20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur þæft þetta mál alllengi, en ekki vegna þess að nm. hafi greint á í grundvallaratriðum. Aðilar eru sammála um að bæta þurfi úr í þessum efnum, að hið opinbera og samfélagið þurfi að hlaupa undir bagga og létta hina miklu byrði sem það er mýmörgum heimilum í landinu að kynda hús sín með olíu eins og verðlagi hennar er nú háttað. Það kom fram í umræðum um skattlagningu vegna þessa gjalds, að allir stjórnmálaflokkar voru í þessu efni sammála. Hins vegar greindi menn mjög á um skattheimtuaðferðina og einnig með hvaða hætti lagt var á, þar sem mönnum sýndist seilst lengra en efni stæðu til, og svo er raunar enn enda þótt horfið væri frá hálfu prósenti í sambandi við hækkun söluskatts. Því er það, að þó að brtt. okkar feli í sér einhverja hækkun á olíustyrkj­um er það ætlan okkar að grípa megi til þess sem umfram verður í innheimtu þessa 1.5 söluskattsstigs, enda verður upphæðin áreiðanlega hærri en útreikningar og áætlanir segja til um, þar sem alveg er ljóst að allar verðlagsfor­sendur, sem gengið hefur verið út frá hingað til í sambandi við fjáröflun ríkissjóðs, eru rangar svo munar miklum fjárhæðum.

Ég vil skjóta því einnig inn í, að brtt. þær, sem ég stend hér að, eru alveg sérstaklega fluttar til að styðja við bakið á hæstv. viðskrh. Við erum gamlir og nánir vinir. Mér sýnist að hann hafi orðið undir allharkalega í samningu þessa frv. til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar og hafi þar iðnrn. náð undirtökunum. Ég er með annað frv. í höndum sem fjórir djúphyggjumenn fluttu fyrr á þinginu um þetta efni. Hæstv. viðskrh. er þar einn, en hinir eru Þorv. Garðar Kristjánsson, hv. 4. þm. Vestf., Stefán Jónsson, hv. 4. þm. Norðurl. e., og Eiður Guðnason, hv. 5. þm. Vesturl. — allt saman afrendir menn og gjörkunnugir í þessum efnum, ekki síst hv. 4. þm. Vestf., en viðskrh. ber náttúrlega höfuð og herðar yfir þá vegna stöðu sinnar. Það er ekki síst þess vegna sem ég beitti mér fyrir því, að þessar till. eru fluttar, að mér leist mjög vel á fyrri till., sem fluttar voru í frv. á þskj. 112.

En þetta mál velktist alllengi fyrir n., og það er vegna þess að mjög óljóst er um hvernig framkvæmd kunni að verða á þessum lögum. Fyrir því er það, að flestar greinarnar eru í heimildarformi. Raunar er það svo, að ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðsyn bæri til þess, þar sem erfitt væri að njörva þetta alveg niður, að menn hefðu nokkuð rúmt um hendur í framkvæmdinni. En til þess að Alþ. yrði gerð grein fyrir framkvæmd laganna ­og eins og segir í nál. á þskj. 558: fyrir árslok 1981. Menn töldu ekki að haldbær reynsla hefði fengist fyrr. Þá geta menn af reynslunni dæmt um hvernig til hefur tekist.

Það er rétt, eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Aust­url., Halldórs Ásgrímssonar, að við vorum mjög vokins yfir 15. gr. Og þrátt fyrir það, sem segir í nál. okkar og haft er til viðmiðunar, má segja að nokkuð sé rennt blint í þennan sjó. En eins og ég segi: Við álitum að reynslan verði að skera mjög úr um hvernig skynsamlegast á þessu verður haldið.

Þær brtt., sem ég og hv. 1. þm. Reykn. flytjum, eru þær að inn í frv. bætist ný grein, sem yrði 5. gr., um að í fyrsta lagi verði olíustyrkir greiddir þeim sem nota olíu til upphitunar atvinnuhúsnæðis. Vissulega er það rétt, að kannske er neyðin sárust hjá einstaklingum víða um land, en þó er það svo, að kynding atvinnuhúsnæðis er svo þungbær mörgum, sér í lagi í smærri atvinnurekstri, að kynni að orsaka stöðvun, eða a. m. k. heldur mörgum fyrirtækjum við stöðvun vegna þessa gífurlega aukna kostnaðar.

Þá er í öðru lagi lagt til að olíustyrkir verði greiddir skólum og öðrum menningarstofnunum, sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða og unga. — Þarna er kveðið skýrt á í þessari grein, en ekki eins og segir í núv. 7. gr. um þá heimild sem þar er að finna. Við teljum ástæðu til að þetta sé í gadda slegið.

Það er frá því að segja varðandi heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús, að ákaflega misjafnlega er að verki staðið, þar sem heilsugæslustöðvar eru til að mynda reknar í sambandi við sjúkrahús er sæmilega vel fyrir þessu séð af hálfu hins opinbera, en aftur á móti eiga sveitarfélög, sem annast rekstur heilsugæslustöðva, meira undir högg að sækja. Því þykir ástæða til að ákveða þetta í lögunum.

Í þriðja lagi er lagt til að þeim verði greiddir olíustyrkir sem ekki eiga kost á raforku frá samveitu og verða að leysa raforkuþörf sína með rekstri dísilstöðva. Um þetta eru mýmörg dæmi og sanngjörn tillaga. En af því að ég get ekki gefið mér tíma til að lesa grg. með frv. hæstv. viðskrh. um niðurgreiðslu olíu til upphitunar húsa, vil ég benda hv. þdm. alveg sérstaklega á þetta merkilega og vandaða frv. og þá grg. sem því fylgir, því að þar má lesa nákvæmlega hinn harðmúraða rökstuðning sem fyrir því frv. er og þessar mínar brtt. og hv. 1. þm. Reykn. eru alveg sniðnar eftir. Ég þykist vita að hæstv. viðskrh. muni, ef hann blandar sér í umræðurnar, fagna mjög þessari ábendingu minni. En mér er mjög umhendis þótt það væri, eins og ég segi, ástæða til að ég læsi upp þessa ítarlegu og greinargóðu greinargerð.

4. liður 1. brtt. okkar er um að hitaveitum, sem nota olíu sem orkugjafa, og rafveitum, sem nota olíu til fram­leiðslu rafmagns og upphitunar húsa, verði greiddir olíustyrkir.

Allar þessar brtt. skýra sig sjálfar, en menn geta svo gengið úr skugga um eðli þeirra og sanngirni með því sérstaklega að kynna sér áðurnefnda grg.

Síðan segir enn að í reglugerð skuli kveða á um með hverjum hætti skuli ákveða upphæð styrkja samkv. þessari grein. Skal þá við það miðað að olía verði í hverju tilfelli greidd niður sem mest að sama hundraðshluta og nemur meðalniðurgreiðslum samkv. 4. gr.

Ég legg áherslu á það, að enda þótt þarna þurfi að verja meira fé til niðurgreiðslu olíu en samkvæmt þeirri aðferð, sem frv. býður, má það ekki verða til þess að skerða niðurgreiðslu olíu til heimilanna sem kynda með þessari orku. Eins og ég sagði verður ærið afgangs fram yfir það sem áætlað hefur verið vegna innheimtu sölu­skattsins.

Fyrir því að hér hefur verið lagt til að ný grein bætist inn í er 7. gr. í núv. frv. óþörf, enda lagt til að hún falli niður.

Þá er brtt. við 16. gr. þess eðlis, að iðnrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Ástæðan fyrir þessari tillögugerð er afar augljós. Við flm. teljum hið mesta óráð að tvö rn. véli um þetta mál, það eigi að vera í höndum eins rn. Nógu erfiðlega ganga framkvæmdirnar fyrir sig oft og tíðum þótt aðeins eitt rn. hafi með það að gera, en það þurfi ekki að sækja undir embættismenn í mörgum rn., eins og í þessu falli tveimur, án þess kannske að ástæða sé til. En ósjálfrátt hlýtur manni í svona dæmi að fljúga í hug heilræði Ólafs þá um það að þeim mun verr reynist heimskra manna ráð sem þau koma fleiri saman.