19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2903 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlust­endur. Alþingi það, sem nú er að ljúka störfum, hefur verið óvenjulegt á ýmsa lund. Það hefur verið stutt þing sem í raun og veru hóf ekki störf með markvissum hætti fyrr en eftir myndun ríkisstj. 8. febr. s. l. Áður hafði ríkt starfsleysi og kyrrstaða. Afleiðing þessa hefur verið sú, að ríkisstj. og stuðningslið hennar hefur þurft að vera í kapphlaupi við að vinna þau verk og afgreiða þau mál sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið lokið við mörgum mánuðum fyrr. Að þessu leyti og einnig á hinu almenna sviði efnahagsmála hefur ríkisstj. fengið erfitt hlutverk við að fást, líklega erfiðara en flestar eða allar ríkisstjórnir aðrar hér á landi. Þessi aðstaða hefur takmarkað eða nánast gert að engu það svigrúm sem ný ríkisstj. hefur venjulega fengið í upphafi starfsferils til stefnumarkandi kerfisbreytinga hvað snertir hin veiga­mestu mál. Svo var t. a. m. hvað varðar fjárlög og ýmis þýðingarmikil málefni sem þeim eru tengd. Þau varð að afgreiða með eins skjótum hætti og mögulegt var.

En ríkisstj. tók einnig við uppsöfnuðum vanda og miklum fjölda óleystra mála í hinum ýmsu ráðuneytum. A. m. k. var það svo hvað landbúnaðinn áhrærði. Svo­kölluð starfsstjórn Alþfl., sem setið hafði í óþökk þorra landsmanna, en því miður á ábyrgð stærsta flokks þjóð­arinnar, hafði sýnt hlýhug sinn í garð landbúnaðarins með því að stöðva ýmsar lögboðnar greiðslur og gera afturreka löglega teknar ákvarðanir sem snertu hagsmuni bændastéttarinnar. Breytinga var því þörf þegar stjórnarskipti urðu.

Nú hefur verið leyst úr flestum þeim brýnu hags­munamálum bænda sem kyrrsett höfðu verið í stjórn­artíð Alþfl.-manna, en sum þeirra höfðu þó jafnvel frest­ast allt frá því að þingi lauk fyrir einu ári.

Mörg viðfangsefni eru nú til meðferðar, sum er snerta erfið vandamál, en önnur sem vekja bjartsýni. Sett hefur verið nefnd til að móta landbúnaðarstefnu. Sú nefnd á einnig að gera till. um á hvern hátt verði mætt vanda bænda vegna óverðtryggðar framleiðslu á þessu verð­lagsári. Þá er unnið að mati á þjóðhagslegu gildi landbúnaðarframleiðslunnar, einkum þess hluta hennar sem er umfram innanlandsneyslu. Ég geri mér vonir um að sú úttekt leiði í ljós með órækum hætti, að það sé þjóðinni í heild hagstætt að framleiða meira af sauðfjárafurðum en neytt er í landinu sjálfu. Á hinn bóginn virðist auðsætt að nauðsynlegt sé að draga saman mjólkurframleiðsluna því erlendi markaðurinn hefur brugðist á undanförnum árum, einkum vegna þess hvað verðlagsþróun hefur verið óheppileg hér innanlands í verðbólguflóðinu.

Samdráttaraðgerðir þurfa að gerast í áföngum. Það kvótakerfi, sem forustumenn bænda hafa valið af nokkr­um leiðum sem lagaheimildir eru fyrir, hefur sýnilega mikla vankanta og er torsótt í framkvæmd. Á þessari stundu verður ekki fullyrt um framgang þess nema takist að finna leiðir til þess að klippa af því verstu ágallana. Hafa ber þó í huga að allar samdráttaraðgerðir hafa ókosti sem torsótt verður að komast hjá.

Stefnt verður að því að efla nýjar búgreinar og aukabúgreinar eftir því sem hagkvæmt kann að virðast, enn fremur að hraða byggingu graskögglaverksmiðja og endurreisa Bændaskólann á Hólum, sem er stórmál. Ný landgræðsluáætlun er í undirbúningi. Þá er ákveðið að hefja byggingu á sýruverksmiðju við áburðarverk­smiðjuna í Gufunesi, en sú framkvæmd virðist vera sér­lega hagkvæm.

Landbúnaðarmál eru margslungin. Meginmarkmiðið á þeim vettvangi er efnalega og félagslega sjálfstæð bændastétt, traust búseta um byggðir landsins og fram­leiðsla sem samtímis þjónar þessum markmiðum og hagsmunum þjóðfélagsins í heild.

Ríkisstj. hefur mætt harðari og óbilgjarnari stjórnar­andstöðu en nokkur önnur ný ríkisstj. þann tíma sem ég hef setið á Alþingi. Í þessum umr. hefur raunar ekki mikið heyrst af þessum einkennum stjórnarandstöðunn­ar. Það kom í ljós hjá þeim ræðumönnum, sem slepptu þeirri hörku og óbilgirni sem einkennt hefur málflutning stjórnarandstæðinga að undanförnu, að málflutningur­inn var daufur og kollhúfulegur. Meira að segja síðasti ræðumaður, Sverrir Hermannsson, megnaði varla að færa hlustendum vasaútgáfu af þeirri stjórnarandstöðu sem við höfum mátt búa við hér á hv. Alþingi nú síðustu vikur, enda er það svo, að hann er kunnur fyrir að vera bæði smáyrtur og orðprúður. En ekki hefur alltaf verið slík lognmóða í ræðum stjórnarandstöðunnar sem hefur verið hjá sumum fulltrúum hennar hér á Alþingi í kvöld.

Tekjuöflun ríkisins og útgjöld samkv. fjárlögum hafa verið harðlega gagnrýnd. Alþfl. flutti nokkrar till. um niðurskurð á útgjöldum til landbúnaðarmála, en stjórn­arandstaða Sjálfstfl. aðeins eina lækkunartill. sem hún stóð saman um. Það var 5 milljarða lækkun niður­greiðslna, sem hefði, ef samþ. væri, hækkað vísitölu um 1.5% og launaútgjöld þjóðarinnar í heild um 9.6 milljarða á einu ári. Ekki ein einasta marktæk till. kom fram til lækkunar á öðrum liðum fjárlagaútgjalda.

Hamast var gegn ríkisstj. vegna þess, hve áætlaðar lántökur samkv. lánsfjáráætlun væru óhóflegar. Ekki kom eitt einasta orð um það, hvar draga mætti saman. Á hinn bóginn var það stundum harðlega gagnrýnt að ekki skyldi meira fé útvegað til ýmissa framkvæmdaþátta. Ríkisstj. er úthrópuð fyrir samdrátt í vegamálum. Samt liggur það fyrir að raungildi vegaframkvæmda hækkar um 50% frá fyrra ári, og er þó ekki tekið með í reikning­um það afgangsfé sem Byggðasjóður virðist hafa til þessa viðfangsefnis, sbr. seinustu fréttir þar um. Hitt er aftur rétt, að vegaframkvæmdir vaxa ekki jafnmikið og gert hafði verið ráð fyrir á síðasta ári.

Skattamálaumr. hefur að mestu verið borin uppi af blekkingaleik. Í okkar verðbólguþjóðfélagi eru víða vandamál og þeim fylgja tíðum óánægjuraddir. Hafi stjórnarandstaðan haft grun um að erfiðlega horfi hjá einum starfshópi eða öðrum er ekki til sparað að freista þess að magna óánægju, glæða kröfugirni og skapa tortryggni og spennu. Jafnvel í sömu andránni er slegið á strengi gagnstæðra hagsmuna á víxl. Svo var t. a. m. á Alþingi í fyrradag, þegar einn þm. stjórnarandstöðunnar lagði sem oft áður nú um sinn kapp á að ögra forvígis­mönnum launþegasamtakanna til kröfugirni og nefndi jafnvel einstaka forustumenn þeirra með nafni í þeim tilgangi að særa þá til að láta ekki sinn hlut eftir liggja. Í sömu ræðunni gerðist hann annað veifið málsvari at­vinnuveganna, sem hann kvað ekki þannig í stakk búna að þeir gætu bætt á sig útgjöldum. Ekki þýðir að afsaka þvílíkan málflutning með því að hann byggist á skiln­ingsleysi eða fávisku. Það er ekki ástæðan, heldur mun þessi hráskinnaleikur stundaður af ráðnum hug í þeim tilgangi að ögra hagsmunahópum þjóðfélagsins til átaka og hóflausrar kröfugerðar í von um að okkar veika efna­hagskerfi fari úr böndunum, því að þá muni ríkisstj. fá á baukinn.

Á síðustu árum hafa sést merki þess, að óprúttni og blekkingar í stjórnmálum séu þjóðinni lítt að skapi. Þau dæmi, sem að framan eru rakin um stjórnarandstöðuna, gefa þó sum hver tilefni til þess að sterkari orð væru notuð. Ég vil á þessari stundu aðeins hvetja landsmenn til þess að veita því athygli, hverjir það eru sem fyrir slíkum vinnubrögðum standa. Þegar sjálfstæðismenn leggja slíkt fyrir sig, sem því miður er ekki einsdæmi nú um þessar mundir, þá vil ég einnig spyrja hvort líklegt sé að þetta sé leiðin til sátta í Sjálfstfl.

Herra forseti. Ríkisstj. er staðráðin í því að takast á við dýrtíðina með festu og aðhaldsaðgerðum. Kerfis­breytingar þarf að undirbúa fyrir næsta Alþingi, t. a. m. í ríkisfjármálum og vísitölumálum. Á þeim vettvangi þarf ríkisstj. að leita sátta við aðila í þjóðfé­laginu, bæði á sviði samtaka launamanna og atvinnu­rekenda. Það er mikils virði fyrir ríkisstj. og raunar al­ger forsenda, að hún hafi skilning og traust fólksins í landinu, svo að árangri verði náð. Hvert vísitölustig niður á við er spor í rétta átt. Þau spor verða ekki öll tekin í einu stökki. Við skulum minnast þess, að birtu­tíminn lengist frá vetrarsólstöðum til vors aðeins um eitt hænufet á dag, en endar þó í albjörtum degi. Ef svo tekst til í baráttu við verðbólguna er víst að ríkisstj. nær því, sem er höfuðmarkmið hennar, að treysta efnahagslíf og atvinnulíf íslenskrar þjóðar.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég þakka þeim sem hlýtt hafa. — Góðar stundir.