsefna, sem ríkisstj. þarf við að fást og leysa, hlýtur það að vera meginregla og leiðarljós hverrar ríkisstj. að reyna að sjá vítt yfir, hafa ekki asklok fyrir himin, heldur hafa heildarsýn. Þegar till. eða kröfur berast frá stéttum, stofnunum, fyrirtækjum, hagsmunahópum, sem þessir aðilar færa rök fyrir og eru oftast sjálfir sannfærðir um að rétt sé, þá verður ríkisstj. að líta til allra átta, meta áhrifin á hag heildarinnar, og skylda hennar er að veita viðnám, sanngjarnt en traust. Tökum dæmi:

Hitaveita Reykjavíkur sótti um að hækka hitaveitugjöldin um 58%. Veigamikil rök fylgdu þessari beiðni og þarf ekki að rekja þau hér. En ríkisstj. verður að meta áhrif og afleiðingar á öðrum sviðum. Hitaveitugjöld í Reykjavík vega svo þungt í vísitölu, að hefði þessi beiðni verið samþ. hækkaði vísitalan við það um rúmlega 1% og þar með allt kaupgjald í landinu um þá tölu. Kaupgreiðslur í landinu eru áætlaðar í ár um 540 milljarðar. Hin umbeðna hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur hefði því haft í för með sér hækkun á launakostnaði launagreiðenda um 5.4 milljarða eða 5400 millj. kr. miðað við ár. En beinn launakostnaður Reykjavíkurborgar af gjaldskrárhækkuninni hefði orðið rúmar 300 millj. kr. á ári. Talsverður hluti þessa launakostnaðar hefði óhjákvæmilega runnið út í verðlagið og gjaldskrárhækkunin hefði því haft verðbólguáhrif langt umfram það sem nemur þessu eina prósenti sem kæmi beint inn í vísitöluna.

Nú má gagnrýna þetta vísitölukerfi. En það gildir í dag. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki horft. Ríkisstj. féllst á tillögu gjaldskrárnefndar um 10% hækkun í stað 58%. Það eru þung spor að geta ekki orðið við óskum hins ágæta fyrirtækis, en hinar þjóðhagslegu afleiðingar hefðu orðið enn þungbærari.

Nefnum annað dæmi:

Litlu eftir að stjórnin var mynduð komu fulltrúar frystihúsanna á fund hennar. Þeir tjáðu henni erfiðleika frystiiðnaðar og færðu fram rök sín. Aðspurðir sögðu þeir að vart væri um aðra leið að ræða en gengislækkun.

Ríkisstj. er það ljóst, að slíkur undirstöðuatvinnuvegur sem frystiiðnaður verður að hafa eðlilegan starfsgrundvöll og möguleika til góðrar afkomu. Hins vegar lá það fyrir, að afkoma frystihúsanna hafði verið sæmileg og sums staðar góð undanfarin tvö ár, að frystihúsin höfðu sjálf fáum vikum áður samþykkt að greiða 11% hærra fiskverð en áður og að breytingin á afkomu þeirra hafði orðið með mjög snöggum hætti. Með þessi atriði í huga og þegar litið er til þess, að lækkun krónunnar veldur verðhækkun innanlands og eykur verðbólgu, þótti ríkisstj. nauðsynlegt að kanna þessi mál allrækilega áður en ákvarðanir væru teknar. Ríkisstj. fékk kaldar kveðjur frá sumum fulltrúum frystiiðnaðarins, sem fannst furðulegt að stjórnin skyldi ekki umyrðalaust fallast á hugmyndir þeirra. Eftir rækilega könnun á stöðunni voru málin síðan leyst.

Ég nefni þessi tvö mikilvægu dæmi af ótalmörgu, ekki sem gagnrýni eða ádeilu á þessa aðila, sem eru ötulir málsvarar umbjóðenda sinna, heldur til þess að minna á þá miklu nauðsyn að landsmenn allir reyni að líta lengra en á sinn hag, líta yfir sinn hóp, sína stétt, sitt fyrirtæki, sitt hérað, — reyni að sjá áhuga- og hagsmunamál sín í samhengi við önnur vandamál þjóðarinnar. Slíkur skilningur er forsenda þess, að árangur náist í baráttu við bólguna miklu sem hefur hrjáð þessa þjóð um alllanga hríð.

Mér kemur í hug gömul saga. Hún er frá þeim tíma þegar flug á Íslandi var enn í bernsku. Eitt sinn birtu blöðin þá fregn, að flugmenn hefðu flogið í heiðríku veðri svo hátt upp í himingeiminn að þeir sáu allt Ísland í einu. — Herra forseti. Í stjórnarsáttmálanum frá 8. febr. 1980 segir, að meginverkefni ríkisstj. sé að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Jafnframt leggur ríkisstj. áherslu á að efla menningarstarfsemi, auka félagslega þjónustu og jafna lífskjör. Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum, er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál. Varðandi viðnámið gegn verðbólgunni er sett þetta markmið: Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.

En þótt viðnám gegn verðbólgu sé aðalviðfangsefnið nú, þá má sú barátta ekki glepja okkur sýn. Við megum ekki missa sjónar á eflingu íslenskrar menningar og alhliða framför atvinnuveganna. Við skulum vera þess minnug, að á mörgum stundum hafa Íslendingar sýnt slíkan einhug og samtakamátt að mörgum þjóðum öðrum mætti vera til fyrirmyndar. Það mætti vera ósk mín og áskorun til þjóðarinnar, að í þeim miklu vandamálum, sem fram undan eru, beri hún gæfu til þess að sjá allt Ísland í einu.