19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

Almennar stjórnmálaumræður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Í umr. hér í kvöld hafa fulltrúar Alþb. sérstaklega státað af þremur frum­vörpum. Þessi frv. eiga það sammerkt að þau hafa öll verið samin undir stjórn fyrrv. ráðh. Alþfl., Magnúsar H. Magnússonar. Þá var hæstv. forsrh. býsna góður með sig, þegar hann taldi upp þau mál sem afgreidd hefðu verið á Alþingi á skammri stjórnartíð núv. ríkisstj. En ekki er nú stjórnin á stjórnarliðinu meiri og betri en svo, að við afgreiðslu á lögum frá Nd. s. l. miðvikudagskvöld var svo stór hópur stjórnarliða fjar­verandi að lögin rétt seigluðust í gegn með stuðningi stjórnarandstöðunnar.

Herra forseti. Ég minnist þess ekki um langt árabil að hafa orðið var við jafnmikið öryggisleysi og jafnvel ótta við framtíðina eins og nú ríkir hjá miklum meiri hluta almennings um efnahag og afkomu. Þessu valda margir samtvinnaðir þættir. Fram undan eru erfiðir kjarasamningar þar sem hvergi grillir á ljósan blett. Stórfelldar skattahækkanir í formi útsvars, tekjuskatts­hækkana og söluskattshækkunar auk annarra nýrra álaga munu bitna harkalega á miklum fjölda launþega. Það verða engir tölvuútreikningar sem segja fólki hver kjör þess verða. Þar ræður kaupgetan. Það verða buddan og sparisjóðsbókin sem þar segja sannleikann. Horfur á vinnumarkaði eru óljósar, m. a. vegna rekstr­arfjárskorts fyrirtækja, uppsagna í einstökum atvinn­ugreinum og vegna tímabundinna veiðistöðvana. Fiskifræðingar hafa dregið upp dökka mynd af ástandi fiskstofna, og gætt hefur sölutregðu á íslenskum fiski á Bandaríkjamarkaði. Þetta eru nokkur þeirra atriða er valda öryggisleysi og jafnvel svartsýni um næstu framtíð.

Það er þó að mínu mati sýnu alvarlegast, að ríkisstj. hefur ekki mótað neina stefnu í kjaramálum aðra en þá að lýsa því yfir að grunnkaupshækkanir komi ekki til greina, og ekki bætir þvermóðska atvinnurekenda úr. Ofan á stefnuleysi ríkisstj. í kjaramálum bætist svo það, að um þessar mundir er stefna hennar í efnahagsmálum almennt afskaplega óljós og ekkert útlit fyrir að hún nái þeim fáu markmiðum sem hún setti sér í upphafi með svokallaðri niðurtalningu verðbólgu. Eyðurnar í efna­hagsstefnunni eru margar. T. d. hafa engar ákvarðanir verið teknar um það, hvernig afla skuli fjár vegna mikill­ar umframþarfar á útflutningsupphótum, en þar er ekki hlaupið á millj. kr., heldur milljörðum kr. Eða hvað ætlar ríkisstj. að gera nú 1. júní? Hún hefur boðað að launa­hækkanir megi ekki verða meiri en 7–8%, en hækkun á framfærsluvísitölu er þegar komin yfir 13%. Líklega er ríkisstj. einmitt nú að reyna að senda þingið heim svo að hún geti sett brbl. og bundið launahækkanir. Þessu til viðbótar virðist stjórn fiskveiðimála vera að fara úr böndunum. Í orkumálum skortir stefnu að því leyti, að aðeins er ákveðið að auka rafmagnsframleiðsluna, en ekki hvernig nýta skuli orkugjafana þjóðinni til hagsbóta.

Eftir slíka upptalningu hljótum við að spyrja hvort einhver batamerki séu fram undan. Það verður ekki séð í skjótu bragði. Tilurð og samsetning núv. ríkisstj. vekur ekki miklar vonir um mikinn árangur á næstu misserum. Það vekur ekki miklar vonir að sjá ráðh. í sömu ríkisstj. sitja hlið við hlið og vera ýmist með eða móti atkvgr. um veigamikið utanríkismál, eins og gerðist á þingi hér í dag, þegar Jan Mayen samningurinn við Norðmenn var af­greiddur. Það vekur ekki vonir manna um bjartari framtíð þegar líf ríkisstj. hangir á bláþræði örfárra manna sem klufu sig út úr Sjálfstfl. til að hljóta væntan­lega einhverja umbun. Alþb. styður ekki þessa ríkisstj. í veigamestu málaflokkum utanríkismála og ekki í af­drifaríkum þáttum efnahagsmála, t. d. vaxtamálum og stóriðjumálum. Framsfl. er þungamiðjan í þessari ríkisstj. og því mun Framsóknaráratugurinn verða fram­lengdur, eins góða raun og hann hefur gefið — eða hitt þó heldur.

Það er spá mín að Alþb. sé þessari ríkisstj. hættulegra en nokkru sinni núv. stjórnarandstaða. Þannig hefur það verið í öllum ríkisstjórnum sem Alþb. hefur setið í og þar sem nauðsynlegt hefur verið að takast á við alvarlegan efnahagsvanda. Alþb. getur stjórnað þegar nóg er til af peningum og hægt að sóa og sólunda. En þegar til kast­anna kemur og erfiðrar ákvarðanatöku, þá velur Alþb. oftar en ekki þá stefnu að láta öðrum eftir að axla ábyrgðina og geta svo við hvaða aðstæður sem er staðið fyrir utan og gagnrýnt.

Þess er skemmst að minnast, að það var Alþb. sem einkum lagðist gegn skynsamlegum till. Alþfl. í síðustu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, — till. sem hefðu forðað þjóðinni frá þeim vanda sem hún er nú komin í. Og því betur sem ég kynnist starfsháttum Alþb., því meir undr­ast ég hvernig því tekst að slá ryki í augu kjósenda sinna ár eftir ár. Núv. ríkisstj. er ekki öfundsverð af þátttöku Alþb., enda verður sá flokkur stjórninni fjötur um fót, sá fjötur er fellir hana að lokum.

En hvernig eru þá horfurnar? kann einhver að spyrja eftir þessa voðalegu upptalningu. Við óhreyttar aðstæð­ur, sama hvaða verðmælir er notaður, verður verðbólgan 45–50% á þessu ári. Í þeim útreikningum er ekki gert ráð fyrir grunnkaupshækkunum né öðrum hækkunum umfram það sem ríkisstj. telur unnt að leyfa. Það er ekki heldur reiknað með neinum skakkaföllum af ytri ástæð­um, svo að lítið þarf að breytast til að þessar tölur hækki að mun. Vöruskiptajöfnuður þjóðarinnar er fremur hagstæður, enda veiddur meiri fiskur en fiskifræðingar telja heppilegt að gera. Ég hef nefnt hér orkumálin og iðnaðarmálin. Í nágrannalöndum okkar eru nú að koma fram að fullu áhrif olíuverðshækkana er koma fram í hækkandi innflutningsverði hér á landi á næstu mánuð­um. Og enginn veit með nokkurri vissu hvað gerast kann á olíumarkaðinum. Það eru því hvorki ytri né innri ástæður til að vænta umtalsverðra breytinga til batnaðar á næstu misserum.

En þó ég hafi nokkrar áhyggjur af þróun efnahagsmál­anna, þá finnst mér jafnvel alvarlegri sú óáran sem ríkir hjá þjóðinni sjálfri í öllum afmörkuðum samskiptum. Ég hef margoft varað við þeirri þróun, að sambandið rofnaði á milli hinna dreifðu byggða og þéttbýlis. Þar eru sökudólgarnir röng landbúnaðarstefna og metingur, skilningsleysi milli þjóðfélagshópa. Af sömu rótum eru slit upprennandi þjóðfélagsþegna við atvinnulífið og al­þýðumenningu. Það, sem af þessum vinslitum getur hlotist, er mun uggvænlegra en nokkurra ára verðbólga, ef mælt er í stikum aldanna. En ekki hvarflar að mér eitt augnablik að kenna núv. ríkisstj. um allan þennan vanda. Þessi vandi hefur verið að safnast saman og hrúgast upp á undanförnum árum, þegar allir stjórnmálaflokkar hafa farið með völd. Og í efnahagsóreiðunni er það alltaf lágtekjufólkið og hinir öldruðu og öryrkjar sem verða harðast úti. Svo verður áfram á meðan ríkisstjórnir stjórna ekki, en láta ávallt undan kröfum þrýstihópa, láta undan hinum háværa minni hl., það var m. a. ótti við þessa þrýstihópa sem olli því, að Alþb. og Framsfl. þorðu ekki að samþykkja efnahagstill. Alþfl. í síðustu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Ríkisstjórnir hafa alltaf verið að gefa eftir í stað þess að skapa þjóðareiningu í baráttunni við vandann. Þess vegna æðir verðbólgan áfram og skerðir lífskjörin. Þjóðin er svo sem ekki að komast á neinn vergang, en ár eftir ár eyðir hún meiru en hún aflar og leggur að veði efnahagslegt sjálfstæði sitt og það illa gerist, að hinir efnuðu verða alltaf efnaðri, en hinir stöð­ugt efnaminni. Ég sé a. m. k. ekki merki þess, að hinir efnameiri hafi orðið að rifa seglin undanfarna mánuði á meðan stöðugt þrengist hagur láglaunaheimilanna.

Hlustendur eru vafalaust hundleiðir á þessu stöðuga tali um verðbólguna og láglaunafólkið, en niðurstöðurn­ar eru engu að síður staðreyndir. Kannske skiptir það svo höfuðmáli, að almenningur er löngu hættur að taka mark á tilraunum ríkisvaldsins til að berja niður verðbólguna, og vart mun núv. ríkisstj. bæta úr því trúleysi. Það er mín persónulega skoðun, að stjórnmálaflokkarnir hafi í raun svikist undan þeirri frumskyldu sinni að reyna að ná samstöðu um þjóðareiningu, vekja og efla tilfinningu þjóðarinnar fyrir kostum þess að búa á Íslandi og njóta þess sem landið hefur að bjóða umfram flest önnur. Til að þetta megi takast þarf raunverulega þjóðarvakningu. En þar sem stjórnmálaflokkarnir hljóta að endurspegla vilja þjóðarinnar má kannske tala um svik í víðari merkingu.

Fyrir tveimur áratugum varaði Alþfl. alvarlega við afleiðingum rangrar landbúnaðarstefnu. Allir muna hvernig fór. Fyrir tveimur árum varaði Alþfl. alvarlega við afleiðingum rangrar efnahagsstefnu og lagði til að henni yrði breytt. Því var hafnað. Við skulum þó vona að núv. ríkisstj. beiti einhverjum af vopnum Alþfl., rétt eins og hún hefur að undanförnu flutt hvert frv. á fætur öðru sem ráðh. Alþfl. létu ganga frá. Og enginn getur verið svo hatrammur andstæðingur núv. ríkisstj. að hann óski henni ekki velfarnaðar í baráttunni við höfuðóvin ís­lenskra alþýðuheimila, verðbólguna. Um leið hljótum við að bera fram þá ósk við þinglok og í sumarbyrjun, að þjóðinni í heild farnist vel til lands og sjávar og fram undan sé betri tíð með blóm í haga. — Gleðilegt sumar.