19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

Almennar stjórnmálaumræður

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er nú liðið nokkuð á áttunda mánuð frá því að Alþfl. rifti samstarfi í hinni svokölluðu vinstri stjórn eftir lið­lega árs stjórnarsetu með Framsfl. og Alþb. Rökin fyrir brotthlaupi Alþfl. eru enn í fersku minni. Alþfl.-menn treystu sér ekki, vildu ekki heiðurs síns vegna standa að ríkisstj. sem stjórnaði ekki landinu á þann hátt sem þeir töldu æskilegar. Sjálfstfl. verðlaunaði síðan Alþfl. fyrir að rifta stjórnarsamstarfinu með því að gera mikinn hluta þingflokks Alþfl. að ráðh. og með því að taka að sér að bera ábyrgð á ríkisstj. Alþfl.

Sú skoðun okkar í Alþb. hefur síðan verið að staðfest­ast, að á starfstíma vinstri stjórnarinnar voru aðrir hlutir að gerast og betri en Alþfl. og Sjálfstfl. héldu fram á haustmánuðum s. l.

Það kemur nú æ betur í ljós með hverjum deginum sem líður, hvers kyns öfugmælapólitík sú stefna er sem þessir flokkar hafa beitt sér fyrir og reyna að sumu leyti að hamra á enn.

Ársfundur Seðlabanka Íslands var haldinn fyrir nokkrum dögum. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri flutti við það tækifæri yfirlitsræðu sína um þróun efna­hagsmála á árinu 1979. Seðlabankinn og bankastjórar hans verða varla ásakaðir um það að gefa of bjarta mynd af ástandi efnahagsmála. Það gerði seðlabankastjóri ekki heldur í ræðu sinni og varaði m. a. enn sem fyrr við þeirri verðbólgu sem við búum við. En dómur hans um efna­hagsþróunina á árinu 1979 var þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé litið til raunstærða og stöðu þjóðarbúsins út á við verður ekki annað sagt en á árinu 1979 hafi íslenskur þjóðarbúskapur verið í sæmilegu heildarjafnvægi, raun­tekjubreytingar verið litlar og óvenju smástígar hreyf­ingar á einstökum þáttum þjóðarútgjalda.“

Og síðar í ræðunni segir seðlabankastjóri og á þar við árin 1978 og 1979:

„Um þessi tvö síðustu ár má með gildum rökum segja að þau hafi verið með kyrrlátara móti metin eftir breytingum raunstærða. Bæði einkenndust þau af nokkrum, en þó ekki örum hagvexti, nægri og stöðugri atvinnu og hagstæðari viðskiptajöfnuði en Íslendingar hafa átt yfirleitt við að búa síðustu áratugi.“

Í þessu efnahagsástandi, sem Jóhannes Nordal seðla­bankastjóri lýsir svo sem ég hef lesið hér á undan og í sumum tilfellum var betra en við höfum átt við að búa síðustu áratugi, þótti Alþfl. nauðsyn til bera að rjúfa stjórnarsamstarf. Kjósendur gerðu sér sem betur fer grein fyrir því hvert stefndi, og þeir höfnuðu boðskap Alþfl. og Sjálfstfl. í kosningunum í haust. Uppátekt Alþfl. varð til þess að marklaus ríkisstj. sat í stjórnar­ráðinu frá því í okt. og þar til 8. febr., er ríkisstj. Gunnars Thoroddsens var mynduð. Alþingi gat lítið starfað fyrr en ábyrg stjórn var til. Frá því núv. ríkisstj. var mynduð hefur starfstími Alþingis að stórum hluta farið í það að samþykkja fjárlög og ganga frá öðrum málum þeim tengdum. Með samþykkt fjárlaga og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1980 er stefnt að útvegun fjármagns án mikils niðurskurðar nauðsynlegra framkvæmda. Til Vestur­lands verður útvegað fjármagn til ýmissa góðra fram­kvæmda og ber þar hæst að nefna Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og svo framkvæmdir við tengingu Borg­arfjarðarbrúar, en þær framkvæmdir eru nú í fullum gangi.

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur verið beitt aflatakmörkunum til verndunar fiskstofnum á miðunum hér við land og stundum beitt á þann hátt, að eðlileg samræming veiða og vinnslu hefur átt sér stað. Þetta hefur tekist sæmilega með síld, humar, rækju og hörpu­disk. Í s. l. viku var gefin út reglugerð frá sjútvrn. um tilhögun þorskveiðitakmarkana á tímabilinu 1. maí til 15. ágúst. Þessi reglugerð er mér mikil vonbrigði. Ég hafði gert mér vonir um að með þessari fyrstu reglugerð um veiðitakmarkanir, sem hinn nýi sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, hafði nokkurt svigrúm til að undirbúa, yrðu stigin fyrstu skrefin frá hinni óheppilegu bannstefnu sem fylgt hefur verið. Þessi bannstefna tekur ekkert tillit til breytilegra aðstæðna til veiða eftir árstíðum eða landshlutum, afkastamöguleikum fiskvinnslustöðva né til þess að leita þess fyrst og fremst að tryggja gott hráefni frá fiskiskipi svo og að fá góða nýtinga hráefnis : fisk­vinnslustöðvum. Lokunar- og bannstefnan hefur það í för með sér, að hugsað er um það í allt of ríkum mæli að afla sem mest á stystum tíma.

Það að setja veiðibann á þorsk snertir svo margfalt fleiri þætti en það eitt að þorskurinn skuli ekki veiddur. Veiðibann hefur tiltölulega lítil áhrif á einu svæði, en mikil á öðru. Yfir sumarmánuðina er smábátaútgerð snar þáttur í tekjuöflun heilla byggðarlaga víða um land Slíka staði skiptir það miklu máli að á 10 dögum á þessu tímabili séu veiðar hannaðar.

Veiðibann á þorsk á Íslandi er svo stór ákvörðun og hefur svo margþættar afleiðingar að til slíks á ekki að grípa fyrr en aðrar leiðir hafa verið reyndar. Hvað mundu aðrir starfshópar á landinu en sjómenn og fisk­vinnslufólk segja, ef þeim væri tilkynnt launalaust vinnubann? Hver yrðu viðbrögð annarra fyrirtækja en í sjávarútvegi, sem fengju þá tilkynningu að þau skyldu loka þetta eða hitt tímabilið, þau skyldu segja starfsfólki að fara heim. Það yrði mikill hávaði og það væri eðlilegt.

Ræðutími minn nú og hér gefur ekki tækifæri til þess að ræða þetta mál til hlítar. Skoðanir eru skiptar um hvað þorskaflinn megi vera mikill á yfirstandandi ári. Það er stjórnvalda að ákveða hvað sá afli skuli vera mikill og um leið að þær takmarkanir, sem gera þarf, komi sem jafnast niður og raski ekki búsetuskilyrðum í landinu. – Góðar stundir.