19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2894 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Góðir tilheyrendur. Herra forseti. Hlustendur hafa nú fengið að heyra um hríð sýnishorn af þeim ómerkilega málflutningi, sem stjórnarandstaðan hefur iðkað á Alþingi Íslendinga nú í vetur. Einkum kom þetta sýnishorn ákaflega glöggt fram í málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur í þessum ræðustól áðan. Grófust voru ósannindi hennar um sjóðina og félagslegar ráðstafanir ríkisstj. Ég lýsi því yfir, að núv. ríkisstj. mun standa við þau fyrirheit sem hún hefur gefið í félagslegum efnum, m. a, fyrirheit sem Alþfl. hljópst frá í þeirri ríkisstj. sem hann átti aðild að veturinn 1978–1979.

Frá því að ríkisstj. var mynduð hafa gengið yfir nokkrir sviptivindar í stjórnmálum, en ekki háskalegir á nokkurn hátt. Stjórnarsamstarfið hefur í heild gengið vel og þau hafa verið drjúg, vorverkin. Fjárlög, sem lögð voru fram í frv.-búningi 10. mars, hafa verið afgreidd. Ríkinu hafa verið sett skattalög svo og sveitarfélögunum.

Þýðingarmikil mál af félagslegu tagi hafa fengið afgreiðslu á Alþingi og í ríkisstj. Ekki spillir það, að árið 1979 kom vel út efnahagslega á marga lund, enda þótt popppólitík Alþfl. setji enn um sinn mark á skuggalegar verðbólgu­tölurnar. Vissulega hefur heiftarafstaða nokkurra þm. Sjálfstfl. í garð ríkisstj. ekki flýtt framgangi mála á Alþingi. Skaði hefur þó enn enginn hlotist af.

Enn eru óafgreidd þrjú meginmál, þ. e. fjárfestingar­- og lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár, lög um stuðning við þá, sem kynda með olíu, og húsnæðismálafrv.

Undirbúin hafa verið þýðingarmikil réttindamál alþýðu. Ég vil nefna tvo slíka málaflokka. Það eru frv. til l. um nýtt húsnæðiskerfi og frv. um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggi á vinnustöðum, sem var afgreitt sem lög frá Alþingi í síðustu viku. Í hinum nýju lögum, sem eiga rót sína að rekja til sólstöðusamninganna 1977, er lögð áhersla á að virkja launafólkið sjálft og atvinnurekendur sem best til þess að stuðla að öryggi á vinnustöðunum. Það er augljóst, að viðunandi ástand næst ekki nema með samstarfi fólksins, sem vinnur að framleiðslunni, við utanaðkomandi aðila eins og heilbrigðisyfirvöld á þessu sviði. Með ákvæðum hinna nýju laga svo og ákvæðum frv., sem liggur fyrir um hollustuvernd, á að vera tryggt að þessi tengsl séu viðunandi.

Hitt málið, sem ég hyggst nefna hér, er húsnæðis­málafrv., sem nú er í nefnd í síðari deild þingsins og ætti nú að vera unnt að afgreiða á næstu sólarhringum. Í þessu frv., eins og það liggur fyrir eftir breytingar núv. ríkisstj., er að fullu komið til móts við þau sjónarmið í húsnæðismálum sem verkalýðshreyfingin setti fyrst fram 1974, var lofað að þá næðu fram að ganga, en ekki hefur verið enn staðið við þrátt fyrir fjórar ríkisstj. síðan. Ég fullyrði að framganga þessa máls muni marka djúp spor í félagslegri aðstöðu launafólks á Íslandi. Í því sambandi minni ég aðeins á þessar meginbreytingar frv.:

Í fyrsta lagi er framlag til félagslegra íbúðabygginga stóraukið eða tífaldað frá því sem nú er. Á síðasta áratug voru reistar að jafnaði 90 íbúðir á ári á félagslegum grundvelli. Frv. í núverandi mynd skapar forsendur til þess að byrjað verði á 1500 íbúðum í verkamannabú­stöðum á næstu þremur árum eða um 500 íbúðum á ári.

Í öðru lagi er í frv. að finna, að gert er ráð fyrir stórfelldu átaki til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Í þriðja lagi er þar gert ráð fyrir því, að skyldusparnaður unga fólksins verði verðtryggður að fullu með bestu kjörum, en ástandið í þeim efnum hefur verið óvið­unandi.

Í fjórða lagi og síðast en ekki síst ber að nefna það, að í frv. þessu er nú gert ráð fyrir helmingsaðild verkalýðs­hreyfingarinnar að stjórnum verkamannabústaða og sérstökum fulltrúum Alþýðusambands Íslands í húsnæðismálastjórn.

Í þessum bálkum báðum, sem hér eru til umr., þ. e. um öryggi á vinnustöðum og um húsnæðismál, er gert ráð fyrir sérstakri aðild BSRB eða opinberra starfsmanna bæði að stjórn Vinnueftirlits ríkisins og að stjórnum verkamannabústaðanna. Þessi tvö mikilvægu réttinda­mál eru einn þáttur framlags ríkisstj. til þeirrar kjara­deilu sem nú stendur yfir. Það er því ekkert annað en fjarstæðuraus, þegar því er haldið fram að ríkisstj. hafi verið aðgerðalaus á þessu sviði. Þvert á móti hefur hún beitt sér af alefli fyrir framgangi stórra og þýðingar­mikilla mála á Alþingi og það væru blindir menn, sem ekki gerðu sér grein fyrir þeim afdrifaríku, jákvæðu áhrifum sem þessir málaflokkar geta haft fyrir líf og starf íslenskrar alþýðu. Umhverfi vinnunnar og húsaskjól er sú umgjörð sem mótar líf hvers manns framar öllu öðru.

Á undanförnum árum hefur verið á það bent, að fjöldi fólks hafi flúið þetta land. Ástæðurnar til þessa eru margvíslegar. Oft er hér um að ræða sérfræðinga sem telja sig ekki fá störf við hæfi hér á landi. Miklu oftar er þó hér um að ræða launafólk sem ekki er einasta að sækjast eftir hærra útborguðu kaupi, það er að sækjast eftir bættum félagslegum aðbúnaði, einkum í húsnæðis­málum. Íslenska stjórnkerfið hefur ekki boðið sömu kosti í húsnæðismálum og grannþjóðir okkar, og vissu­lega gerir húsnæðismálafrv. það ekki í einum áfanga, en forsenda frv. er sú, að fjármunirnir nýtist þeim sérstak­lega sem helst þurfa á þeim að halda. Með átaki af þessu tagi í húsnæðismálum tel ég að við værum að draga mjög verulega úr hættunni á stórfelldum landflótta á næstu árum.

Umbætur í húsnæðismálum snerta nær alla þætti sam­félags okkar, og þess vegna leggur ríkisstj. á það ríka áherslu að mál þetta nái fram að ganga nú á næstu sólarhringum hér frá Alþingi, enda á það að vera unnt ef allt er með felldu. Því verður ekki trúað, að hér á Alþingi sitji menn sem vilji koma í veg fyrir þetta þýðingarmikla mál með ofbeldisaðgerðum eins og málþófi.

Fleira mætti telja frá þessum vetri, sem starfað hefur verið, en ég tel að yfirlit mitt gefi nægilega skýrt til kynna að ríkisstj. hefur með aðgerðum sínum og afgreiðslu félagslegra réttindamála undirbúið vel næstu lotu verk­efnalistans. Það er skoðun ríkisstj., að óhjákvæmilegt sé nú þegar á næstu dögum að ganga ötullega fram í því að kanna hvort unnt sé að ná kjarasamningum og með hvaða hætti. Aðilar hafa hist á nokkrum samningafund­um, en lítið sem ekkert hefur miðað. Ber að gagnrýna slíkt þar sem mikil ábyrgð hvílir á samningsaðilunum.

Alþb. leggur áherslu eftirfarandi meginatriði varðandi kjarasamningana sem í hönd fara:

Í fyrsta lagi verður að tryggja kaup og kjör þeirra sem lakast eru settir. Þetta verður því aðeins gert að gripið verði til félagslegra ráðstafana af margvíslegum toga.

Í öðru lagi er ljóst að kjör hinna lægst launuðu verða ekki bætt öðruvísi en að skerða kjör þeirra, sem hafa rakað saman gróða á undanförnum verðbólguárum, og þeirra, sem hafa allra hæstu tekjurnar. Hvaða réttlæti er í því að hálaunamaðurinn fái 220 þús. kr. um næstu mán­aðamót í verðbætur á laun meðan láglaunamaðurinn fær aðeins um 30 þús. kr. Slíkt er óréttlæti af versta tagi.

Í þriðja lagi verður að leggja áherslu á félagslegar úrbætur, eins og þær sem ég rakti hér að framan og fleiri, og þá verða menn að gera sér ljóst að milli félagslegra úrbóta og skattlagningar er beint samhengi.

Af fréttum undanfarna daga má ljóst vera að nokkurr­ar óþolinmæði gætir viða orðið í samtökum launafólks og er það að vonum. Á næstu vikum verður að skera úr um það, hvort unnt er að koma á kjarasamningum með venjulegum hætti og hvernig. Þegar niðurstaða þeirrar lotu liggur fyrir ber að ákveða næsta skref. Ég tel að störf ríkisstj. til þessa hafi verið góður undirbúningur fyrir farsælar lyktir kjaradeilnanna.

Góðir tilheyrendur. Í fjölmiðlum birtast daglega fréttir um veruleg átök í grannríkjum okkar í allri Vest­ur-Evrópu. Þessi átök koma fram með þeim hætti, að auðstéttin sækir fram og reynir að hrifsa til sín ávinninga verkalýðsstéttarinnar á liðnum áratugum. Hagvextinum eru takmörk sett. Það er að koma í ljós. Í kjölfar auðlindakreppunnar birtist allsherjarkreppa sem sagt er frá í fréttum oft á dag. Þar er sagt frá stórfelldum niður­skurði til félagslegra framkvæmda eins og í Danmörku, þar sem sósíaldemókratar fara með völd. Þar er sagt frá viðtækustu kjaraátökum á öldinni, eins og í Svíþjóð. Í kjölfarið sigla leiftursóknarmennirnir, eins og í Vestur-­Þýskalandi, þar sem svartasta afturhald Vestur-Evrópu siglir upp til æðstu metorða. Hver hefði trúað því árið 1968, að Franz Josef Strauss ætti eftir að gefa kost á sér í fullri alvöru sem leiðtogi Vestur-Þýskalands?

Hvarvetna eru lífskjörin skert og minnkandi hagvöxt­ur kemur þannig fyrst niður á fólkinu, en fjármagnið heldur sínu. Á Íslandi horfir þetta öðruvísi við. Hér standa kauplækkunaröflin ráðþrota. Hér er sótt fram til félagslegra réttinda. Hér er að komast á ákvörðunarstig frv. til l. um nýtt húsnæðislánakerfi. Hér tala menn um framfarir, annars staðar um afturför, niðurskurð og samdrátt. Hér er sótt fram til eflingar innlendra atvinnu­greina og átaks í orkumálum meðan fjölþjóðahringar láta greipar sópa um frelsi smáríkjanna annars staðar í veröldinni.

Vissulega eru mörg þeirra réttindamála, sem hér eru nú undirbúin, þegar komin fram annars staðar, en það er þó víst að bilið verður sífellt styttra.

Góðir áheyrendur. Við lifum á síðasta fimmtungi við­burðarríkustu aldar okkar sögu. Á þeim átta tugum ára sem liðnir eru af öldinni, hefur átt sér stað bylting á öllum sviðum þjóðlífsins og umhverfis okkar verða byltingar af margvíslegum toga. Fram undan eru spurningar eftir hið mikla umrót. Óvissan er mikil og blikur á lofti umhverfis okkur. Frammi fyrir óvissunni er mest um vert að halda ró sinni og yfirsýn og láta ekki minni háttar storma skapa jafnvægisleysi. Á allra næstu árum munum við í verki svara þeirri spurningu, hvernig samfélag við búum afkomendum okkar á nýrri öld. Við skulum gera okkur þá ábyrgð vel ljósa þegar í stað og ganga hiklaust til verks.

Það var þessi ábyrgð gagnvart samtíð og framtíð þjóð­arinnar sem þá menn framast skorti sem hlupust undan árum snemma í októbermánuði s. l. og stefndu hér öllu í óefni. Þó illa horfði um sinn tókst Alþb. að beita stöðv­unarvaldi sínu gagnvart fjármagnsöflum og leifturinnrás erlendra auðhringa. Sprengiöflin, sem ætluðu sér stjórn­arráðið með áhlaupi í svartasta skammdeginu, verða nú að þola biðina ásamt mister X, huldumanninum mikla í utan gátta viðreisnarstjórn. — Ég þakka þeim sem hlýddu.