19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er athyglisvert nú í þinglok að íhuga innlegg ríkisstj. til að greiða fyrir komandi kjarasamningum, sem mikið veltur á að skili kjarabótum til láglaunafólksins og gangi fram án þess að auka hraða verðbólguhjólsins. Það hlýtur að valda launafólki vonbrigðum og vekja furðu margra, hvernig þar hefur verið haldið á málum og hvernig hvað eftir annað á þriggja mánaða valdaferli ríkisstj. hefur verið gengið í berhögg við sanngjarnar óskir verkalýðshreyfingarinnar til að höggva á þann hnút sem kjaramálin eru komin í.

Það lofar aldrei góðu þegar ríkisstj. neitar að ganga í fararbroddi og draga sáman seglin á sama tíma og hún krefst aðhalds hjá launafólki, eins og þessi ríkisstj. hefur gert. Afleiðingin er stórfelldar skattaálögur. Það er framlag ríkisstj. nú til lausnar kjaradeilunni. Hún leggur því lítið á borð hjá sér til lausnar kjaramálanna.

Alþfl. markaði stefnu í skattamálum sem verulega hefði getað liðkað fyrir í yfirstandandi kjaradeilu, enda var undir þá stefnu tekið af sambandsstjórn Verkamannasambandsins. Alþfl. lagði fram till. um niðurskurð í ríkisbúskapnum jafnframt því sem dregið yrði verulega úr tekjuskattsálögum landsmanna, eða um 7.5 milljarða kr. Svar ríkisstj. við þessari till. var: Launafólk getur sparað, en ekki við. — Hörð gagnrýni og andstaða Alþfl. við skattastefnu ríkisstj. bar þó þann árangur, að nokkuð var dregið úr skattpíningu á einstæða foreldra og tekjulága í þjóðfélaginu.

Alþfl. lagði einnig fram raunhæfa till. til að leysa vanda sveitarfélaganna, sem var í því fólgin að auka hlutdeild sveitarfélaga í söluskattstekjum um 5 milljarða og dregið yrði úr ríkisumsvifum að sama skapi. Þessari leið var einnig hafnað, því að áfram skyldi haldið á skattpíningarbrautinni. Og sjálfur formaður Verkamannasambandsins gekk þar í fararbroddi í stað þess að velja leið sem leysti vanda sveitarfélaganna án aukinnar skattbyrði. Þessi ákvörðun Guðmundar J. var vissulega köld kveðja til umbjóðenda hans innan Verkamannasambandsins. Og í engu breytti það afstöðu Guðmundar J. eða annarra Alþb.-manna, að hér var um flatan skatt að ræða sem lagðist með fullum þunga á láglaunatekjur. Hvar var þá niður komin umhyggja Guðmundar J. og félaga fyrir láglaunafólki í landinu? Í skattagræðginni höfðu þeir augsýnilega gleymt fjárhagserfiðleikum láglaunamannsins og láglaunakonunnar, sem verða að framfleyta fjölskyldum sínum á sultarlaunum. Aðhaldsleysið og sóunin á fjármunum þjóðarinnar, sem sífellt kallar á þyngri skattbyrði heimilanna, eru orðin alvarlegt umhugsunarefni fyrir stjórnvöld. Staðreyndin er sú, að lágtekjuheimilin eiga lítið meira eftir til framfærslu heimilanna þegar upp er staðið þótt báðir foreldrar séu á vinnumarkaðinum. Rauntekjur skila sér ekki, því að ríkishítin hefur hirt aftur bróðurpart teknanna með skattakrumlu sinni.

Það er víða í þjóðfélaginu sem við sjáum sorgleg dæmi um afleiðingar þessarar stefnu stjórnvalda. Valdaferill þessarar ríkisstj. sýnir okkur ljóslega, að ekki er að vænta neinnar stefnubreytingar. Þvert á móti hefur skattbyrðin og þenslan sjaldan verið meiri og verðbólguhjólið snýst á fleygiferð án nokkurrar sýnilegrar viðspyrnu stjórnvalda.

Það var einmitt þessari gegndarlausu þenslustefnu, sem mest bitnar á láglaunaheimilunum, sem Alþfl. hafnaði og neitaði að fylgja þegar hann rauf stjórnarsamstarfið s. l. haust. Hann setti kosningasigur sinn 1978 frekar að veði en þurfa að framfylgja slíkri stefnu. Þjóðin kvað upp sinn dóm og reynslan er þar ólygnust. En það er einmitt kaldhæðnislegt, hvað Alþb.-menn, sem telja sig vera brjóstvörn láglaunafólksins í landinu, eru fljótir að gleyma erfiðleikum þessara heimila þegar þeir setjast í valdastóla. Þeir segjast vera fulltrúar láglaunafólksins, þessir herrar, en ef marka má gerðir þeirra vita þeir greinilega ekki hvað það er að þurfa að framfleyta fjölskyldu af sultarlaunum Sóknarkonunnar eða Dagsbrúnarverkamannsins. Verðbólgustefna þeirra er ferð án fyrirheits sem verst bitnar á slíkum fjölskyldum.

Það er líka kaldhæðnislegt, að á sama tíma og þessir herrar boða 4.5% kjaraskerðingu og skattbyrði heimilanna þyngist verulega, þá er jafnframt tilkynnt að ekki sé svigrúm til grunnkaupshækkana, en þess í stað boðuð koma félagsmálapakka sem mestallt fjármagn vantar í. Með slíkt að veganesti er hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds ekki öfundsverður af því að ganga á fund launafólks og þurfa að standa í samningum við opinbera starfsmenn. Og Guðmundur J. á eftir að standa frammi fyrir sínum umbjóðendum í Verkamannasambandinu í kjarasamningunum, og þá þýðir lítið að endurtaka feluleikinn sem viðhafður var við afgreiðslu skattstigans. Stykkishólmur verður enginn griðastaður þá.

Og hvað varð um niðurtalningarleiðina, töfraorð Framsfl. til lausnar verðbólguvandanum? Hún er sprengd í loft upp af þessari ríkisstj. með dyggu atfylgi verðlagsráðh. Tómasar Arnasonar og Framsfl. Í stjórnarsáttmálanum voru verðhækkun vöru og þjónustu sett ákveðin mörk, t. a. m. 8% 1. maí. Ekki halda þau loforð, enda ekki furða því bókstaflega allar aðgerðir ríkisstj. hingað til hafa stefnt í þveröfuga átt við niðurtalningastefnuna. Afrekaskrá ríkisstj. ber þess glöggt vitni, þar sem er gengislækkun, gengissig, gífurleg hækkun beinna og óbeinna skatta, sérstök söluskattshækkun, hækkun flugvallagjalds, hækkun á gjaldskrám opinberra stofnana, heimilaðar almennar verðhækkanir og stórauknar erlendar lántökur. Afleiðingin er að niðurtalningarstefnan hefur glutrast út úr höndum ríkisstj., verið sprengd í loft upp og forsendur þegar verðbólginna fjárlaga þar með brostnar, sem enn mun magna upp verðbólguna.

Ekki er hún fallegri, kveðjan frá hæstv. ríkisstj. til launþega sem birtist í lánsfjáráætlun. Fyrir utan að bæta 85 milljörðum ofan á skuldabyrði landsmanna er ráðist með offorsi á lífeyrissjóði launþega. Þess er nú krafist, að ríkisstj. fái fé úr sjóðum launþega, enda vantar ríkisstj. fjármagn til að standa við félagsmálapakkann. Hann er enn umbúðir einar og því er sótt í sjóði launþega sjálfra. Það er gagnlegt fyrir verkalýðshreyfinguna að þekkja umskiptin sem orðið hafa á fjmrh. Ragnari Arnalds, en 1977 sagði hann í ræðu á Alþingi þegar þessi mál voru á dagskrá, að það væri Alþb. þyrnir í augum, — þyrnir í augum, sagði hæstv. ráðh. þá, að verið væri að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf.

Lítum þá á félagsmálapakkann. Hvar er sá skerfur ríkisstj. til að greiða fyrir kjarasamningum nú við þingslit? Getur launafólk treyst á að kjarabætur felist undir skrautlegum umbúðum? Í málefnasamningi segir að 5–7 milljarða eigi að veita 1980–1981 til félagsmálapakkans. En þess sér enga stoð í fjárl. nú, að við þessi fyrirheit verði staðið. En hverju var lofað? Hér skal aðeins gripið niður í örfá atriði.

Loforð nr. 1: Auka félagslegar íbúðabyggingar, fjölga hjúkrunar- og dvalarheimilum aldraðra, byggja fleiri dagvistarheimili og bæta aðstöðu öryrkja. — Hvar eru efndirnar? Jú, þeir sjóðir, sem m. a. hafa staðið undir þessum verkefnum, eru stórlega skertir: Byggingarsjóður ríkisins um 34% og Byggingarsjóður verkamanna er svo skertur, að þar er gert ráð fyrir að útlán lækki í krónutölu úr 1175 millj. á árinu 1979 niður í 1146 millj. 1980. Og sjóðir öryrkja eru skertir um hvorki meira né minna en 800–900 millj. Eitt er víst. Skerðingin á þessum sjóðum mun hvorki fjölga dagvistarheimilum, verkamannabústöðum né hjúkrunar- og dvalarheimilum aldraðra eða bæta aðstöðu öryrkja.

Loforð nr. 2: Setja nýja löggjöf um gerbreytt húsnæðismálakerfi. — Hvar eru efndirnar? Jú, jafnvel þó sú húsnæðismálalöggjöf nái fram að ganga nú fyrir þingslit, þá er ljóst að sú löggjöf verður að marklausu plaggi í höndum stjórnarsinna, þar sem hvergi er séð fyrir nægu fjármagni til þess að standa við þær skuldbindingar sem það setur. Staðreyndir tala sínu máli í því efni, því að á sama tíma og ríkisstj. reynir með offorsi að knýja fram óraunhæf gylliboð í húsnæðismálum er fjármagn til húsnæðismála skert um 4 milljarða. Slík löggjöf er skrautlegar umbúðir utan um loforðalista sem allt fjármagn vantar í. Hún yrði sannkölluð sýndarmennska þessarar ríkisstj. Þar eru yfirboðnar raunhæfar till. Alþfl. í húsnæðismálum og þau gylliboð á efalítið að nota í formi félagsmálapakka til launafólks til að greiða fyrir samningum. Þegar slíkri löggjöf er veifað framan í verkalýðshreyfinguna, verður að fylgja með skuldbinding ríkisstj. um fjármagn þannig að við þá löggjöf verði hægt að standa. Annað er hræsni.

Loforð nr. 3: Lög um fæðingarorlof sem nái til heimavinnandi jafnt sem útivinnandi foreldra. — Hvar eru þær efndir? Jú, nær tveim mánuðum eftir að það er lagt fyrir þing mannar hæstv. félmrh. sig fyrst til þess að mæla fyrir því, enda komst málið í eindaga á Alþingi. Og ríkisstj. hefur harla lítið gert til að greiða fyrir því máli þannig að mögulegt væri að afgreiða það fyrir þingslit. Auk þess vantar fjármagn þar eins og í aðra félagsmálapakka ríkisstj. Félmrh. Svavar Gestsson á því mörgu ósvarað. Hann á mörgu ósvarað við verkalýðshreyfinguna í komandi kjarasamningum.

Góðir áheyrendur. Þannig er staðan og framlag ríkisstj. til kjaramálanna eftir þriggja mánaða valdaferil.

Slík ríkisstj. á ekki skilið umburðarlyndi launafólks. Hennar ganga á fund verkalýðshreyfingarinnar verður því ekki þrautalaus ef hún uppsker eins og hún hefur til sáð. — Ég þakka áheyrnina.