20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2916 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við í fjh.- og viðskn. lögðum á það hina mestu áherslu fyrir helgina að skila nál. í þessu máli og hefðum þá út af fyrir sig þurft lengri tíma til að vinna í máli þessu, en við skiluðum nál. eigi að síður til þess að þetta mál mætti ná fram að ganga áður en þingi lýkur. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þetta mál geti gengið hið fyrsta til Ed., því að um mál þetta er, að mínu mati, góð samstaða og ætti ekki að vera eitt af þeim málum sem væru nokkurn veginn í kyrrstöðu í Nd.

Á nál. á þskj. 558 stendur m. a. að í n. hafi komið fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að greiða olíustyrk vegna atvinnuhúsnæðis og ýmissa opinberra bygginga annarra en skólahúsnæðis og heimavista, sbr. 7. gr. Þar sem fjármagn til þessara mála hefur verið ákveðið samkv, fjárlögum gerir n. ekki tillögu um þetta, þar sem slíkt framlag kæmi til lækkunar öðrum styrkjum. Ég sé hins vegar að hv. þm. Sverrir Hermannsson og Matthías Á. Mathiesen, sem undirrituðu nál. með fyrirvara, hafa flutt brtt, um þetta efni á þskj. 563 og skal ég ekki ræða þetta mál frekar, en þeir munu væntanlega gera grein fyrir þeirri brtt.

Þá kom fram brtt. á þskj. 550 frá hv. þm. Sigurgeiri Bóassyni, þar sem hann leggur til að það verði sett ákvæði í lögin um hvenær styrkurinn skuli í síðasta lagi greiddur. Eftir því sem ég hafði tækifæri til reyndi ég að kanna þetta mál. Ég vil aðeins segja það, að við álítum ekki rétt að festa slíkt í lög að svo komnu máli, en nauðsynlegt er að setja um það ákvæði í reglugerð til að tryggja að ekki verði dráttur á að styrkurinn sé greiddur móttakanda. Hér er fyrst og fremst um að ræða að við­komandi sveitarfélög hafa ekki skilað styrknum til mót­takenda, enda kom fram, að fjmrn. greiðir styrkinn reglulega, samkv. upplýsingum frá því. Ég vil undirstrika það, að ef veruleg brögð eru að því að styrkur þessi sé ekki greiddur innan ákveðinna tímamarka er nauðsyn­legt að setja um það ákvæði í reglugerð. Það hlýtur að vera mun eðlilegra að slík atriði séu ákveðin í reglugerð. Vænti ég þess, að hv. þm. Sigurgeir Bóasson geti fallist á þann gang mála. En n. tekur undir þetta sjónarmið.

Athyglin beindist fyrst og fremst að ákvæðum 15. gr. frv., en þar segir:

„Til að tryggja að innlendir orkugjafar séu sam­keppnishæfir við olíukyndingu er heimilt að veita varmaveitum framlag til að jafna þann mun sem orku­verð þeirra er metið hærra en sem nemur hitunar­kostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk.“

Nú vil ég taka skýrt fram, að það voru allir á einu máli um að olíustyrkurinn væri tiltölulega lágur og þyrfti að vera mun hærri til að jafna þann mikla aðstöðumun sem er í landinu. Hitt er svo annað mál, sem ekki verður fram hjá gengið, að með því að borga olíuna niður getur það komið upp í ákveðnum tilfellum að slíkt dragi úr vilja manna og áhuga á að nýta innlenda orkugjafa. Það er ekki tilgangur þessa frv., þvert á móti. Þess vegna vildum við reyna að gera hvað við gátum á þessum stutta tíma til að skilgreina með einhverjum hætti 15. gr. Ég vil í því sambandi vísa til nál., en þar kemur fram m. a.:

„Greininni er ætlað að tryggja að ekki dragi úr áhuga við nýtingu hagkvæmra innlendra orkugjafa vegna styrks til húshitunar með olíu. N. þykir nauðsynlegt að settar verði reglur um framlög til varmaveitna, sem eru „þjóð­hagslega hagkvæmar“,“ — það má náttúrlega alltaf deila um hvernig skilja beri þetta hugtak, „þjóðhagslega hagkvæmt“, sem mikið er notað þessa dagana — „en eru fyrst í stað ekki samkeppnisfærar við húshitun með olíu að frádregnum olíustyrk. N. telur að hér verði eingöngu um undantekningartilvik um takmarkaðan tíma að ræða. Til viðmiðunar í þessu sambandi vill n. taka fram eftir­farandi:

Greiða má tímabundið framlag til varmaveitna, sem starfa á vegum opinberra aðila og hafa samþykktar gjaldskrár, sem fela í sér hærra orkuverð en nemur hús­hitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk, en lægra en nemur olíuhitunarkostnaði. Framlagið miðist við það, að hjá varmaveitum, þar sem hitunarkostnaður fer fram úr 90%. af hitunarkostnaði með olíu að frá­dregnum olíustyrk, er heimilt að greiða viðkomandi varmaveitu sem nemur 90% af þeim mun sem þannig myndast. Framlagið má þó ekki vera hærra en sem nem­ur þeim olíustyrk., er fallið hefði til íbúa þeirra húsa sem tengd eru slíkum veitum. Framlaginu skal fyrst og fremst varið til að lækka stofnkostnað viðkomandi veitu. Matið á gjaldskrám og samanburður við olíuverð skal miðast við samræmdar reglur sem iðnrn. setur um viðmiðunar­húsnæði, dreifingu stofnkostnaðar, fjármagnskostnað, ákvörðun heimæðagjalds sem hlutfalls af stofnkostnaði og annarra atriða er máli skipta.“

Einnig kom það fram í n. og n. varð um það sammála að óska eftir því, að Alþ. verði gerð grein fyrir fram­kvæmd laganna fyrir þinglok 1981.

Það, sem hér skiptir meginmáli, er að við samræmdar reglur sé miðað þannig að varmaveiturnar séu afskrifað­ar með sambærilegum hætti, að viðmiðunarhúsnæði sem við er miðað í þessum samanburði, sé hið sama o. s. frv.

Í þessu sambandi vil ég einnig vekja athygli á brtt. frá hv. þm. Eggert Haukdal, sem er um ákvæði til bráðabirgða. Í þeim tilvikum, sem hitunarkostnaður með raforku reynist hærri en hitunarkostnaður með olíu að frádregnum olíustyrk, skal ríkisstj. heimilað að jafna þennan mismun með sérstökum styrk. Hér er vissulega um sambærilegt vandamál að ræða, þ. e. að það getur komið upp í vissum tilvikum að hitunarkostnaður með rafmagni sé meiri en með olíu. Það getur líka komið upp að hitun frá varmaveitu sé kostnaðarsamari en olíuhitun að frádregnum olíustyrk, vegna þess að olíustyrkurinn er miðaður við fjölskyldustærð og miðaður við sérhvern einstakling. Þá fer það vissulega eftir því, hvað viðkom­andi einstaklingur býr í stóru húsnæði. En hinu skulu menn ekki heldur gleyma, að upphitun með rafmagni og fjarvarmaveitu er einnig í mörgum tilfellum ódýrari eftir samsetningu fjölskyldu og húsnæðisstærð.

Ég held að það sé öllum ljóst að við getum ekki farið út á þá braut að greiða upphitunarstyrk til einstaklinga fyrir innlenda orkugjafa og þá í hlutfalli við fjölskyldustærð, húsnæði og annað þess háttar. Hér hlýtur fyrst og fremst að vera um gjaldskrármál að ræða.

Ég vil taka fram í sambandi við Rafmagnsveitur ríkis­ins, að þær miða gjaldskrá sína við að raforkuverð til húshitunar sé ekki hærra en með olíuverð að frádregnum olíustyrk. En þá er það höfuðatriði hvaða viðmiðunar­húsnæði þeir hafa. Þeir miða við ársmeðaltal, en í skýrslu frá Framkvæmdastofnun ríkisins um íbúðarhúsnæði á Íslandi 1975 kemur fram að hitað íbúðarhúsnæði sé að meðaltali á landinu 96.7 rúmmetrar á íbúa. Þetta er það sem Rafmagnsveiturnar miða við. Fram kemur í frv. að húshitunarkostnaður með rafmagni sé fyrir þetta húsnæði 99% af húshitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk.

Það er því ljóst, að sé um minna húsnæði að ræða og marga í fjölskyldu breytist þetta. Það getur því vissulega komið upp að upphitunarkostnaður með rafmagni sé meiri en með olíu að frádregnum olíustyrk. Hef ég í því sambandi fengið upplýsingar, m. a. frá hv. þm. Eggert Haukdal sem hefur látið reikna það út, og eru þessar upplýsingar allar réttar, eftir því sem ég hef best komist eftir. Hér er vissulega um vandamál að ræða sem verður að taka á og verður að glíma við, en ég held að það verði best gert í gjaldskrám Rafmagnsveitna ríkisins. Þá er það út af fyrir sig ákvörðunaratriði Alþingis á hverjum tíma, hvað það vill leggja stórt framlag til Rafmagnsveitna ríkisins, m. a. vegna félagslegra framkvæmda, en Raf­magnsveitur ríkisins fá ákveðið framlag á fjárlögum til þess. Ef hægt væri að hækka það framlag væri vissulega hægt að lækka gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég vil einnig geta þess að það er heimild í 7. gr. frv., — og hefur hún verið notuð, því allar heimildir, sem inn koma í lög, eru til þess gerðar að þær séu notaðar, — í 7. gr. er heimild til að styrkja rafveitur að því marki sem þær nota olíu sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar íbúða á sölusvæði sínu, en nokkuð er um að Rafmagnsveitur ríkisins þurfi að nota olíu til að fram­leiða rafmagn til hitunar íbúða. Er þetta mjög þungur baggi á Rafmagnsveitunum og sá baggi hefur engan veginn verið bættur þeim að fullu í sambandi við þann rekstur. Í þessu frv. eru því fullar heimildir til að greiða Rafmagnsveitunum meira fé, sé það fyrir hendi. En við, sem störfuðum í n., treystum okkur ekki til að leggja það til að rýra þá upphæð sem hér er búið að ákveða í sambandi við olíustyrk.

Ef verulegt fjármagn yrði veitt til ýmissa annarra þátta en hér er gert ráð fyrir hlýtur það að hafa þau áhrif að olíustyrkurinn fyrir hvern einstakling komi til með að lækka. En hins vegar er okkur alveg ljóst það vandamál sem hér er á ferðinni varðandi samanburð við innlenda orkugjafa. Við fengum aftur á móti mjög lítinn tíma til að vinna að þeim málum og gátum ekki gert okkur eins glögga grein fyrir þeim og við vildum hafa gert. Þess vegna settum við í nál. okkar að við óskuðum eftir því, að við fengjum skýrslu og grg. um framkvæmd þessara laga fyrri þinglok 1981, einmitt til þess að geta endurmetið ýmsar heimildir sem eru í þessum lögum. Þessi lög eru mjög í heimildarformi og við töldum nauðsynlegt að fá tækifæri til þess í samvinnu við þau rn., sem um þetta mál fjalla, að skoða þær heimildir að nýju og endurmeta stöðu þessara mála.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa lengra mál varðandi þetta nál. Hér er um mikið réttlætismál að ræða. Þeir, sem búa við þær aðstæður að kynda hús sín með olíu, eru mjög illa settir miðað við marga aðra. Í þessum sam­anburði öllum mega menn ekki láta hann villa sér svo sýn að jafnvel komi til umræðu að draga úr olíustyrknum. Það vill n. leggja ríka áherslu á. Ég vil einnig taka það fram í sambandi við þennan samanburð, að reiknað er með að það þurfi 13 lítra á ári til að kynda hvern rúm­metra húss. Ég held að sú áætlun sé í mjög mörgum tilfellum of lág. 400 rúmmetra hús mundi samkv. því nota 5200 lítra af olíu á ári, en á mörgum stöðum á landinu er notað meira. Þess vegna er allur samanburður í þessu efni alls ekki einhlítur og menn mega ekki líta of fast á þær tölur sem koma út úr þessum samanburði, því að hann er miðaður við ákveðnar forsendur. Einnig má geta þess, að stofnkostnaður í sambandi við hinar ýmsu tegundir af upphitun er mismunandi eftir því, hvort er notað vatnskerfi, þilofnar, blástur eða annað slíkt. Slík atriði eru ekki tekin með í þessum samanburði.

Ég ítreka að n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim hætti sem fram kemur í nál. Við getum ekki samkv. því mælt með því, að breytingar verði gerðar á frv. Við mælum með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Hins vegar tökum við mjög sterklega undir þau sjónarmið, sem koma fram í brtt., og erum að mörgu leyti samþykkir þeim sjónarmiðum. Þó er okkur ljóst að fjármagn þarf til að uppfylla ýmsar óskir sem eru hér til viðbótar.

Þrír nm., hv. þm. Karvel Pálmason, Sverrir Her­mannsson og Matthías Á. Mathiesen, undirrita nál. með fyrirvara, en fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. þm. Albert Guðmundsson.