19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

Almennar stjórnmálaumræður

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðir áheyrend­ur. Talsmenn ríkisstj. éta nú allir úr þeim dalli, að allir erfiðleikar efnahagsmálanna séu fjögurra mánaða starfsstjórn Alþfl. að kenna. Það er kannske mannlegt, en stórmannlegt e,r það ekki. Raunar uppgötvaði frysti­húseigandinn og verkalýðsforinginn, Sandarinn Skúli Alexandersson, að ástandið væri ekki eins bágt og menn létu af, og bar fyrir sig nýjan páfa sem hann hefur fengið sé.r og er seðlabankastjóri. Öðruvísi mér áður brá.

Félmrh. Svavar Gestsson tók undir þennan söng. að öll ógæfa okkar stafaði af starfsstjórn Alþfl. Og hann vék að grófum ósannindum Jóhönnu Sigurðardóttur vegna fjármögnunar sjóðanna. Hvað stendur í 19. gr. lánsfjár­laga, Svavar Gestsson? Þar er talað um skerðingu á Byggingarsjóði verkamanna sem nemur hundruð millj. kr. Hvað segir 21. gr. lánsfjárlaga, Svavar Gestsson? Þar er um stórkostlega skerðingu á erfðafjárskatti að tefla, og allir vita til hvers hann er notaður. Hvað segir, Svavar Gestsson, í 22. gr. lánsfjárlaga um stórskerðingu, svo að nemur hundruðum milljóna, á Bjargráðasjóði, þeim hjálparsjóði sem nú þarf meira á að halda en nokkru sinni fyrr? Hvað skyldi standa í 23. gr. lánsfjárlaga, Svavar Gestsson, nema um stórskerðingu til Fram­kvæmdasjóðs þroskaheftra? Ætla þessir herrar að slík blekkingariðja sem þetta muni lengi gagna þeim? Eða hvað skyldi standa í 13 gr., þar sem Byggðasjóður er skorinn niður um einn milljarð? Hefur framsóknar­maðurinn Ingvar Gíslason menntmrh. kynnt sér það?

Forsrh. Gunnar Thoroddsen hældi sjálfum sér og ríkisstj. fyrir að takast að afgreiða 37 mál og till. á Alþingi fyrir þinglausnir. Hann gleymdi að vísu að þakka stjórnarandstöðunni, en jafnþingvanur maður veit að án fyrirgreiðslu stjórnarandstöðunnar hefði slíkt ekki tekist. Hins vegar mun þinghald nú verða dregið á langinn vegna þess að sjálfstæðismenn beita sér harkalega gegn því að ný húsnæðismálalöggjöf nái fram að ganga, þar sem stefnt er í 10 þús. millj. kr. útgjaldaaukningu og þess að nein tilraun sé til þess gerð að afla fjár. Lögin eiga hvort sem er ekki að taka gildi fyrr en frá næstu ára­mótum, og er krafa Sjálfstfl. að næsta haust verði þessi mál öll tekin ti1 ítarlegrar umr. og athugunar. Því má svo bæta við, að þetta frv. inniheldur þau dæmalausu ákvæði, að Alþýðusamband Íslands skuli gefið leyfi til að skipa tvo stjórnarmenn í húsnæðismálastjórn ríkisins og má fyrr vera undirlægjuhátturinn.

Stuðningsmenn ríkisstj. fjargviðrast mjög yfir því, að hún hafi haft skamman tíma til stefnu að ráða ráðum sínum. Rétt er það, þessi óáran hefur staðið skamma hríð. En ríkisstj, hefur samt gefist tími til að taka fjölda rangra ákvarðana. Hún er skjótvirk í slíkum vinnu­brögðum. Spyrja má í annan stað, hvort tímaskorturinn neyði ríkisstj. til að bregðast gefnum loforðum og yfir­lýsingum. Henni hefur a. m. k. unnist nægur tími til þess þótt skamma hríð hafi setið.

Lítum á upphaf stjórnarsáttmála ríkisstj., þar sem segir að ríkisstj. telji það meginverkefni sitt að berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál. Forsrh. Gunnar Thoroddsen las þessa meginstefnu upp einnig hér áðan, en hann gleymdi að geta þess, hvernig miðaði í áttina. Hafi ríkisstj. skort tíma til að vinna að þessu meginverkefni sínu, þá er það vegna þess að hún hefur verið upptekin við að brjóta í bág við þessi fyrir­heit. Í stað aðhaldsaðgerða er boginn spenntur til hins ítrasta á öllum sviðum, þannig að verðbólgan a Íslandi mun vaxa í áður óþekktar hæðir þegar líða tekur á árið.

Stefna Alþb. í verðlagsmálum, niðurtalningin, sem ríkisstj. gerði óbreytta að sinni, hefur mistekist í fyrstu atrennu og vísitölur verðlags og kaupgjalds eru á fljúgandi ferð. Gengið sígur nú í rykkjum í höndum ríkisstj. og mun hún engu aðhaldi fá við komið ef svo fer fram sem horfir. Í peningamálum riðlast öll stefnumið. Sparifjármyndun dregst harkalega saman, enda brýtur ríkisstj. lög um vaxtarkjör innlána. Þökin á útlánum bankakerfisins eru fokin af fyrir mitt ár og óhugsandi að byrgja þann brunn á þessu ári, ella stöðvast atvinnu­reksturinn í landinu. En ríkisstj. seilist auk þess sjálf í ráðstöfunarfé bankanna til framfærslu sér. Erlendar lántökur eru stórauknar og nýju fjármagni er dælt inn í æðar verðbólgukerfisins. Viðskiptahalla er spáð við út­lönd. sem nemur 20 þús. millj. kr., sem eykur á erlenda skuldabyrði þannig að miðað við gjaldeyristekjur nálgast afborgana- og vaxtabyrði erlendra lána óbærilegt mark. Í fjárfestingarmálum stefnir hið opinbera í yfir 20% magnaukningu á árinu. Það eru aðhaldsaðgerðir í lagi eða hitt þó heldur.

Um ríkisfjármál er það að segja, að sett hafa verið eyðslufjárlög og í tilhlaupi að setja lánsfjárlög þar sem öll aðhaldsstefna er rokin út í veður og vind.

Ég hef hér á undan vikið að 9 fyrstu línunum í stjórn­arsáttmála ríkisstj. Næstu þrjár fjalla um það — og forsrh. las þær upp, að ríkisstj. muni vinna að hjöðnun verðbólgu þannig að á árinu 1982, eftir tvö ár, verði verðbólga á Íslandi orðin svipuð og í helstu viðskipta­löndum okkar. Forsrh. láðist að geta þess, í hvaða átt miðaði nú. Menn skilja þetta svo, að stefnt sé að 10–12% verðbólgu eins og þar tíðkast. Sem áfanga á þeirri leið ætlaði ríkisstj. að ná því marki að verðbólgan yrði 30% a þessu ári. Nú óttast menn hins vegar að hún muni verða tvöfalt hærri. Á 30% verðbólgustiginn hvíla forsendur bæði fyrir fjárl, og lánsfjárlögum. Þær for­sendur eru því á sandi byggðar.

Og þá er komið að 13. línunni í stjórnarsáttmálanum á 1. síðu. Þar segir, að á undanförnum árum hafi staðið yfir mikil átök um launamál. Ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að leysa þau mál með samstarfi og samráði, og til þess hvatti menntmrh. æ ofan í æ og ákallaði forustumenn vinnumarkaðarins sárlega í ræðu sinni áðan. Fyrstu 12 línurnar eru sem sagt um meginverkefni, sú 13. er um höfuðáhersluna. Það er skemmst frá að segja, að venju­legum mönnum er með öllu óskiljanleg sú fyrirlitning sem ríkisstj. hefur sýnt aðilum vinnumarkaðarins. Alls ekkert samráð eða samstarf hefur verið við þá haft af hálfu ríkisstj.

Nú er það öllum vitanlegt, að Dagsbrún og Verka­mannasambandið annars vegar og Vinnuveitendasam­band Íslands hins vegar hafa í samningum sínum verið mótendur þeirrar almennu launastefnu sem ráðið hefur í þjóðfélaginu um árabil. Þessir aðilar hafa ítrekað óskað eftir þríhliða samningaviðræðum við ríkisstj. um launakjarastefnu sem væntanlega gæti samrýmst mark­miðinu um verðbólguhjöðnun. Ríkisstj. hefur ekki látið svo lítið að virða þessa aðila svars, hvað þá meir. Nú er komið að því að leita eftir viðræðum, þegar allt er að verða um seinan. Þess í stað heldur ríkisstj. áfram skatt­píningarstefnu sinni með tugmilljarða nýjum álögum á almenning án þess svo mikið sem að virða viðlits ýmsa þá forustumenn launþegasamtakanna sem að öðru jöfnu hefðu getað talist hallir undir hana. Alþb. þóknast enn að hafa einn slíkan forustumann í þingliði sínu, Guðmund J. Guðmundsson. Svo mjög var að honum sorfið í skatta­herferð ríkisstj. að hann neitaði að ljá lengur fylgi sitt og lagðist í strok vestur í Stykkishólm. Lá við borð að ríkisstj. yrði undir í örlagaríkri atkvgr. á Alþingi. Hékk líf hennar raunar á bláþræði.

En hvernig skyldu sakir standa á vinnumarkaðinum eins og nú er komið málum? Allir samningar eru lausir og ríkisstj. hefur stórspillt fyrir möguleikum á skaplegri lausn í kaupgjaldsmálum. Er mönnum t. d. ljóst að kröf­ur Dagsbrúnar um breytta flokkaskipan samsvara 8% kauphækkun, og það er þeirra eigið mat. Fyrir liggur svo 5% kauphækkunarkrafa Alþýðusambands Íslands til viðbótar. Nýjustu upplýsingar benda til að vísitala framfærslukostnaðar hækki nú um 13.2% og kaupgjaldsvísitala um nær 12% frá 1. júní n. k. að telja. Ef svo fer fram sem horfir geta menn innan skamms staðið frammi fyrir hækkun almenns kaupgjalds í landinn um meira en 30%,. Og hvað þá, hæstv. ríkisstj.? Megum við fá meira að heyra af særingum ykkar yfir verðbólgudraugnum.

Tími minn leyfir ekki að ég fletti við fyrsta blaðinu í stjórnarsáttmálanum. En á því aftasta stendur heilagt loforð um það, að staðið verði við fyrirliggjandi vegáætl­un fyrir 1980–1982. Ég skal ekkert segja um það, hvernig viðhorfið er í hinum einstöku kjördæmum, en ég kann viðhorfið í Austurlandskjördæmi. Þar skortir á 600 millj. kr. að staðið sé við þá vegáætlun sem afgreidd var hér á þinginu í fyrra. 4.5 milljarða vantar til þess að standa við þetta dýra loforð í stjórnarsáttmálanum.

Ég vil geta um þau tíðindi hér, að 18 stjórnarand­stöðumenn Sjálfstfl. hafa í dag lagt fram á Alþingi till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði undir forustu Egils Jónssonar og Steinþórs Gestssonar. Mikilvægasta nýmælið í þeirri till. er að hafna hinu svonefnda kvóta­kerfi. Ítrekuð er áhersla sem er lögð á beinar greiðslur til bænda.

Herra forseti. Það er trúlegt, þótt heimildir séu að vísu ekki traustar, að almenningur hafi bundið nokkrar vonir við breytingu til batnaðar um stjórn landsins við myndun núv. ríkisstj. A. m. k. er líklegt að fáir hafi trúað því, að þessi ríkisstj. yrði skilgetið afkvæmi 13 mánaða stjórnar Ólafs Jóhannessonar, þar sem nokkrir þm. Sjálfstfl. hafa tekið að sér hlutverk Alþfl. með enn minni áhrifum en hann hafði, að því er best verður séð. Stjórnarmyndunin átti einnig fylgi að fagna í röðum sjálfstæðisfólks í upphafi, enda þótt flokksráðið tæki einarða afstöðu til þess, að flokkurinn yrði í stjórnarandstöðu, þegar stjórnarsáttmálinn sjálfur hafði séð dagsins ljós. En það var ekki að undra þótt fólk léti blekkjast, eins og matreiðsla málanna var í fjölmiðlum án þess að vörnum yrði við komið. Hins vegar hefðu menn átt að geta látið stjórnarsáttmálann sjálfan sér að kenningu verða, a. m. k. sjálfstæðisfólk, því að þar var ekki að finna eitt einasta atriði sem máli skiptir af höfuðstefnumálum Sjálfstfl., fyrir utan almenn skrautblóm sem nælt var við þetta hrófatildur, eins og það að forsenda fyrir sjálfstæði þjóð­arinnar sé að treysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Stjórnmálaflokkarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir seinagang við stjórnarmyndun og á það hefur verið minnst hér á liðnum vetri. Sjálfstfl. vísar slíkum ásökun­um á bug, nema að því leyti sem flokkurinn getur talist bera ábyrgð á varaformanni sínum. Sjálfstfl. komst aldrei á skrið í umr. um stjórnarmyndun við aðra flokka. Alþfl. þorði ekki, enda áhugi okkar lítill, en hinir tveir flokkarnir, sér í lagi Framsfl., allan tímann uppteknir af leikbrögðum Ólafs Jóhannessonar og varaformanns Sjálfstfl.

Frá því að kosningaúrslitin lágu fyrir í desemberbyrjun og fram til þess dags að stjórnin var mynduð léku þeir tveir, Ólafur Jóhannesson og Gunnar Thoroddsen, á bak við tjöldin af mikilli snilld og bragðvísi. Að vísu unnu þeir lengst að því að ná saman stjórn Alþfl. og Framsfl. með stuðningi þm. úr Sjálfstfl., vegna þeirrar skoðunar Ólafs Jóhannessonar að Alþb.-menn væru óhæfir í ríkisstj. og mun hann sjálfsagt hafa heyjað sér þá reynslu í síðustu stjórn sinni. Þetta fór þó á annan veg. En til­ganginum var þó náð þar sem báðir kapparnir fengu völd fyrir snúð sinn, þótt þau virðist ætla að verða dýru verði keypt fyrir þjóðina.

Herra forseti. Það tjóar ekki að sakast um orðinn hlut, enda leikur hver eins og lund er til. Nú ríður á að allir sjálfstæðismenn nái höndum saman á nýjan leik að vinna að framgangi stefnu flokksins sem ein er þess megnug að brjóta þjóðinni leið út úr ógöngum óðaverðbólgu og öngþveitis sem nú blasir við. Áralöngu illvígu manntafli, sem lamað hefur starfsþrek Sjálfstfl., skal nú ljúka. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Sjálfstfl. er reynslunni ríkari og mun draga réttan lærdóm af henni. Mestu máli skiptir að innviðir hans eru svo sterkir, að átökin hafa ekki leitt til klofnings. Þegar af er þessi ótíð sem nú lifum við mun Sjálfstfl. ganga fram fyrir skjöldu á nýjan leik í stjórnmálum. heilsteyptur og harðskeyttur í þjóðmálastarfinu. Andstæðingum okkar væri nær að hugsa til leiksloka en að hlakka nú yfir vopnaviðskiptum.

Þeir skyldu einnig líta sér nær, Alþb.-menn og fram­sóknarmenn, og hugleiða hvort til frama eða farsældar verður fyrir flokka þeirra að gefa sig að vinnubrögðum slíkum sem þeir viðhöfðu við myndum núv. ríkisstj.

Þjóðin kýs menn á Alþingi til að fara með æðstu stjórn mála sinna. Í samningum stjórnmálaflokka um þá stjórn hlýtur þjóðin að krefjast þess að heiðarleiki og hrein­skiptni ráði milli manna og á milli flokka. Ella eru lýð­ræðinu brugguð banaráð.