19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Núv. ríkisstj. varð til með ærið sögulegum hætti. Gamall og þrálátur klofningur í Sjálfstfl. braust upp á yfirborðið eins og eldgos, en í Alþb. rann kvika ósamkomulags fram og aftur og olli jarðhræringum sem enn er ekki séð fyrir endann á. Spurningin var og er hvort orkuver, sem hvílir á svo ótryggum jarðvegi, framleiði nokkra teljandi orku, eða hvort hið nýja stjórnarsamstarf verður ekki fjárhagslegur baggi á þjóðinni um mörg ókomin ár.

Ekki varð því neitað, að lögleg meirihlutastjórn hafði verið mynduð. Þess vegna taldi Alþfl. að hún ætti rétt á að reyna sig og sýna hvers hún væri megnug. En Alþfl. fylgdi nú sem fyrr þeirri pólitísku reynslu, að ábyrg stefna ber árangur, og hafði flokkurinn þá ekki síst í huga að fyrir Alþingi lá fjöldi mála, sérstaklega þó veigamikil félagsmál sem ráðh. Alþfl. höfðu undirbúið í stjórn flokksins s. l. vetur og í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar þar á undan. Forsrh. talar drýgindalega um 37 mál stjórnar hans sem hefðu legið hér fyrir og átt að afgreiða og væri búið að afgreiða meiri hluta þeirra. Sannleikurinn er sá, að yfirgnæfandi meiri hl. þessara mála var undirbúinn af öðrum, áður en þessi stjórn kom til, og hún á ekkert í þeim. Meira að segja fjárl. voru tilbúin, öll meginvinnan hafði verið unnin, það þurfti aðeins að breyta nokkrum tölum upp á við eins og þeim þóknaðist í Alþb.

Í augnablikinu ríkir einhver mesta upplausn hér á Alþ. sem ég hef lifað á aldarfjórðungi og er ekki að sjá að því muni ljúka 20. þ. m., eins og áætlað var, heldur einhverjum dögum síðar og veit enginn hvað gerist í nótt eða næstu daga.

En hvað sem leið skipan valdastóla hafði Alþfl. framar öllu áhuga á að félagsmálin, sem ég ræddi, næðu fram að ganga. En sum þeirra byggð á loforðum við verkalýðshreyfinguna og þau bæta lífskjör allrar alþýðu manna. Alþfl. er enn sem fyrr minnugur þeirrar staðreyndar, að félagslegar umbætur eru þær kjarabætur sem síst brenna á báli verðbólgunnar. Sum þessara frumvarpa hafa hlotið afgreiðslu hér á þingi nú þegar, en e. t. v, þurfa einhver þeirra að bíða betri tíma. Þessi félagsmál, sem eiga rót sína að rekja til síðustu tveggja ríkisstjórna á undan þeirri sem nú situr, eru eitt megináhugamál Alþfl. nú sem fyrr. Þau fjalla um ýmiss konar efni: starfsumhverfi og starfsheilsu, tryggingamál, húsnæðismál, réttindi sjómanna, lífsbaráttu gamla fólksins og öryrkjanna og fjöldamargt annað. Sem betur fer njóta þessi mál stuðnings þm. í öllum flokkum og á því byggist auðvitað vonin um framgang þeirra, því að við Alþfl.-menn getum það auðvitað ekki einir. Samt sem áður kostar það mikla baráttu að koma þeim fram, sérstaklega til að tryggja fjárhag þeirra á öruggan og ábyrgan hátt.

Þeir þm., sem leggja sig fram í sambandi við hinar félagslegu umbætur, hljóta án efa oft og tíðum þakklæti þeirra sem umbótanna njóta. En það er sjaldgæft að kjósendur komi hingað í þinghúsið til að færa þm. blóm fyrir störfin, eins og kom fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún fékk slíka heimsókn nú fyrir helgina fyrir frv. um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir sem hún flutti og er nú orðið að lögum.

Þróun hinna félagslegu mála, sem hrundið hefur verið af stokkunum síðustu tvö ár, eru einn jákvæðasti þáttur í íslenskum bjóðmalum á þessu tímabili. Hið sama verður því miður ekki sagt um aðra örlagaríka þætti þjóðarbúskapar okkar. Ríkisstj. hefur þegar setið 100 daga, en sá tími er oft notaður sem mælikvarði á stefnu og styrk nýrra stjórna. Það hefur komið í ljós, að stjórnin ræður á engan hátt við framvindu efnahagsmála þannig að íslenska þjóðin horfir nú fram til áframhaldandi verðbólgu og ofþenslu, áframhaldandi skuldasöfnunar og allrar þeirra ógæfu sem slíkri þróun fylgir.

S. l. haust var hraði verðbólgunnar um nokkurra mánaða skeið kominn upp undir 80%. Meðan Alþfl. fór með ríkisstj. yfir vetrarmánuðina tókst með viðspyrnu og almennu andófi, að því er mælingar hjá opinberum stofnunum herma, að draga úr hraða verðbólgunnar niður undir 45%. En nú hefur þessi hraði aukist aftur til muna. Jafnvel sumir af ráðh., sem nú sitja í ríkisstj., sjá hvert stefnir og tala opinberlega um að stíga verði á hemlana. En á sama tíma hafa ráðh. Alþb. þrýst bensíninu í botn og mun það segja til sín í efnahagslífinu á komandi mánuðum. Það hefur komið í ljós, að þeir, sem mynduðu núv. ríkisstj., komu sér ekki saman um neina heildarstefnu í efnahagsmálum og glíma við þann vanda frá degi til dags, venjulega með þeim afleiðingum sem síst skyldi. Oft og tíðum kemur fyrir í stórmálum, að innan ríkisstj. næst ekkert samkomulag, og hafa þá stjórnarandstæðingar orðið að taka af skarið og sjá til þess að mikilvægar ákvarðanir væru teknar hér á Alþingi og síðan framkvæmdar. Enn gerist það, að ábyrg stefna annarra bjargar því sem bjargað verður meðan stjórnarflokkarnir deila innbyrðis.

Við Íslendingar vorum furðulagnir að komast af við svo sem 10% verðbólgu árum saman. En núv. óðaverðbólga er sjúkdómur sem þjóðin mun ekki þola til lengdar. Það er t. d. óhjákvæmilegt með öllu, að svo mikil verðbólga dregur vextina með sér og þeir halda áfram að hækka. Hvernig íslenskir atvinnuvegir eiga að keppa við aðra á heimsmarkaði við þær aðstæður, veit ég ekki. Hvernig ungt fólk á að komast yfir húsnæði, veit ég ekki heldur. En hitt veit ég, að það er engin lækning til nema að lækka verðbólguna, ná valdi á henni. En flestar aðgerðir núv. ríkisstj. efnahagsmálum stefna í þveröfuga átt.

Það var einna helst forvitnilegt við ríkisstj., þegar hún var stofnuð, og er enn, að Alþb. tók að sér stjórn fjármála. Ýmsum þótti djarft teflt að fá þeim svo valdamikið rn., en aðrir sögðu að rétt væri að þeir bæru ábyrgð á fjárhagnum úr því að þeir eru á annað borð í stjórn. Alþb.-ráðh. eru þekktir að því að vera eyðslusamir úr hófi fram á fé úr ríkissjóði, en algerlega ábyrgðarlausir í fjármálum þar fyrir utan. Það er nú þegar ljóst, að fyrsti fjmrh. Alþb. er meiri skattpíningamaður en nokkur fyrirrennari hans hefur verið og er alþýðu manna og hinum láglaunuðu engan veginn hlíft við þeirri hríð. Fjárlög hafa enn hækkað, en þrátt fyrir alla nýju skattana er fjarri því að tryggt sé að þau verði greiðsluhallalaus. Nú stefnir beint í enn eitt árið þegar ríkisfjármálin verða ein af meginorsökum áframhaldandi óðaverðbólgu. Og svo bætast lántökurnar við. Er ekki óðs manns æði að hlaða nýjum skuldaböggum á þjóðina erlendis eftir allt það sem á undan er gengið? Er ekki botnlaust ábyrgðarleysi að þyngja lánabyrðina svo að 11–17% af öllum gjaldeyristekjum þurfi til þess eins að greiða vexti og afborganir? Í þessum málum hefur Alþb. fengið að ráða ferðinni. Stefna þess er þenslustefna, verðbólgustefna, háskattastefna. Og svo til hver einasta fjölskylda í landinu finnur nú þegar fyrir versnandi kjörum.

Útlitið í efnahagsmálum er því miður uggvænlegt. Það er ekki hægt að segja annað en að útlit sé fyrir áframhald á bullandi verðbólgu, bullandi vaxtahækkunum, bullandi verðhækkunum, bullandi skuldasöfnun og bullandi vandræðum í fjárhagsmálum hins opinbera, flestra fyrirtækja og einstaklinga. Íslenska þjóðin er í þessum málum að komast á ystu nöf. Það mun koma í ljós fyrir 1. júní og enn betur að hausti hversu erfiðleikarnir rista djúpt og hversu gersamlega óhæf ríkisstj. er til að finna á þeim neina lausn eða sameinast um nein úrræði sem mega að gagni koma.

Síðdegis í dag afgreiddi Alþingi heimild fyrir ríkisstj. til að ganga frá samningunum við Norðmenn um Jan-Mayen. Ekki bar ríkisstj. gæfu til að standa saman í því máli frekar en öðrum sem miklu skipta. Alþb. snerist á móti samkomulaginu, nema Garðar Sigurðsson. Alþb. klauf stjórnina í erfiðu stórmáli sem örlítinn manndóm þurfti til að leysa. Enn einu sinni varð stjórnarandstaðan og þar með Alþfl. að sýna ábyrgðartilfinningu sína með því að bjarga málinu í höfn. Það var gert á skömmum tíma og án þess að flytja vantraust eða hrella ríkisstj. frekar, þótt klofningur í slíku máli mundi þýða stjórnarslit alls staðar nema hér á landi.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Veður eru nú öll válynd á jörðinni, ekki síst í efnahagsmálum og friðarmálum. Þegar svo horfir þurfa smáþjóðir eins og við Íslendingar að halda vel á málum sínum, treysta samheldni og einingu. Þá er jafnvel ekki nóg að sjá yfir Ísland allt, við þurfum að sjá út fyrir landsteinana. Við skulum þrátt fyrir deilur okkar í kvöld vona að vel rætist úr öllu þessu. — Góðar stundir.